Nú er unnið að undirbúningi verkefnis sem hlotið hefur nafnið Hekluskógar. Hekluskógaverkefnið hefur það að meginmarkmiði að verja land fyrir áföllum vegna gjóskugosa í Heklu. Er hugmyndin að endurheimta náttúrulegra birkiskóga og kjarr á stórum samfelldum svæðum í nágrenni Heklu sem flest eru nú örfoka. Hugmyndafræði Hekluskóga snýst m.a. um að nýta aðferðir náttúrunnar til útbreiðslu gróðurs út frá fræuppsprettum sem komið verður á legg á víð og dreif um svæðið. Einnig verður gróðursettur skógur í stór samfelld svæði. Samtímis verður unnið að uppgræðslu til að stöðva jarðvegseyðingu og binda yfirborðið og þannig bæta skilyrði fyrir landnám í nágrenni við fræuppspretturnar. Til að þetta takist verður jarðvegsyfirborðið að vera stöðugt og ásamt því að sá verður niturbindandi jurtum. Á síðustu árum hefur verið unnið að rannsóknum á skógrækt á örfoka landi bæði hjá Skógrækt ríkisins og Landgræðslunni auk þess að mikil reynsla hefur fengist við landgræðsluskógrækt á slíkum svæðum. Meðfylgjandi mynd sýnir 10 ára gamlar birkiplöntur sem uxu upp í lúpínubreiðum á söndum Þjórsárdals.

Nýlega var skipuð samráðsnefnd um verkefnið þar sem eiga sæti fulltrúar frá Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Suðurlandsskógum, Skógræktarfélagi Árnesinga, Skógræktarfélagi Rangæinga, Landgræðslusjóði og landeigendum. Áður hefur verið unnið að hugmyndinni hjá Landgræðslunni.

Þriðjudaginn 3. maí s.l. var haldinn kynningarfundur í Gunnarsholti um Hekluskóga fyrir eigendur og umráðahafa lands á svæðinu. Fjölmenni var á kynningarfundinum og fengu hugmyndirnar almennt jákvæðar undirtektir.