Mynd: Hreinn Óskarsson
Mynd: Hreinn Óskarsson

Hekluskógaverkefnið hefur eitt aðalmarkmið; að endurheimta birkiskóga á tæplega 1% Íslands eða um 90 þúsund ha svæði í nágrenni eldfjallsins Heklu. Undirbúningur Hekluskóga hófst fyrst hjá Landgræðslu ríkisins upp úr síðustu aldamótum og kom Úlfur Óskarsson, þáverandi starfsmaður Landgræðslunnar, með hugmyndina að verkefninu sem stuðst er við. Fljótlega komu fleiri aðilar á svæðinu að undirbúningi verkefnisins og stofnuð var samráðsnefnd vorið 2005. Eftir ágætan undirbúning nefndarinnar sem í sátu fulltrúar landeigenda á svæðinu, Skógræktarfélaga Rangæinga og Árnesinga, Landgræðslusjóðs, Náttúrufræðistofnunar, Landgræðslu ríkisins, Suðurlandsskóga og Skógræktar ríkisins, var gerður samningur um verkefnið. Hinn 4. maí 2007 skrifuðu landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hins vegar landgræðslustjóri og skógræktarstjóri undir samning um verkefnið og samkvæmt honum eiga Hekluskógar að fá 50 milljóna króna framlag frá ríkinu árlega næstu tíu árin.

Greinagóðar heimildir eru til um skóga og skógarítök starfssvæðis Hekluskóga. Á þessum svæðum uxu miklir birkiskógar fyrr á öldum og allt fram á 19. öldina en þeir eyddust að mestu á 18. og 19. öld af völdum öskufoks og ofnýtingar manna. Heimildir eru til um að stórir hlutar Landskóga og Þjórsárdalsskóga eyddust í sandfellisveðrinu vorið 1882. Enn má finna birkihríslur og skógarlundi á svæðinu, allt frá Hrauneyjum í 420 m hæð yfir sjó og niður í byggðir. Markmiðið með trjáræktinni er nokkuð annað en í hefðbundnum skógræktarverkefnum og snýst ekki um að skapa timburskóga heldur vistkerfi sem verndar jarðveg og minnkar vikurfok í kjölfar eldgosa. Hekluskógar eru því langtímavörn gegn náttúruvá og má líkja skógunum sem binda munu vikur við þær snjóflóðavarnir sem byggðar eru víða um land.



Mynd: Hreinn Óskarsson