Hlíðaskóli tók í vikunni á móti kennurum í Reykjavík sem vildu fræðast um skógartengt útinám. Aðalefni fundarins var kynning á svokölluðu skógarvali en að því stóð hópur nemenda í 9. og 10. bekk sem höfðu valið að vinna í skóginum með Einari Kristjáni Hilmarssyni, smíðakennara og Helgu Snæbjörnsdóttir, náttúrfræðikennara. Þetta er fjórða árið sem þau kenna þetta viðfangsefni og hefur áhuginn aldrei verið meiri meðal nemenda.

Fundarmenn gátu mikið af þessu verkefni lært, t.d. hvað varðar val á viðfangsefnum í námi nemenda og vinnu á vettvangi við að hirða skóginn, nýtingu grisjunarefni til smíða, stígagerð, gróðursetningu á heimræktuðum trjáplöntum, merkingar á einstökum svæðum og söfnun upplýsinga um sögu grenndarskógarins sem er í austanverðri Öskjuhlíð. Það vakti sérstaka athygli hversu manngerð aðstaða til útinámsins er takmörkuð í grenndarskóginu, örfáir drumbar sem sæti og eldstæði sem steinahrúga sem lokað er eftir hverja notkun. Þarna er unnið á forsendum skógarins og hann látin njóta sín til hins ítrasta.

Eftir kynninguna var fundarmönnum skipt upp í hópa sem ræddu um forgangsröðun skógartengdrar fræðslu í framhaldi þessa fundar. Allir hóparnir töluðu um mikilvægi verkefnabankans sem unnið er að uppsetningu á hjá Skógarækt ríkisins og gildi símenntunar í formi jafningjafræðslu. Eftir hópastarfið var farið í grenndarskóg Hlíðaskóla og hann skoðaður undir leiðsögn þeirra Einars Kristjáns og Helgu.

Áætlað er að næsti fundur verði haldinn í Selásskóla í lok janúar.

frett_03112011_2

Myndir og texti: Ólafur Oddsson