Morgunblaðinu í dag birtist aðsend grein eftir Hallgrím Indriðason, skógræktarráðunaut Skógræktar ríkisins, í tilefni af nýlegum deilum í fjölmiðlum um sambýli skógræktar og mófugla. Í greininni kemur m.a. fram að: „Hvorugt þarf að útiloka annað. Þvert á móti ætti hófleg skógrækt á Íslandi að stuðla að auknum lífsgæðum bæði manna og fugla."
Skógrækt í sátt við umhverfið (Morgunblaðið, þriðjudaginn 7. mars 2006)
Í FJÖLMIÐLUM hafa að undanförnu komið fram greinar og fréttir um þá hættu sem íslenskum mófuglum stafar af skógrækt. Helst er að heyra að innan skamms muni meirihluti mólendis og votlendis landsins verða skógi vaxinn og þar með muni þrengja svo að búsvæðum mófugla að hætta stafi af og fækkun þeirra sé óhjákvæmileg.
Í þessum skrifum hafa skoðanir oft verið skráðar skörpum orðum og flestir talið sig vita best. Bæði ræktunarmenn og þeir sem hafa komið fram sem málsvarar mófugla geta vísað til alþjóða samninga til þess að auka skoðunum sínum vægi.
Ísland er strjálbýlasta land Evrópu og í fljótu bragði virðist sem nægilegt rými sé fyrir flestar athafnir okkar. Þrátt fyrir þessar aðstæður hefur búseta okkar haft í för með sér meiri gróðureyðingu en þekkt er annarstaðar í álfunni.
Ég er sannfærður um að flestir sem hér á landi búa stefni í raun með einum eða öðrum hætti að svipuðu marki , þ. e. a.s. gera landið byggilegra fyrir þá sem landið erfa. Ekki er fráleitt að skoðananágreining skógræktarmanna og þeirra sem telja að skógræktin ógni búsvæðum fugla, megi leysa á vettvangi landnýtingar og skynsamlegrar skipulagningar á landsins gæðum.
Fuglaáhugamenn vilja eðlilega að mófuglar fái áfram sitt rými í íslenskri náttúru. Skógræktar og landgræðslumenn vinna með oddi og egg að stöðvun eyðimerkurmyndunar og bændur landsins hafa, með aðstoð landshlutabundinna skógræktarverkefna, öðlast möguleika á að auka verðgildi jarða sinna og sitja að búum sínum með ríkisstyrktri skógrækt. Ég þekki engann skógræktarmann sem kærir sig um að skógrækt stefni lóu- og spóastofnunum í hættu. Þess vegna tökum við því alvarlega þegar ábendingar þar að lútandi koma fram. Slíkar ábendingar þurfa þó að eiga sér stoð í raunveruleikanum.
Hvorugt þarf að útiloka annað. Þvert í móti ætti hófleg skógrækt á Íslandi að stuðla að auknum lífsgæðum bæði manna og fugla.
Landshlutabundnu skógræktarverkefnin eru langstærstu framkvæmdaaðilar í skógrækt á landinu. Alls er gróðursettur skógur í um 1,500 ha. á ári á þeirra vegum, sem er um 80% af allri gróðursetningu á landinu. Skógræktarverkefnunum er ætlað að rækta skóg a a.m.kþ 5% af láglendi undir 400 hæð á um 40 árum. Hér er um að ræða lítið brot af þeim skógi sem fyrrum prýddi landið, en er blásin burt. Það land mun ekki nýtast ákveðnum fuglategundum til varps. Hins vegar ber þess að geta að einnig er unnið ötullega að uppgræðslu örfoka lands og það á tvöfallt til þrefallt stærra svæði árlega en tekið er til skógræktar. Þar skapast skilyrði fyrir varp mófugla og því er hugsanlegt að framboð á landi sem hentar mófuglum til varps sé að aukast en ekki minnka þegar á heildina er litið.
Áður en framkvæmdir hefjast við skógræktina er gerð skógræktaráætlun sem tekur til alhliða landnýtingar á hinu fyrirhugaða skógræktarsvæði. Þessari áætlun er ætlað að tryggja skógrækt í sátt við landið.
Landshlutabundnu skógræktarverkefnin eru einnig, í samvinnu við Skógrækt ríkisins og Skipulagsstofnun, að vinna sérstakt svæðisskipulag (samkv. 15 gr. Skipulags-og byggingarlaga) fyrir hvert skógræktarverkefni. Svæðisskipulagið sem nú bíður staðfestingar umhverfisráðherra er forsögn um það með hvaða hætti skógræktin mun þróast í sátt við umhverfi laga og náttúru á hverjum stað til lengri tíma.
Á svipaðan hátt hefur Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við Skógrækt ríkisins, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun og Fuglaverndarfélag Íslands og fleiri aðila unnið að gerð leiðbeininga fyrir áhugafólk og skógræktarfélög um hvernig best verður staðið að skógrækt í sátt við landið og þá sem það nýta (sjá HÉR).
Í byggingar- og skipulagslögum segir að allt land sé skipulagsskylt. Þar segir einnig að skógræktar- og landgræðsluáætlanir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.
Þessi lög sem hér hafa verið nefnd tryggja aðkomu fjölmargra hagsmunahópa að skógræktinni. Þeir sem stunda skógrækt og landgræðslu á Íslandi og reyna þannig að stuðla að ræktun í sátt við landið eiga sér sömu hugsjónir og þeir sem fara um landið til þess að skoða fugla og fylgjast með lífsskilyrðum þeirra.
Skógrækt á Íslandi er ekki skipulagslaust ferli, sem vex í það óendanlega. Miklu frekar afmörkuð landnýting, sem leggur metnað sinn í að taka tillit til annarra landkosta og virða líffræðilegan fjölbreytileika landsins.
Höfundur er skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins og vinnur að skipulagsmálum.