Séð yfir brúarstæðið í suðurátt. Eyjafjallajökull í baksýn. Brúin hefur verið lögð inn á myndina eins og vænta má að hún muni líta út.
Unnið að því að afla fjár svo framkvæmdir geti hafist
Enn er unnið að því að afla fjár til smíði göngubrúar yfir Markarfljót til móts við Húsadal í Þórsmörk. Hönnun brúarinnar er lokið og er hún byggð á verðlaunatillögu Eflu verkfræðistofu og Studio Granda frá árinu 2014.
Margvísleg þörf er fyrir göngubrú á þessum stað af ýmsum ástæðum. Krossá er mikill farartálmi á leiðinni í Húsadal en með göngubrú yfir Markarfljót yrði auðvelt að ganga eða hjóla yfir í Þórsmörkina og fólk yrði ekki háð öflugum fjallabílum til ferðalagsins. Brúin eykur líka öryggi ferðafólks að miklum mun. Auðveldara verður að flýja svæðið ef náttúruhamfarir verða og björgunarfólk á greiðari leið að og frá Þórsmörk enda verður brúin útbúin með þeim hætti að fullhlaðinn fjallabjörgunarbíll geti ekið um hana í neyðartilvikum.
Fjallað var um brúna í desemberhefti tímaritsins Bridge Design and Engineering sem er tímarit um brúarhönnun og brúargerð. Þar er vísað til eldstöðvarinnar undir Eyjafjallajökli sem varð heimsfræg árið 2010 þegar hún gaus og spúði ösku um himinhvolfin svo flugumferð fór úr skorðum í a.m.k. tuttugu löndum. Í grein blaðsins segir að hugmyndin um brúargerðina hafi fengið byr í seglin eftir gosið enda hafi það aukið áhuga ferðafólks á svæðinu. Með aukinni umferð verður líka enn brýnna að tryggja flóttaleiðir frá svæðinu.
Brúin verður 158 metra löng hengibrú og brúargólfið sverir stálkaplar klæddir með timbri, sem meiningin er að verði íslenskt sitkagreni. Að brúargerðinni standa Vinir Þórsmerkur í samvinnu við Vegagerðina. Við hönnunina var leitast við að hafa brúna sem látlausasta að gerð svo að hún skæri sig ekki um of úr í landslaginu.
Hegðun brúarinnar í vindi hefur verið rannsökuð í vindgöngum hjá fyrirtækinu Force Technology í Kaupmannahöfn með líkani í stærðarhlutföllunum 1 á móti 12. Halli brúargólfsins verður mestur 8% sem er innan þeirra marka sem sett eru um viðunandi aðgengi fyrir hjólastóla. Brúin hentar því vel fyrir gangandi og hjólandi umferð og einnig fyrir fatlaða. Jafnvel verður hægt að teyma þæg hross yfir hana.
Brúin er hönnuð með því augnamiði að hún taki sem minnstan vind á sig. Til dæmis verður handrið úr grönnum ryðfríum vír og bil verður milli fjalanna í brúargólfinu, bæði til að hleypa niður regnvatni og snjó og til að vegfarendur upplifi nálægðina við beljandi stórfljótið og annað i umhverfinu.
Fjármögnun brúarinnar er þó ekki lokið. Ekki er minnst á framkvæmdina í fjárlögum ársins en áður hefur Vegagerðin fengið 45 milljónir króna á fjárlögum til undirbúnings verksins og Skógræktin fimm milljónir. Þá veitti Framkvæmdasjóður ferðamannastaða Vinum Þórsmerkur 30 milljónir króna árið 2013. Enn vantar um 130 milljónir til að hægt sé að ráðast í smíði brúarinnar.