Nær fullþroskuð fræ á alaskaösp við Lerkilund á Akureyri 5. júlí 2016. Svifhárin eiga eftir að vaxa …
Nær fullþroskuð fræ á alaskaösp við Lerkilund á Akureyri 5. júlí 2016. Svifhárin eiga eftir að vaxa á þessum fræjum svo þau geti svifið á braut

Útlit fyrir mikið fræ á alaskaösp á næstunni

Alaskaösp blómstraði mikið í vor víða um land og eftir hagstætt tíðarfar síðustu vikur er útlit fyrir að mikið fræ verði á aspartrjám. Þá er gott tækifæri til að safna fræi af álitlegum trjám og nýta til ræktunar.

Þar sem alaskaöspin blómstrar snemma vors er ekki óalgengt að blómin drepist í vorfrostum og ekkert fræ þroskist. Lítið sem ekkert bar á vorfrostum þetta árið og stóðu aspartré víða í miklum blóma í lok apríl og í maímánuði áður en trén laufguðust. Fræin gætu þegar verið fullþroskuð á sumum trjám enda ekki óalgengt að fullþroskuð fræ sjáist þegar í lok júní.


Oftast er alaskaösp fjölgað með græðlingum og með því móti er auðvelt að rækta upp tré með sama sköpulagi og móðurtrén enda eru þau klónar þess með sama erfðaefni. En það getur líka verið áhugavert að rækta aspir upp af fræi, ekki síst til gamans því fræin taka mjög hratt við sér og má nánast horfa á þau spíra. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að asparfræ eru mjög skammlíf og endast ekki í nema hálfan til einn mánuð. Síðan eyðileggjast þau. Þess vegna er best að taka þau beint af trjánum og láta þau spíra strax.

Áhugasamt fólk um asparrækt ætti nú að líta í kringum sig eftir kvenkyns aspartrjám og fylgjast með því hvenær fræin eru tilbúin fullþroskuð. Þá er rétt að virða fyrir sér sköpulag trjánna og velja tré sem eru fallega vaxin. Í skógrækt er eftirsóknarvert að trén séu sem beinust og ekki með of miklar og sverar greinar. Sem garðtré getur þvert á móti verið æskilegt að öspin hafi myndarlega krónu og þétta greinabyggingu.


Texti og myndir: Pétur Halldórsson