Mynd úr fréttatilkynningu UNECE/FAO
Stutt, opin málstofa um skógartengdar lausnir sem flýta fyrir umskiptum úr ósjálfbæru einstefnuhagkerfi yfir í sjálfbært lífhagkerfi byggt á hringrásum verður haldin í opnu streymi fimmtudaginn 30. júní kl. 8 til 8.45. Þar verða kynnt raunveruleg dæmi og efnt til umræðna.
Það neyslumynstur sem enn viðgengst meðal okkar og byggist á því að taka, nota og henda stendur ekki endalaust undir lífsgæðum okkar. Það ógnar umhverfi okkar og ber með sér efnahagslega áhættu.
Hratt þarf að snúa af þessari leið og yfir í kerfi sem reiðir sig á hringrásir þeirra efna sem við nýtum og að meira sé byggt á efnum úr heilbrigðum vistkerfum og ræktun. Ella verður erfitt að viðhalda sjálfbæru efnahagslífi, draga úr áhrifum athafna okkar á jörðina og tryggja aðgang komandi kynslóða að auðlindum náttúrunnar.
En hvernig á að fara að þessu? Hvernig gerum við hugmyndir og kenningar um hringrásarhagkerfið að daglegum veruleika og látum þær birtast í aðgerðum sem öllum eru skiljanlegar og allir tilbúnir að taka þátt í?
Hversu mörg okkar átta sig á því hvernig skógar og skógariðnaður fæðir nútímalegan iðnað á hráefnum í lífbrjótanlegar vörur og leikur þannig stórt hlutverk í umskiptunum úr einstefnuhagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi?
Hvaða máli skiptir val okkar neytenda um hvernig þessi umskipti ganga?
Allar þessar mikilvægu spurningar og ýmsar fleiri verða til umræðu á vefmálþingi sem UNECE, efnahagsráð Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, heldur ásamt FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ fimmtudaginn 30. júní. Tilefnið er útgáfa á nýju riti, Circularity concepts in forest-based industries, þar sem útskýrt er hvernig skógartengdar atvinnugreinar, þar á meðal bygginga-, húsgagna-, pappírs-, tísku- og plastiðnaður, eru nú farnar að þróast í átt til hringrásarhagkerfisins. Fjallað er um hvað það þýðir fyrir þessar greinar að starfa ekki einungis í hringrásum heldur líka á sjálfbæran og visthæfan hátt til framtíðar.
Hlaða niður ritinu
Á málstofunni verða kynnt verkefni úr húsgagnaframleiðslu og fataiðnaði til að sýna raunveruleg dæmi um hvernig taka má á sjálfbærni- og hringrásarmálum. Kynntir verða valkostir sem okkur öllum sem neytendum standa nú þegar til boða og geta flýtt fyrir umskiptunum yfir í hagkerfi sem byggist meira á hringrásum og nýtingu hráefna úr lífríkinu.
Flutt verða tvö stutt erindi og að því búnu verða fyrirspurnir og umræður með sérfræðingum UNECE og FAO.
Viðburðurinn er öllum opinn á vefnum og hefst kl. 8 að íslenskum tíma fimmtudaginn 30. júní.
Vertu með í beinu streymi
Dagskrá
10.00-10.05
|
Inngangsorð UNECE
|
Paola Deda, yfirmaður í deild skóga-, land- og húsnæðismála hjá UNECE
|
10.05-10.10
|
Inngangsorð FAO
|
Dominique Burgeon, stjórnandi samhæfingarskrifstofu FAO í Genf
|
10.10-10.20
|
Húsgagnaneysla: alvöru hringrásaraðgerðir
|
Alicja Kacprzak, skógræktarfulltrúi hjá sameiginlegu skógræktar- og timbursviði UNECE og FAO
|
10.20-10.30
|
Tískuhráefni: alvöru hringrásaraðgerðir
|
Leonie Meier, aðstoðarfulltrúi efnahagsmála hjá sameiginlegu skógræktar- og timbursviði UNECE og FAO
|
10:30-10:45
|
Fyrirspurnir og umræður
|
|