Hryðjuverk unnið á finnskri birkirannsókn

Um síðustu helgi læddist flokkur manna í skjóli nætur inn í tilraunareiti finnsku skógrannsóknastofnunarinnar í Punkaharju í Austur Finnlandi og hjó niður 400 erfðabreytt birkitré.

Myndin sýnir rannsóknastöð finnsku skógrannsóknastofnunarinnar (Metla)  í Punkaharju

Tilraunareiturinn var liður í grunnrannsókn á erfðafræði og stýringu ljóstillífunar hjá birki. Hafði þeim erfðavísum sem ráða ljóstillífun verið breytt með tilflutningi erfðavísa úr öðrum lífverum og trén síðan gróðursett fyrir fjórum árum. Náið hafði verið fylgst með tilrauninni af hálfu erfðatækninefndarinnar sem starfar undir félags- og heilbrigðismálaráðuneyti Finnlands.

Talið er að beint tjón af völdum þessarar aðgerðar nemi tugum milljóna íslenskra króna. Böndin berast af herskáum umhverfisverndarsamtökum sem stóðu fyrir mótmælum við rannsóknastöðina í Punkaharju fyrir tveimur árum. Málið er í rannsókn af hálfu finnsku rannsóknalögreglunnar sem verst frekari fregna um afbrotið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem samtök umhverfisverndarfólks grípa til ofbeldisverka gegn erfðatæknirannsóknum í skógrækt. Fyrir þremur árum voru tilraunagarðar, skrifstofur og tilraunastofur við háskólann í Washingtonríki eyðilagðar með eldsprengjuárás, í því augnamiði að fyrirbyggja rannsóknir á erfðabreyttum öspum.

Heimildir:

Helsingin Sanomat:

Bradshaw, A.H. ?Plotting the course for GM forestry?. Nature Biotechnology 2001

News and Information from the University og Washington