Brennur hvorki né bráðnar og einangrar frábærlega

Einangrun húsa með timburtrefjum er sú besta sem völ er á. Þetta er fullyrt á vefsíðu norska framleiðandans Norsk trefiberisolering sem framleiðir einangrunarefnið Hunton Trefiberisolasjon™ úr timburtrefjum. Vottað sé að timbureinangrun sem þessi geymi varmann helmingi betur en steinull. Mjúkar trefjarnar í timbrinu gefi líka betri hljóðeinangrun og svo geti timbureinangrunin hvorki brunnið né bráðnað. Timbureinangrun sem þessi andar raka tíu sinnum betur en önnur einangrun og efnið er mjög visthæft. Í því er bundið umtalsvert magn af koltvísýringi öfugt við framleiðslu annars konar einangrunarefna sem hefur talsverða losun CO2 í för með sér..

Að sjálfsögðu verður að taka fram að hér er vitnað til þess sem fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins. Hver framleiðandi talar auðvitað fyrir sinni eigin vöru. En upplýsingarnar eru þó forvitnilegar og meðal annars er vísað þarna í prófanir viðurkenndra aðila svo engin ástæða er til að rengja þessar tölur.

Tvöfalt varmagildi

Í fyrsta lagi er bent á að umrætt timbureinangrunarefni geymi varma í sér tvöfalt betur en steinull, 2100 J/(kgK) á móti 1030 J/(kgK) í steinull. Þarna er einangrunargildið mælt miðað við massa efnisins. Fram kemur jafnframt að um þrisvar sinnum meiri massa af timbureinangruninni sé blásið í gólf loft og veggi en af steinull. Þess vegna gefi timbureinangrunin í raun sex sinnum meiri einangrun á hverja rúmmálseiningu.

Fyrsta flokks hljóðeinangrun

Í öðru lagi er bent á að timburtrefjar gefi sérlega góða hljóðeinangrun, til dæmis miðað við steinull. Timburtrefjarnar hafa meiri massa miðað við rúmmál og mýkri þræði. Því hljóðeinangri viðartrefjaefni betur en önnur efni. Með því að blása einangruninni í hólf sé tryggt að engin holrúm verði eftir sem dragi úr einangruninni. Í þessu myndbandi má sjá samanburð á hljóðeinangrun timburtrefjaefnisins miðað við önnur efni.

Brennur hvorki né bráðnar

Þriðji kostur timbureinangrunarinnar er brunaöryggið. Staðhæft er að umrætt einangrunarefni, Hunton Trefiberisolasjon™, geti hvorki brunnið né bráðnað. Náttúrlegir eiginleikar viðarins geri að verkum að efnið kolist hægt og rólega. Auk þess sé bætt í einangrunina náttúrlegum eldtefjandi efnum úr nitur- og fosfórsamböndum (ammóníumfosfati) sem gangi í samband við það súrefni sem berist að trefjunum og hindri bruna. Það lengi enn tímann sem tekur fyrir efnið að kolast.

Vísað er á síðunni á rússneskt myndband þar sem sýndir eru eiginleikar timbureinangrunar miðað við steinull. Í miðju er trétrefjaplata sem samsvarar Hunton Silencio® og til hægri bútur af einangrunarefninu Hunton Trefiberisolasjon™. Til vinstri er gler- eða steinull sem bráðnar við nógu mikinn hita öfugt við timbureinangrunina sem bráðnar ekki heldur kolast hægt og rólega.

Dregur úr rakamyndun

Í fjórða lagi er bent á að náttúrlegir eiginleikar timbursins geri að verkum að það geti tekið í sig margfalt meiri raka en önnur einangrunarefni, hvort sem er innan úr húsi eða utan frá og skilað honum burt aftur. Timbureinangrun dugi því mun betur gegn vandamálum sem tengjast hitasveiflum dags og nætur eða miklum rakamun úti og inni. Einangrunarefnið Hunton Trefiberisolasjon™ andar því í takt við rakabreytingar í umhverfinu. Sá eiginleiki er sagður mjög mikilvægur í norsku loftslagi þar sem eru miklar hitasveiflur með snöggum breytingum á daggarmarki sem geti valdið rakamyndun í byggingum.

Kostir þessa eiginleika eru ekki síst ótvíræðir þegar gera á upp gömul hús sem ekki hafa rakavarnarlag. Þar hentar timburtrefjaeinangrunin sérstaklega vel.

Visthæft efni

Fimmti og síðasti kostur timbureinangrunarinnar sem tíundaður er á vef framleiðandans er að hún sé mjög visthæft efni framleitt úr endurnýjanlegu hráefni sem geri hana sjálfbæra hvort sem litið er til skamms eða langs tíma. Í kolefnissamhenginu er bent á að í einum rúmmetra af þessari einangrun séu bundin 38 kíló af koltvísýringi en til samanburðar hafi framleiðsla á einum rúmmetra steinullar í för með sér losun á 27 kílóum CO2 og glerullar um 20 kílóum. Til að gæta sanngirni verður þó að benda á að hér er átt við erlenda steinull en íslensk steinull er framleidd með endurnýjanlegri orku og útblástur vegna þeirrar framleiðslu trúlega minni.

Dýrara og rúmfrekara efni

Ef nefna á ókosti þessarar aðferðar við einangrun húsa er helst til að taka að efnið Hunton Trefiberisolasjon™ er um fimmtungi dýrara en hefðbundin einangrun. Hún tekur líka mun meira pláss í flutningi og á lager því efnið er ekki hægt að þjappa saman eins og steinull eða glerull.

Svo virðist samt sem áður sem hér sé á ferðinni einangrunarefni með ótal kosti. Það gefi heilbrigt og gott inniloft með jöfnum hita og raka. Þetta sé líka skaðlaust efni, mjúkt viðkomu og erti ekki öndunarveginn. Hráefnið er sótt í norska skóga sem eru nýttir með sjálfbærum hætti. Raunar eru norskir skógar að stækka og það sama gildir ef litið er á Evrópu í heild eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan. Myndbandið er frá samstarfsneti danska timburiðnaðarins, Træ er miljø.

Wood - Nature's stroke of genius

Heimild: www.trefiberisolering.no
Texti: Pétur Halldórsson