Þátttakendur í skóginum á Snæfoksstöðum.
Þátttakendur í skóginum á Snæfoksstöðum.

Um 300 manns hafa sótt námskeiðin

Námskeið í húsgagnagerð var haldið um helgina á Snæfoksstöðum í Grímsnesi á vegum Lbhí og Skógræktarinnar. Þar lærðu þátttakendur að nota efni sem til fellur við grisjun skógarins til að smíða húsgögn og ýmsa nytjahluti.

Skógræktarfélag Árnesinga keypti jörðina Snæfoksstaði árið 1954 og var hafist handa við að girða af landið en sumarið 1956 var fyrst gróðursett. Árið 1958 hófst sumarvinna barna og unglinga frá Selfossi, sem stóð óslitið, með tilstyrk Selfosshrepps, næstu árin. Nú er vaxinn upp gróskumikill og fallegur skógur á Snæfoksstöðum sem farinn er að gefa efnivið til smíða. Opinn skógur er við Kolgrafarhól á Snæfoksstöðum. Hann er í alfaraleið og tilvalinn útivistar- og áningarstaður. Tenging er frá Biskupstungnabraut að hringtorgi í skógarjaðrinum, þar sem eru góð bifreiðastæði.


Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, hafði umsjón með námskeiðinu um helgina. Alls hafa nú verið haldin yfir tuttugu námskeið af þessum toga vítt og breitt um landið auk þess sem skógarbændur hafa kynnst þessari fræðslu á námskeiðinu Grænni skógum II hjá Landbúnaðarháskólanum. Um 300 manns hafa tekið þátt í þessum námskeiðum, m.a. í gegnum kynningu á vegum fræðslumiðstöðvar Iðunnar þar sem fólk með ólíka iðnmenntun notar námskeiðin sem endurmenntun eða í tengslum við starfsmenntun eða frístundastarf.

Á myndunum má sjá hópinn fræðast um grisjun og umhirðu og hvernig má nýta efni sem til fellur við slík störf til húsgagnagerðar eða við gerð annarra nytjahluta. Sjá má afrakstur tveggja þátttakenda sem gerðu frummyndir, kjullur/tréhamra úr reyni og greni, kalla úr ösp og greni og grenibekki.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Ólafur Oddsson