One Tree Planted býður fólki að styðja við nýskógræktarverkefni um allan heim. Skjámynd úr myndbandi One Tree Planted
Í myndbandi frá samtökunum One Tree Planted er útskýrt á einfaldan og skýran hátt hvað átt er við með nýskógrækt. Í allrastystu máli er þetta skógrækt á skóglausu landi. Þarna er nýskógrækt skipt í þrjá meginflokka eftir meðferð skógarins, skóg sem ætlað er að endurnýjast náttúrlega, nytjaskóg og loks landbúnaðarskóg sem styður við aðra ræktun. Samtökin One Tree Planet fjármagna nú nytjaskógræktarverkefni í Breiðdal og hafa áhuga á fleiri verkefnum hérlendis.
Mannkynið hefur haft æ meiri áhrif á ástand og ásýnd jarðarinnar eftir því sem iðn- og tæknivæðingu hefur fleygt fram. Þetta hefur meðal annars haft þau áhrif að skógar jarðarinnar hafa farið minnkandi. Fram kemur í myndbandinu að hartnær 260.000 ferkílómetrum skóglendis jarðarinnar sé eytt á hverju ári en það er talsvert meira en flatarmál Íslands. Á móti kemur að skógar hafa mikla getu til að vaxa upp á ný ef þeir fá til þess frið og æ meira púðri er nú varið í endurræktun skóga vítt og breitt um heiminn.
Nýskógrækt er önnur leið til að breiða út skóglendi. Þá er skógur ræktaður á skóglausu landi. Hjá okkur er skóglaust land gjarnan skilgreint sem land þar sem ekki hefur vaxið skógur í hálfa öld eða meira. Með slíkri skógrækt má búa til búsvæði fyrir villtar lífverur, lífsviðurværi og betri búsetuskilyrði fyrir fólk og aukið getu lífkerfanna á jörðinni til að draga í sig koltvísýring.
Nýskógrækt er í myndbandinu skipt í þrjá meginflokka eftir meðferð skógarins. Í fyrsta lagi er skógur sem ætlað er að endurnýjast náttúrlega og hérlendis gæti það átt við um útbreiðslu birki- og víðiskóglendis. Í öðru lagi eru nytjaskógar þar sem kolefni binst meðan trén vaxa, er losað eða bundið áfram í afurðum þegar skógur er felldur og binst svo aftur í skóginum við endurræktun hans. Í þriðja lagi er það sem við getum kallað landbúnaðarskóg eða búskaparskóg. Þar er hlutverk trjánna fjölbreytilegt. Þau gefa afurðir en skýla líka annarri ræktun og búpeningi. Þannig stuðlar slík ræktun að sjálfbærni í landbúnaði.
Nefnt er í myndbandinu að mörg lönd heimsins hafi gripið til nýskógræktar til að ráða bót á ýmsum umhverfisvandamálum. Kínverjar eru stórtækastir og hafa m.a. beitt nýskógrækt til að stöðva framrás Gobi-eyðimerkurinnar sem m.a. hefur ógnað ræktarlandi og leitt til ofsaflóða. Kínversk yfirvöld greiða líka bændum fyrir nýskógrækt og stefna að því að ræktaður verði nýr skógur á 80 milljónum hektara lands. Það nemur fjórföldu flatarmáli Íslands. Nefnt er líka verkefnið stóra í Afríku, græni múrinn mikli, sem á að stöðva framrás Sahara-eyðimerkurinnar til suðurs og við höfum fjallað um hér á skogur.is. Evrópumenn hafi verið í fararbroddi við nýskógrækt, í Bandaríkjunum styðji yfirvöld við nýskógrækt á landi sem raskað hefur verið vegna námavinnslu og nefnd eru líka dæmi eins og Indland og Eþíópía þar sem stór verkefni hafa verið sett af stað undir merkjum alþjóðlegra markmiða á borð við Bonn-áskorunina um endurhæfingu vistkerfa.
Nýskógrækt getur haft vankanta eða hættur í för með sér eins og nefnt er í myndbandinu. Landnotkun breytist. Það getur leitt til aukinnar samkeppni um land og hækkað matvælaverð. Þess vegna þarf að velja réttu aðferðina á hverju svæði fyrir sig til að tryggja að bæði náttúran og samfélög fólks njóti góðs af verkefnunum. Fylgja þarf gróðursetningum eftir með eftirliti og úttektum til að tryggja að trén vaxi eins og til er ætlast, skipuleggja verkefnin með tilliti til mögulegra gróðurelda og ganga úr skugga um að ólöglegt skógarhögg fari ekki fram.
Þrátt fyrir þetta er niðurstaðan í myndbandi One Tree Planted að nýskógrækt sé hagkvæmt verkfæri gegn ákveðnum umhverfisvandamálum sem við er að eiga á jörðinni. Verkefnin þurfi að taka tillit til hagsmuna heimafólks á viðkomandi svæðum og halda verði leiðtogum landa heimsins við efnið í þeirri viðleitni að hirt verði um jörðina með sjálfbærum hætti.