14112012-(2)14112012-(3)14112012-(4)Þórsmörk og Goðaland eru landsvæði norðan Eyjafjallajökuls þar sem Skógrækt ríkisins hefur unnið að friðun og endurheimt birkiskóga frá árinu 1919. Þar var sáð lúpínu í moldir á nokkrum stöðum fyrir um 30 árum síðan. Lúpína hefur dreifst frá þessum svæðum og vex nú á samtals um 2-3 hekturum lands í bland við annan gróður, aðallega víði og birki. Skógrækt ríkisins telur ekki skynsamlegt að eyða lúpínu á svæðinu hvorki með eitri né öðrum aðgerðum. Telur Skógræktin fjármunum ríkisins betur varið í að efla birkinýgræður í nágrenni lúpínubreiða með áburðargjöf og hamla þannig útbreiðslu lúpínu.

Grein Borgþórs Magnússonar og Sigurðar H. Magnússonar sérfræðinga á Náttúrufræðistofnun sem birtist á heimasíðu www.ni.is og á fleiri miðlum, dregur í efa gagnsemi þeirrar aðferðar sem Skógrækt ríkisins hyggst beita til að halda aftur af útbreiðslu lúpínu á Þórsmerkursvæðinu. Byggist þessi gagnrýni líklega á misskilningi og telur Skógrækt ríkisins í því ljósi rétt að leiðrétta nokkra hluti sem fram koma í greininni.

Markmið Skógræktar ríkisins á Goðalandi og Þórsmörk er í dag eitt og það sama og var árið 1919, að stuðla að útbreiðslu birkiskóga á svæðinu. Hefur verið unnið að þessu markmiði aðallega með tvennum hætti, þ.e. að friða svæðið fyrir beit og að örva sjálfsáningu og vöxt birkis, t.d. með aðgerðum til að draga úr frostlyftingu og stöðva með því jarðvegseyðingu.

Mikil jarðvegseyðing var á Þórsmörk og Goðalandi þegar landið var beitarfriðað fyrir rúmum 90 árum. Þá voru eftir um 200 ha af birkikjarri sem óx á stökum torfum sem umluktar voru háum rofabörðum. Úr þeim blés við minnsta goluþyt ef þurrt var og frost og vatn nöguðu úr þess á milli. Fyrstu áratugina eftir friðunina breiddist skógur út og náðist að loka stórum hluta rofabarða t.d. með því að bera hrís í þau. Fyrir um 30 árum voru þó enn stór moldarflög víða um Þórsmörk og Goðaland og var þá sáð alaskalúpínu á nokkrum stöðum og af nokkrum aðilum til að græða upp rof. Lúpínan er eins og kunnugt er frumherjategund sem bætir jarðveg og breytir gróðurfari. Þær breytingar geta haft í för með sér að sumar lágvaxnar plöntutegundir eru skyggðar út en aðrar tegundir  geta notið góðs af. Í dag hefur lúpína dreifst yfir um 2-3 ha lands og vex oftast með birki, víði og öðrum hávaxnari gróðri. Úttekt frá 2011 sýnir að birkiskógar vaxa í dag á um 1500 ha lands á Þórsmerkursvæðinu.

Borgþór og Sigurður nefna að Skógrækt ríkisins hafi slegið hugmyndir Landgræðslu ríkisins um Roundup-eitrun í lúpínubreiðum í Þórsmörk út af borðinu í kjölfar eitrunar sem gerð var við Álfakirkjuna í Goðalandi árið 2009. Það var ekki að ástæðulausu að Skógrækt ríkisins hafnaði þeirri leið. Vorið 2010 var eitrun Landgræðslunnar skoðuð og kom þá í ljós að vissulega hafði tekist að drepa gamlar lúpínuplöntur er þar uxu, en einnig birki, víði og annan gróður sem óx þar með lúpínunni. Vorið eftir hafði fjöldi smáplantna af lúpínu vaxið upp á svæðinu en lítið var eftir af samkeppnisgróðri. Passar þessi útkoma nokkuð vel við þær niðurstöður sem fengist hafa úr Roundup eitrunartilraun Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum sem Borgþór og Sigurður vitna til. Í BS ritgerð Magnúsar Þórs Einarssonar frá árinu 2009 stendur orðrétt ,,Þekja flest allra tegunda [annarra en lúpínu] minnkaði við [Roundup] eitrunina en þó ekki allra. Til að mynda jókst þekja skeggsanda, augnfróar og geldingahnapps í eiturmeðferðunum.“ [innskot höfundar]. Rétt er að vitna aftur í niðurstöður sömu tilraunar um áhrifa eitrunar á fræforða alaskalúpínu sem birtust í BS ritgerð Ástu Eyþórsdóttur frá árinu 2009 við Háskóla Íslands, en þar kom í ljós að þrátt fyrir að eitrun drægi verulega úr fræforða lúpínunnar á eitrunarflötunum, voru enn eftir 100-400 fræ á hverjum fermetra af lúpínu ári eftir eitrun og var fjöldinn mismunandi eftir því hvenær sumars lúpínan var eitruð. Í sömu skýrslu kemur fram að eitrunin dró einnig marktækt úr fræforða annarra plantna, þ.e.a.s. svokallaðs staðargróðurs. Þetta segir okkur að endurtaka þurfi eitrun á lúpínu ár eftir ár ef ná á að útrýma henni af svæðinu og lesendur geta sjálfir ímyndað sér hvaða áhrif slík síendurtekin eitrun hefur á annan gróður. Í ljósi þessara heimilda sem vitnað er til hér að ofan er óskiljanlegt hvað býr að baki eftirfarandi fullyrðingu Borgþórs og Sigurðar um árangur eitrunartilrauna Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti: ,,Þær sýndu að hægt er að halda henni í skefjum með Roundup án þess að drepa staðargróður.“

Þær aðgerðir sem Skógrækt ríkisins hyggst fara í til að halda aftur af útbreiðslu lúpínunnar snúast ekki um að beina áburðargjöf á einsleitar lúpínubreiður, heldur að mynda þéttar nýgræður af birki í nágrenni lúpínubreiðanna með áburðargjöf. Er þar verið að vinna samkvæmt einni af fáum birtum heimildum um útbreiðslu lúpínu (Fjölrit Rala nr. 207, 2001, „Gróðurframvinda í lúpínubreiðum“) og eru höfundar þess hinir sömu og gagnrýna fyrirhugaðar aðgerðir Skógræktar ríkisins;  þeir Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon, auk Bjarna Diðriks Sigurðssonar. Í þessari skýrslu sem birtir niðurstöður þriggja ára  rannsókna, kemur m.a. fram að: ,,þykkt svarðlag eða hávaxinn gróður, svo sem skógur, þétt kjarrlendi, gróskumikið blómlendi og graslendi [virðist] vera Þrándur í Götu hennar [lúpínunnar]. [innskot höfundar]

Sú hugmynd Skógræktarinnar að mynda kröftugt kjarrlendi úr birkinýgræðum með áburðargjöf er því sprottin beint af viskubrunni Borgþórs og Sigurðar og má leiða líkum að því að þeir fagni ráðagerðum Skógræktarinnar í Þórsmörk nú þegar fyrrnefndum misskilningi hefur verið eytt.

Hvað varðar afræningja á lúpínu hefur breyting orðið á síðustu árum. Í dag lifa nokkrar tegundir fiðrildalirfa á lúpínu og eru þær algengustu, ertuygla, brandygla, mófeti og skógbursti. Hafa þessar lirfur náð svo mikilli stofnstærð að þær hafa á fáum árum breytt lúpínubreiðum í graslendi þar sem oft er jafnframt að vaxa upp birkiskógur. Má sjá dæmi um slíka öra framvindu á Markarfljótsaurum, í Þjórsárdal og á Haukadalsheiði. Ekki sér fyrir endann á þessari framvindu en nýjar rannsóknir sem unnið er að þessi árin eiga eftir að varpa nýju ljósi á og auka  þekkingu okkar um lúpínununa og samspil hennar við annað í lífríkinu.

Nefnd hefur verið sú hugmynd að notast við kjötmjölsáburð til að stuðla að framvindu birkisins. Kjötmjöl er lífrænn áburður sem leysist upp á 2-3 árum og er framleiddur hér á landi úr innlendu hráefni. Hann hefur verið notaður til uppgræðslu víða um land með góðum árangri. Borgþór og Sigurður telja að áburðargjöf með kjötmjöli sé hæpin aðgerð á fjölsóttu ferðamannasvæði. Er þetta réttmæt ábending, enda þekkt að mávar sækja í mjölið fyrstu dagana eftir dreifingu og mávar eru misvinsælir gestir á ferðamannastöðum. En í ljósi áhyggja Borgþórs og Sigurðar af notkun kjötmjöls, er nokkur þversögn í því fólgin, að þeim þyki verjandi að úða gróður á sama fjölsótta ferðamannastað með eiturefnum.

Til að svara spurningu sem sett er fram í fyrirsögn greinar Borgþórs og Magnúsar, um hvort Þórsmörk sé einkamál Skógræktarinnar, er rétt að vísa til þess góða samstarfs sem Skógrækt ríkisins hefur átt við fjölmarga aðila um uppgræðslu og má þar helst nefna Landgræðslu ríkisins, sjálfboðaliðasamtök ýmiskonar t.d. Ferðaklúbbinn 4x4 og ungliðahreyfingu Rauðakrossins. Skógræktin hefur unnið í góðu samstarfi við ferðaþjónustuaðila, Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins, Umhverfisstofnun og sveitarstjórn Rangárþings Eystra á svæðinu við stígaviðhald, uppgræðslu, skipulagsmál og fleira. Rétt er að geta þess að ferðaþjónustuaðilar, Rangárþing Eystra og fleiri aðilar stofnuðu félag fyrir tveimur árum sem heitir Vinir Þórsmerkur og hefur það að markmiði að stuðla að ýmsum framfaramálum á Þórsmörk og Goðalandi. Hefur verið unnið að undirbúningi göngubrúar sem auðvelda mun aðgengi fólks að Mörkinni og draga úr slysahættu í jökulánum sem hafa verið farartálmi fyrir marga að komast inn á Þórsmerkursvæðið. Því má með góðri samvisku svara spurningunni neitandi, Þórsmörk er ekki einkamál Skógræktarinnar. Þórsmörk og Goðaland eru sameign allra Íslendinga, og er það heiður fyrir Skógrækt ríkisins að fá að halda áfram að vernda og endurheimta skóga Merkurinnar hér eftir sem hingað til og bjóða sem flesta gesti velkomna á svæðið, án þess að hafa áhyggjur af áhrifum eiturefnanotkunar á heilsu þeirra og lífríki Þórsmerkur.


Heimildir

Ásta Eyþórsdóttir 2009. Áhrif plöntueiturs á fræbanka alaskalúpínu (Lupinus Nootkatensis) og annarra háplantna. B.Sc. í líffræði, Háskóli Íslands. http://skemman.is/en/item/view/1946/4978

Borgþór Magnússon og Sigurður H. Magnússon, 12. nóvember 2012. Er Þórsmörk einkamál Skógræktarinnar? http://www.ni.is/frettir/nr/13938

Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon & Bjarni Diðrik Sigurðsson (2001). Gróðurframvinda í lúpínubreiðum (bls. 1-100). Fjölrit RALA nr. 207. Reykjavík: Rannsóknastofnun Landbúnaðarins.

Magnús Þór Einarsson 1985. Eyðing alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) með plöntueitri: áhrif á annan gróður. BSc verkefni við Landbúnaðarháskóla Íslands. http://skemman.is/is/item/view/1946/7253