Þjóðskógarnir eru allir opnir til „skógarbaða“, einnig skógar skógræktarfélaga um allt land og svo e…
Þjóðskógarnir eru allir opnir til „skógarbaða“, einnig skógar skógræktarfélaga um allt land og svo er fólk víðast hvar velkomið í skóga skógarbænda og annarra skógareigenda. Mynd úr skógarreitnum á Kirkjubæjarklaustri: Pétur Halldórsson
Grein eftir Daníel Godsk Rögnvaldsson, meistaranema í sjálfbæri minjastjórnun við Árósaháskóla

Í febrúar næstkomandi er áætlað að opnuð verði í Eyjafirði nýjasta viðbót við fjölbreytta flóru baðstaða á Íslandi, hin svokölluðu Skógarböð. Nafngiftin er vel við hæfi enda eru böðin staðsett þannig að þau eru umlukin einum fjölmargra skóga Eyjafjarðar, Vaðlaskógi. Sá hefur sett svip sinn á Eyjafjörð síðan fyrstu tré voru gróðursett þar árið 1936 af Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Gleðiefni er að þar gefst gestum tækifæri að upplifa skóginn á annan og óhefðbundnari hátt en áður. Vel má ímynda sér að skógarreiturinn setji mark sitt á upplifunina með angan, skjóli og fallegu umhverfi með fjölbreyttu dýralífi. Það eru nefnilega til ótal leiðir til að upplifa og njóta skóglendis, m.a. með gönguferðum, annarri hreyfingu og útivist og náttúruathugunum hvers konar.

Tölvuteikning af væntanlegum Skógarböðum í Vaðlaskógi í Eyjafirði: Basalt ArkitektarÖnnur tegund skógarbaða leit dagsins ljós á áttunda áratugnum í Japan og kallast á japönsku „Shinrin-Yoku“. Þar er um að ræða böð af allt öðrum toga, enda ekki eiginlegt bað, heldur er með nafninu átt við að gera sér ferð í skóg, taka inn allt það sem skilningarvitin nema og leyfa huganum að reika. Þetta er nokkurs konar íhugunarganga í faðmi skógarins þar sem mælst er til að gefa umhverfinu sérstakan gaum. Skógarböðin eru viðurkennd meðferð í Japan við streitu og benda nýlegar rannsóknir á jákvæð áhrif af slíkri meðferð.1 Hún sver sig í ætt við aðrar náttúrumeðferðir sem leggja áherslu á að nýta græn svæði. Japanar hafa gengið einna lengst í þessum efnum og vottað skóga sem sérstaklega hentuga „meðferðarskóga“. Fjölmargir útivistarskógar skógræktarfélaga um allt land og íslensku þjóðskógarnir eru opnir almenningi allt árið um kring. Jafnvel þótt vottorð um þá sem meðferðaskóga vanti er ekkert því til fyrirstöðu að nýta þá til skógarbaða að hætti Japana.

Á Íslandi kannast flestir við þau jákvæðu andlegu og líkamlegu áhrif sem gönguferðir hafa. Nýleg rannsókn á íslenskri náttúru og skóglendi leiddi í ljós að hún getur haft heilsubætandi áhrif.2 Óhætt er því hægt að hvetja alla sem hafa tækifæri til, að huga sérstaklega að því að tileinka sér aðferðir skógarbaðanna að japönskum sið í næstu göngu. Í það minnsta þar til okkur gefst tækifæri á að prófa að lauga okkur í vatni, umvafin Vaðlaskógi.

Texti: Daníel Godsk Rögnvaldsson

Heimildir
Rajoo, Keeren Sundara, Karam, Daljit Singh, and Abdullah, Mohd Zaki. „The Physiological and Psychosocial Effects of Forest Therapy: A Systematic Review.“ Urban Forestry & Urban Greening 54 (2020), bls. 1-10.
Pálsdóttir, Anna María. „The Restorative Potential of Icelandic Nature.“ International Journal of Environmental Research and Public Health 17 (2020), bls. 1-21.

 

Slakandi ganga í skógi. Mynd af pixhere.com