Í löndum Skógræktar ríkisins er að finna þekkt tjaldsvæði sem eru einkar hentug fyrir fjölskyldufólk.  Nýting þeirra er góð og þar er að finna alla grunnþjónustu. 

 Á Suðurlandi eru tjaldsvæði í Þjórsárdal og í Þórsmörk.  Aðsókn hefur verið að aukast á þessum svæðum að sögn Hreins Óskarssonar skógarvarðar á Suðurlandi.  Í júní setti veðrið þó strik í reikninginn.  Hreinn segir vera mikið pláss á þessum tjaldsvæðum og að oft sé þurrt í austanátt á þessum stöðum.  Í Haukadal er að finna frábærar gönguleiðir, m.a. sérstaka stíga aðgengilega fyrir fatlaða.

 Á Vesturlandi er tjaldsvæði í Selskógi í sunnanverðum Skorradal og aðsókn þar er sæmileg.   Að sögn Birgis Hauksonar skógarvarðar á Vesturlandi er þetta eina tjaldsvæðið í hans umdæmi, en margir staðir eru þekktir fyrir gönguleiðir og útivist, t.d. Jafnaskarðsskógur. 

 Að sögn Sigurðar Skúlasonar skógarvarðar á Norðurlandi gengur tjalsvæðið í Vaglaskógi vel.  Veðrið í júní hafði þó áhrif til hins verra en útlit er fyrir að júlí sýni betri tölur um aðsókn.  Núna er tjaldsvæðið þéttskipað og margir hafa pantað pláss fyrir helgina.  Almennar reglur gilda um tjaldsvæðið, margir gista þar og fara þaðan í ökuferðir um nágrennið.  Ágætt veður hefur verið á Norðurlandi síðustu daga, hlýtt en nokkuð vindasamt.  Í Ásbyrgi er tjaldsvæði sem er í umsjón umhverfisstofnunnar.

Skúli Björnsson aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað segir fullt af fólki vera á tjalsvæðunum í Hallormsstað.  Atlavík er full af fólki og margt fólk á aukasvæðinu í Þurshöfðavík.  Ekki er tekið við pöntunum á þessum tjaldsvæðum.  Skúli segir þokkalega aðstöðu vera á svæðunum, rafmagn er á aukasvæðinu þar sem innstungur eru við salernisaðstöðuna.  Skúli segir það aðallega vera íslendinga sem sæki tjaldsvæðin í skóginum og að kröfur aukist sífellt um betri tæknilega aðstöðu fyrir allar þær nútímalegu græjur sem ferðamenn nota.  Nýtt tjaldsvæði er á leið í deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir að nútímakröfur verði uppfylltar. 

Öll tjaldsvæði í löndum Skógræktar ríkisins utan Hallormsstaðar eru rekin af utanaðkomandi rekstaraaðilum.  Njótið vel helgarinnar.