Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, staðfestu þ. 8. mars sl. með undirskrift sinni aðild Íslands að alþjóðasamningnum um plöntuvernd International Plant Protection Convention (IPPC) ásamt endurskoðuðum texta hans.

Samningur þessi var upphaflega gerður á vegum matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, árið 1951 og tók hann gildi 3. apríl 1952. Samningnum var breytt 1979 og tóku þær breytingar gildi 1991. Loks var honum breytt aftur 1997 og er nú beðið eftir að nægjanlega margar þjóðir staðfesti þær breytingar til að þær taki gildi en til þess þurfa 2/3 þeirra ríkja sem aðilar eru að samningnum að staðfesta þær. Sjá 1997-samninginn á slóðinni:
International Plant Protection Convention - New Revised Text.

Þegar lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum (nr. 51 frá 29. maí 1981) og reglugerð um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum (nr. 189 frá 20. apríl 1990) voru samin var tekið mið af þessum alþjóðlega samningi. Það má því líta svo á að löggjöf og framkvæmd á þessu sviði á Íslandi sé að verulegu leyti í samræmi við ákvæði samningins og staðfesting hans muni því ekki kalla á róttækar breytingar umfram þær sem þegar er fyrirhugað að gera. Hins vegar tryggir staðfesting hans að Ísland verður fullgildur aðili í framtíðar samstarfi í plöntuvernd og getur tekið þátt í að móta þær aðgerðir er gripið verður til á alþjóða vettvangi til að tryggja heilbrigði plantna og hindra smitdreifingu.

Hið alþjóðlega samstarf FAO í plöntuvernd fer nú fram innan nefndar um plöntuheilbrigðisráðstafanir, ICPM (Interim Commission on Phytosanitary Measures). Það er opið öllum sem aðilar eru að FAO en samkvæmt bréfi frá skrifstofu IPPC dags. 5.11. 2001 er boðað að þegar síðustu breytingar (new revised text) eru komnar í gildi verði það einungis opið þeim sem aðild eiga að samningnum. Það er ástæða þess að Plöntusjúkdómaráð taldi brýnt að Ísland staðfesti samninginn nú og setti ráðið þetta ferli af stað með bréfi til landbúnaðaráðherra í desember árið 2001. Auk samstarfsins innan ICPM fer einnig fram samstarf innan svæðisbundinna samtaka en nú er reynt að samræma það undir ICPM. Hin evrópsku svæðissamtök kallast EPPO (European and Mediterranean Plant Protection Organisation).

Gott dæmi um þetta samstarf og vísbending um það sem koma skal er nýlegur staðall um viðarumbúðir sem flest ríki eru nú að taka upp og Ísland hefur þegar sett reglugerð um vegna útflutnings á vörum frá Íslandi.

Forsendur fyrir aðild.

Í formála að samningnum segir m.a. að aðildarríkin:

- viðurkenni nauðsyn á alþjóðasamvinnu til að halda í skefjum skaðvöldum sem leggjast á plöntur og plöntuafurðir og til að koma í veg fyrir alþjóðlega útbreiðslu þeirra og einkum innkomu þeirra á svæði í hættu,

- viðurkenni að plöntuheilbrigðisráðstafanir skuli vera studdar tæknilegum rökum, vera gagnsæjar og að þeim skuli ekki beitt þannig að þær leiði til gerræðislegrar eða óréttlætanlegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á alþjóðaviðskipti,

- æski þess að tryggja náið samræmi ráðstafana sem gerðar eru í þessu skyni,

- æski þess að settur verði rammi fyrir þróun og beitingu samræmdra plöntuheilbrigðisráðstafana og mótun alþjóðlegra staðla þar að lútandi,

- taki tillit til alþjóðlegra, viðurkenndra meginreglna um heilbrigði plantna og dýra og heilsu- og umhverfisvernd, og

- hafi í huga samninga sem gerðir eru í kjölfar niðurstöðu Úrugvælotu marghliða viðskiptaviðræðnanna, þ.m.t. samninginn um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.

Skuldbindingar.

- Aðildaríkin skuldbinda sig til að koma á fót opinberri, innlendri plöntuverndarstofnun með faglega færni á sviði plöntuheilbrigði og sem hafi m.a. það hlutverk að gefa út heilbrigðisvottorð við útflutning, hafa eftirlit með plöntum í ræktun til að geta tilkynnt um skaðvalda, skoða vörusendingar við innflutning til að koma í veg fyrir innkomu skaðvalda, annast útrýmingaraðgerðir og fl. Plöntueftirlit Rannsóknastofnunar landbúnaðarins gegndi þessu hlutverki fram að 31. desember 2004 en frá og með 1. janúar 2005 er það hlutverk plöntueftirlits Landbúnaðarháskóla Íslands.

- Aðildarríkin skuldbinda sig til að taka þátt í alþjóðlegu og svæðisbundnu samstarfi m.a. við að þróa alþjóðlega staðla til að tryggja samræmdar aðgerðir.

- Aðildarríkin skuldbinda sig til að lúta vissum vinnureglum við lausn deilumála er upp kunna að koma á þessu sviði.

- Aðildarríkin skuldbinda sig til að nota stöðluð form fyrir heilbrigðisvottorð en fyrirmynd að þeim eru í viðauka við samninginn. 
 

Heimild: Vefur Landbúnaðarháskóla Íslands