Vöxtur í trjágróðri hefur verið með eindæmum góður víða um land í sumar, enda hefur sumarið verið langt og hlýtt. Hvarvetna blasa við langir vaxtarsprotar á ösp og greni. Þó má telja víst að hvergi hefur ösp vaxið í líkingu við það sem gerðist hjá tegundablendingum sléttuaspar og alaskaaspar á Mógilsá, sem eru þriggja ára gömul tré. Sá einstaklingur sem þar óx mest er nú 3,43 metrar á hæð og árssprotinn mælist 1,57 m. Þvermál stofns í 50 cm hæð mældist hjá þessari ösp 27 mm, en sú ösp sem mældist með mesta þvermál var 32 mm. Í safninu eru flestar aspirnar ónæmar fyrir asparryði, en svo er þó ekki með hæstu öspina, sem hefur samt töluvert ryðþol. Ryð í öðrum öspum á Mógilsá var hins vegar óvenju mikið í ár, eins og reyndar víða á Suður- og Suðvesturlandi.

Á efri myndinni sést Helga Ösp Jónsdóttir meistaraprófsnemi í plöntusjúkdómum og starfsmaður Mógilsár í sumar við mælingar á Íslandsmethafanum. Á þeirri neðri sést sláandi munur á vexti og ryðþoli tveggja ára blendinga og jafn gamalla alaskaaspa.

frett_04102010_2


Texti og myndir: Halldór Sverrisson