Margt um manninn á tjaldsvæðinu í Höfðavík Hallormsstaðaskógi sumarið 2020. Ljósmynd: Anna Birna Jakobsdóttir
Grein eftir Daníel Godsk Rögnvaldsson, meistaranema í sjálfbæri minjastjórnun við Árósaháskóla
Það eru allir orðnir dauðleiðir á fréttaflutningi og umfjöllunum af „veirunni skæðu“ eins og forseti vors litla lýðveldis hefur kallað Covid-faraldurinn sem hrjáð hefur heimsbyggðina núna í hátt í tvö ár. Faraldurinn hafði miklar breytingar í för með sér og krafðist þess að fólk endurhugsaði athafnir daglegs lífs. Víða erlendis varð mikil aukning í heimsóknum fólks í skóga og skóglendi eftir að Covid-19 fór að láta á sér kræla. En sú var líka raunin á Íslandi.
Í Þýskalandi leitaði fólk í Waldeinsamkeit, það er að finna huggun í einveru í faðmi skóganna. Á Norðurlöndunum voru skógar nýttir sem aldrei fyrr til útivistar og hreyfingar. Í Bandaríkjunum þurftu skógarverðir helst að passa upp á hópamyndun, slík var aðsóknin. Á Íslandi hafa hægt og rólega í gegnum 20. og 21. öldina vaxið og dafnað nokkuð álitlegir skógar vítt og breitt um landið. Nokkrir þeirra stærstu eru svokallaðir þjóðskógar. Þeir skógar eru í umsjá Skógræktarinnar og má kalla þá andlit stofnunarinnar út á við. Hallormsstaðaskógur, Stálpastaðaskógur, Vaglaskógur og Þjórsárdalsskógur eru meðal fjársjóða í hópi þjóðskóga. Skógræktin hvatti landsmenn til að gera sér ferð í grenndarskóg, og jafnvel faðma tré í fyrstu bylgju. Hvatningin vakti mikla athygli og fréttir af henni voru fluttar um allan heim. Þrátt fyrir að ekki hafi allir lagt í að faðma tré er ekki erfitt að ímynda sér að landinn hafi í auknum mæli sótt í skjól skóganna gegn köldum gusti marsmánaðar, þegar veiran fór að gera vart við sig og víðtækra lokana í samfélaginu gætti.
„Stemmningin líkist því hvernig þetta var eftir hrun“
Skógarverðir Skógræktarinnar starfa í öllum fjórðungum landsins. Öll urðu þau vör við aukna umferð í Covid-19 faraldrinum. Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður í Hallormsstaðaskógi, hefur unnið hjá Skógræktinni af og á síðan 1987 og segir stemninguna hafa helst minnt sig á þá sem myndaðist eftir hrun. Mikið hafi verið um barnafjölskyldur, og andinn hafi verið sérstaklega góður hjá gestum skógarins. Bergrún segist hafa fundið um leið fyrir aukinni athygli þegar Skógræktin hvatti til trjáknúsa, sem hafi líklega skilað sér í fjölgun heimsókna. Í fyrstu bylgju faraldursins var snjóþungt og göngubraut rudd til að heimamenn hefðu greiðari aðgang að útivistarsvæðinu, en slíkt hafði aldrei verið gert áður. Fólk streymdi úr einangrun sinni í skjólið í skóginum. Svo mikið að ryðja þurfti fleiri leiðir til að vel færi um alla með fjarlægðartakmörkunum.
Allt var gert til að tryggja að gestir gætu með góðu móti heimsótt skóginn án aukinnar hættu á smiti. Aðsóknin hefur farið fram úr öllum væntingum bæði árin, og blíðan fyrir austan olli sprengingu í aðsókn á tjaldsvæðin. Aldrei hafa fleiri gert sér ferð í Hallormsstaðaskóg, og aðsóknarmetið sem slegið var árið 2020 var enn slegið á liðnu sumri. Þó að veðurblíðan hafi haft sitt að segja, telur Bergrún einnig að fólk hafi vaknað til vitundar um þann aragrúa af tækifærum sem séu til útivistar og menningarstarfs í skóginum, og Covid hafi átt þátt í að ýta fólki af stað í nærumhverfið. Margir hafi jafnvel verið að heimsækja Austurland í fyrsta skipti. Nú sé hægt að sækja fjölbreytta flóru afþreyingar í skóginum á borð við fjórhjólaferðir, gönguferðir og jafnvel berjatínslu.
Skógarnir mikilvægir fólki í sóttkví
Trausti Jóhannsson er skógarvörður á Suðurlandi og eru þjóðskógarnir í hans umdæmi fjölmargir og margir meðal vinsælustu útivistarskóga landsins. Þar ber meðal annars að nefna Laugarvatnsskóg, Haukadalsskóg, Tumastaðaskóg, Furulundinn á Þingvöllum, Þórsmörk og Þjórsárdal. Trausti segir að strax í fyrstu bylgju orðið vart við meiri umferð í skógunum í umdæminu. Fólk hafi flúið fjölmennari byggðarlög í sumarhúsabyggðir sem eru miklar á Suðurlandi og flestar í skóglendi eða í nágrenni við skóg. Þar var líka töluvert af fólki sem var í sóttkví, annað hvort sjálfskipaðri eða vegna heimkomu frá útlöndum. Skógurinn sannaði sig sem mikilvægt útivistarsvæði þar sem nægt er pláss til að tryggja fjarlægðartakmarkanir, aðgengi gott og skjól fyrir veðri og vindum.
Sjálfur hafði hann ákveðið að flýja margmennið út í skóg í páskafríinu með fjölskyldunni, og þar hafi verið umhorfs „eins og þar hefði farið skrúðganga í gegn“. Margir hafi nýtt sér þessar fyrstu vikur í samkomubanni til að heimsækja skóga og um leið og fólk hafi orðið kunnugt staðháttum hafi það haldið áfram að koma. Aðrir gestir nýttu líka þjóðskógana og hafa gert í lengri tíma. Í Haukadal er algengt að gestir leiti úr margmenninu við Geysi og í skóginn. Skógurinn býr nefnilega yfir þeim töfrum að þar geturðu upplifað að vera nánast einn með sjálfum þér þó með þér séu fjölmargir aðrir gestir í skóginum. Sömuleiðis hljóti hinn sögufrægi Furulundur á Þingvöllum að vera fjölsóttasti skógur landsins þar sem daglega leggja þúsundir ferðamanna leið sína til hins gamla þingstaðar. Samsetning þeirra ferðamanna er gerðu sér leið í þessa skóga breyttist þó mikið í faraldrinum, því að í stað erlendra ferðamanna varð stóraukning í heimsóknum Íslendinga sem svöluðu ferða- og/eða hvíldarþörf sinni innanlands.
Aðsóknin í Vaglaskóg komin til að vera
Þegar greinarhöfundur sótti Vaglaskóg heim hafði fennt duglega í allar brautir og vegaslóða. Erilsamt sumar var þá senn á enda. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Norðurlandi, stóð vaktina í hjarta Vaglaskógar þar sem er aðsetur skógarvarðar. Þar er hann öllum hnútum kunnur enda var faðir hans skógarvörður í Vaglaskógi á árum áður. Fáir ef einhverjir eru því jafndómbærir á breytingar í Vaglaskógi og segist hann svo sannarlega hafa orðið var við auknar gestakomur strax í fyrstu bylgju faraldurs. Hann telur að þessar auknu gestakomur séu komnar til að vera og ekkert lát virðist vera á að skógurinn sé nýttur til útivistar á öllum tímum árs þó aðgengi sé með æði mismunandi hætti. Opnun Vaðlaheiðarganga spilar ekki síður mikilvægt hlutverk og aldrei verið styttra fyrir Eyfirðinga og aðra úr vesturátt að fara. Sama hafi verið upp á teningnum og fyrir austan og spilaði veðurblíðan inn í mjög aukna aðsókn á tjaldsvæðin í sumar. Átti starfsfólk fullt í fangi við að þjónusta alla gesti þegar mest gekk á. Bót verður vonandi á þjónustu og aðstöðu í skóginum og hefur smíði nýs eldaskála einnig átt huga starfsmanna Skógræktarinnar í Vaglaskógi.
„Oft nóg að opna einfalda braut í skóglendi, fólk lætur sjá sig“
Á Vesturlandi eru fjölmargir lágreistir birkiskógar í hraunbreiðum sem einkenna landslagið þar öðru fremur. Sumir þessara skóga eru þjóðskógar og aðrir skógar þar sem birkið stendur í bland við aðrar tegundir, allt upp í einhverja gerðarlegustu ræktuðu skóga landsins. Jón Auðunn Bogason er skógarvörður á Vesturlandi og hefur þjóðskógana í umdæminu á sinni könnu. Jón varð ekki beinlínis var við trjáknúsið en þó segir hann að átakið hafi hjálpað til við að stimpla íslensku þjóðskógana í meðvitund fólks. Veðurfar sé með því móti á Íslandi að skógarnir hafi mikið aðdráttarafl, og þó mikil áhersla sé lögð á að búa sem best um aðgengi, sé oftar en ekki nóg að grisja og gera einfaldar brautir til að fólkið komi. Mikil sumarhúsabyggð er í Skorradal þar sem starfstöð Skógræktarinnar er og líkt og á Suðurlandi var töluvert um það að fólk sækti í einveruna og friðinn þangað þegar samneyti við annað fólk var ekki í boði. Í dalnum er þjóðskógurinn Stálpastaðaskógur, þar er fjöldinn allur af merktum gönguleiðum sem fólk nýtti sér óspart. Skógurinn er ekki síður mikilvægur í rannsóknir, meðal annars vegna nálægðar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þar sem nám í skógfræði fer fram. Lokanir líkamsræktarstöðva og sundlauga olli því að fjölmargir fóru að stunda hlaup, segir Jón Auðunn, og fá útivistarsvæði séu eins vel til fallin til að stunda slíkt eins og vel hirtir skógar. Stígarnir á Vesturlandi hafi því verið uppgötvaðir af hlaupagörpum á sama tíma.
Sumarið 2020 var sérstakt í starfstöð skógarvarða við Hvamm í Skorradal að mörgu leyti, ef til vill ekki alltaf af augljósum ástæðum. Margir hafi notað tímann sem oft skapaðist í faraldrinum til að huga að garðinum, starfsmenn höfðu vart undan þeirri eftirspurn sem skapaðist eftir trjákurli. Sú varð ekki raunin árið eftir og spurning hvort landinn hafi einfaldlega fengið sig fullsaddan af framkvæmdum í garðinum og haldið á tjaldsvæði út á landi, sbr. aðsóknina í Hallormsstaðaskógi, í staðinn. Þegar hausta tók varð Jón svo heldur betur var við aukna sveppatínslu frá árunum fyrir Covid. Í viðbót við þá sem reglulega tíndu sveppi í skóginum hafi bæst við fólk sem var að tína í fyrsta skipti.
Þjóðskógarnir hafi sýnt gildi sitt
Íslendingar eru ekki frábrugðnir öðrum þjóðum að því leyti að við kunnum að meta grenndarskógana okkar. Þjóðskógarnir eru bara hluti af þeim útivistarskógum sem standa okkur til boða og skógarnir sem skógræktarfélögin sjá um, t.d. Heiðmörk og Kjarnaskógur, eflaust með þeim vinsælli. Í faraldrinum virðast margir hafa fundið skjól meðal trjánna í sínum heilsubótargöngum, fengist við sveppa- og/eða berjatínslu, gist á tjaldsvæði í skógi og nýtt sér aðrar afurðir skógarins í. Þjóðskógarnir hafa ef til vill sannað gildi sitt fyrir landsmönnum öllum og það er vonandi að sem flestir haldi áfram að gera sér ferð í sinn grenndarskóg.