Oft þarf að beygja sig við rannsóknir á íslenska birkinu. Ellert Arnar Marísson skógfræðinemi og Björn Traustason landfræðingur mæla birki á Látraströnd.
Grein um birkikortlagninguna í nýju tölublaði Náttúrufræðingsins
Áætlað er að nýliðun birkis á Íslandi hafi numið 130 km2 á árabilinu 1989 til 2012. Nýliðun skiptist ójafnt á landshluta og samsvarar það að nokkru leyti misjafnri hækkun sumarhita eftir landshlutum á sama tímabili. Sambærileg samsvörun við misjafnan samdrátt í sauðfjárstofninum á árabilinu 1989 til 2012 reyndist minni þótt leitnin væri í sömu átt. Þetta kemur fram í vísindagrein í Náttúrufræðingnum sem nýkominn er út.
Greinina skrifa sex sérfræðingar hjá Skógræktinni, Arnór Snorrason, Björn Traustason, Bjarki Þór Kjartansson, Lárus Heiðarsson, Rúnar Ísleifsson og Ólafur Eggertsson. Titill hennar er: Náttúrulegt birki á Íslandi - Ný úttekt á útbreiðslu þess og ástandi.
Í inngangi greinarinnar segir að seinni tíma erfðarannsóknir hafi sýnt að vegna mikils erfðabreytileika íslenska birkisins sé tæpast hægt að tala um eina sérstaka undirtegund ilmbjarkar á Íslandi. Svo breytilegt sé íslenska birkið að einungis lítill hluti birkiskóglendis á landinu geti talist skógur samkvæmt skilgreiningu FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar er gert ráð fyrir því að fullvaxta tré verði fimm metra há eða hærri og krónuþekjan 10% eða meiri á a.m.k. hálfum hektara lands svo tala megi um skóg. Lægra skóglendi flokkast sem annað viði vaxið land, ekki eiginlegur skógur.
Allt birkiskóglendi á Íslandi er samt sem áður tekið með í greininni í Náttúrufræðingnum, allt frá lágvöxnu kjarri upp í myndarlegustu birkiskóga og kallað birki eða birkilendi. Birki er talið hafa vaxið á um 20-30 þúsund ferkílómetrum landsins við landnám en aðeins lítið brot þess var eftir þegar farið var að meta það á síðustu öld. Í útdrætti greinarinnar segir:
Á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar var hafist handa við fyrstu kortlagningu birkis á Íslandi og svipuð úttekt var gerð 15 árum síðar. Það verk sem hér er kynnt er þriðja kortlagningin á birki á landsvísu og fór hún fram á árunum 2010 til 2014. Heildarflatarmál náttúrulegra birkiskóga og birkikjarrs var metið 1.506 km2. Það er töluvert hærra en niðurstöður úr fyrri rannsóknunum sýndu: 1.250 km2 í fyrstu athugun [1972-1975] og 1.183 km2 í hinni næstu [1987-1991]. Með því að skoða aldurssamsetningu birkiskóganna var reynt að meta nýliðun á skóglausu landi og staðfestu niðurstöðurnar að náttúrulegt birki á Íslandi hefur verið í töluverðri sókn á síðustu áratugum eftir margra alda hnignunarskeið. Áætlað er að nýliðun birkis á Íslandi nemi 130 km2 frá árinu 1989 til 2012. Nýliðun skiptist ójafnt á landshluta. Hún var hlutfallslega mest á Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðurlandi en minni á Norðurlandi og Austurlandi. Þetta hafði nokkra samsvörun við misjafna aukningu sumarhita eftir landshlutunum á árunum 1989-2006. Sambærileg samsvörun við misjafnan samdrátt í sauðfjárstofninum á árabilinu 1989 til 2012 reyndist minni þótt leitnin væri í sömu átt.
Fjallað er í greininni um útbreiðslusögu birkis, hæð þess og aldur, og rætt um fyrri skógarúttektir auk þeirrar sem fram fór 2010-2014 og er aðalefni greinarinnar. Þar sést hversu tækninni hefur fleygt fram við slíka kortlagningu og gert hana auðveldari, nákvæmari og ítarlegri.
Aldursgreining, sem m.a. var studd árhringjagreiningu úr sýnum víðs vegar af landinu, kom að góðum notum við að meta breytingar á útbreiðslu birkisins. Fram kemur þó í umræðum í greininni að fleiri og víðtækari sýni þyrfti til að meta aldurssamsetningu birkis, en aflað var í úttektinni, og jafnframt að við sjónrænt mat hætti mönnum til að meta birkið eldra en það er. Það geti leitt til vanmats á flatarmálsaukingu nýliðunar.
Þá voru breytingar á hitafari og fjölda sauðfjár á rannsóknartímanum líka metnar eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan. Rætt er um þær fjölmörgu breytur sem átt geta þátt í útbreiðslu birkis svo sem veðurfar, beit og önnur landnýting, frægæði, fræset og fleira. Náttúruleg útbreiðsla birkis sé breytileg frá einu tímabili til annars og því mikilvægt að kortleggja útbreiðslu þess með vissu milli bili. Greininni lýkur á þessum orðum:
Náttúrulegir birkiskógar og birkikjarr eru meðal mikilvægustu vistkerfa landsins, ekki síst í ljósi þess að fá vistkerfi hafa orðið fyrir jafnmikilli skerðingu frá landnámi. Því er brýnt að fylgjast vel með breytingum sem á þeim verða. Þá getur aukin þekking á nýliðun og vexti birkis nýst vel við að bæta aðferðir við endurheimt birkiskógar.
Með endurkortlagningu náttúrulegs birkis á Íslandi liggur nú fyrir nýtt stöðumat á útbreiðslu þess, og þar með má átta sig á þróun síðustu áratugina. Niðurstöður okkar eru fyrstu vísbendingarnar um að margra alda samdráttarskeiði í sögu náttúrulegra birkiskóga og birkikjarrs er lokið og útþenslustig hefur tekið við, að minnsta kosti í bili.
Björn Traustason, einn greinarhöfunda, stendur hér upp úr jarðlægu birkikjarri á
Látraströnd. „Íslenska birkið er oft lágvaxið og runnkennt og skýrist vaxtarformið
að einhverju leyti af erfðablöndun við fjalldrapa,“ segir í greininni.