Ánægðir skógargestir sækja sér fallegt rauðgreni í skóg Skógræktarfélags Íslands í Brynjudal í Hvalfirði. Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Jólatré eru afurð frá íslenskum bændum og öðrum skógareigendum og ánægjulegt er að sjá nú fréttir í Bændablaðinu af því að hlutdeild íslenskra jólatrjáa fari vaxandi en innfluttum trjám fari fækkandi. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréð en í fyllingu tímans bætist við kynbættur íslenskur fjallaþinur sem ætti að falla unnendum nordmannsþins í geð.
Bændablaðið ræddi í lok nóvember við Ingólf Jóhannsson, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga, sem segist finna fyrir auknum áhuga á íslensku trjánum. Skogur.is hefur líka þær glóðvolgu fréttir að færa að félagið hafi nú hætt sölu á innfluttum trjám. Í fyrra tók Skógræktarfélag Eyfirðinga við jólatrjásölu Sólskóga í Kjarnaskógi og seldi nordmannsþin í litlum mæli fyrir þá viðskiptavini sem ekkert annað vilja. Nú er enginn nordmannsþinur til sölu þar, hvorki tré né greinar, og í staðinn er íslensku trjánum haldið að viðskiptavinunum með stolti.
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtist svo ítarlegri umfjöllun um jólatré þar sem Þórveig Jóhannsdóttir, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, segir svipaða sögu. Áhugi Íslendinga á innfluttum nordmannsþin fari minnkandi en á móti aukist sala á íslensku trjánum, sérstaklega á stafafuru sem er orðin vinsælasta íslenska jólatréð. Stafafuran hefur 62,4% hlutdeild af íslensku trjánum, svipað og rauðgreni hafði árið 1993 samkvæmt tölum sem Skógræktarfélag Íslands heldur utan um. Nú er hlutur rauðgrenis aðeins rúm 11 prósent.
Blaðið ræðir líka við Brynjar Skúlason, skógerfðafræðing hjá Skógræktinni, sem hefur unnið að kynbótum á fjallaþin til jólatrjáaræktar. Lítið framboð er enn sem komið er af fjallaþin en áður en mörg ár líða er von á fræi af kynbættum fjallaþinstrjám, annars vegar grænleitu yrki og hins vegar bláleitu. Þá verður kominn góður valkostur við innfluttan nordmannsþin og engin afsökun lengur að kaupa innflutt tré. Og Brynjar hefur mikla trú á þessum úrvals fjallaþin sem við eigum von á í framtíðinni.
Sá efniviður mun gefa hærra hlutfall af jólatrjám en þau kvæmi sem notuð hafa verið til þessa enda sérvaldir klónar úr bestu kvæmum og með fallegt jólatrjáaútlit. Jólatrjáarækt hefur ekki verið sérstakur hluti af bændaskógaverkefninu. Ég held að það sé löngu tímabært að skoða þann möguleika og stefna að því að eingöngu verði íslensk tré á markaði hérlendis,
segir Brynjar Skúlason.
Umhverfisáhrif jólatrjáa eru alltaf nokkuð í umræðunni og Þórveig Jóhannsdóttir minnist á þau í spjallinu við Bændablaðið. Til að forðast innflutning á skaðvöldum og sjúkdómum væri best að Íslendingar ræktuðu öll sín jólatré sjálfir og raunar er enginn innflutningur á plöntum æskilegur vegna möguleikans á að hingað berist skæðar pestir sem gert geta usla, bæði í villtri náttúru og ræktuðum gróðri. Stöndum því saman og kaupum íslensk jólatré og stöndum þannig vörð um náttúru landsins og íslenska skógrækt.