Afgreiðsluborðið góða af viði úr Skorradal
Afgreiðsluborðið góða af viði úr Skorradal

Timbur úr Skorradal nýtt í innréttingar

Fimmtudagurinn 2. október var stór dagur í sögu Landbúnaðarsafns íslands og Ullarselsins þegar formlega var flutt með starfsemina yfir í Halldórsfjós á Hvanneyri.  Landbúnaðarsafn Íslands er safn sem varðveitir sögu landbúnaðar á Íslandi en Ullarselið rekur hópur handverksfólks í Borgarfirði sem hefur um árabil boðið til sölu úrvalshandverk, mest úr íslenskri ull. Landbúnaðarsafnið og Ullarselið hafa verið í „sambúð“ um langt skeið og eru það enn en nú á nýjum og glæsilegum stað.

Halldórsfjós er merkilegt hús. Það var reist á árunum 1927-1928 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Fjósið var gert fyrir 70 kýr. Þótti það mikil bygging á sínum tíma og þykir enn.Það er því afskaplega gaman að Landbúnaðarsafnið skuli vera flutt í þetta merkilega hús.

Fljótlega kom upp áhugi á að nýta íslenskt timbur í innréttingar safnsins og var leitað til Skógræktar ríkisins eftir því. Í fyrstu var bara verið að hugsa um sýningarpalla og göngubrýr, en fljótlega var svo farið að huga að öðrum notum fyrir viðinn eins í afgreiðslu- og sýningarborð auk veggklæðningar. Síðasta beiðnin var svo myndarlegur stofn í ræðupúlt.

Skógarvörðurinn á Vesturlandi, Valdimar Reynisson, var viðstaddur opnunina og hreifst mjög af því hvernig til tókst. Sýningin er skemmtilega upp sett, gott flæði er í gegnum sýninguna og lýsingin er eins og best verður á kosið. Timbrið úr Skorradalnum nýtur sín vel og setur skemmtilegan svip á sýninguna.

Skógrækt ríkisins á Vesturlandi óskar Landbúnaðarsafni Íslands og Ullarselinu til hamingju með nýja og glæsilega aðstöðu og sýningu.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnunina.


Myndir og texti: Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi