Vel á þriðja hundrað manns kom til að versla og njóta

Jólamarkaðurinn sem haldinn varí Vaglaskógi laugardaginn 9. desember gekk vel. Áætlar Rúnar Ísleifsson skógarvörður að vel á þriðja hundrað manns hafi komið í skóginn til að sjá hvað var í boði, njóta veitinga, hitta aðra og versla eitthvað fyrir jólin. Vetrarveður var með fallegasta móti í skóginum og aðstæður því hinar bestu.

Markaðurinn hefur vaxið og dafnað með ári hverju og sömu sögu er að segja um úrval og gæði þeirra vara sem á boðstólum eru. Að verulegu leyti er þetta handverk sem unnið er í Þingeyjarsýslum og mikið af því úr viði eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Þær tók Guðríður Steingrímsdóttir á markaðnum um helgina en myndina af kyndlinum tók Valgerður Jónsdóttir.

Skógræktin seldi jólatré, greinar og fleiri afurðir úr skóginum og nú ætti að mega slá því föstu að jólamarkaður í Vaglaskógi sé orðinn að ómissandi hefð á jólaföstunni. Alltaf er gott að koma í skóginn, ekki síst í fallegu vetrarveðri. Nokkur snjór er nú í Vaglaskógi þótt ekki verði það kallað fannfergi.



Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Guðríður Steingrímsdóttir