Hraustir menn bera tréð út úr skóginum.
Starfsmenn skógarvarðarumdæmanna fjögurra hjá Skógrækt ríkisins hafa undanfarnar vikur unnið að því að fella jólatré, bæði torgtré og heimilistré. Skógarverðir Skógræktar ríkisins eru sammála um að auka þurfi jólatrjáaræktun í landinu. Hún hafi ekki aukist eins hratt hjá skógarbændum og vænst var og því sé Skógrækt ríkisins aftur að vinda upp seglin eftir nokkurt hlé. Hér verður farið yfir stöðuna í skógarvarðarumdæmunum fjórum.
Vesturland
Úr umdæmi skógarvarðarins á Vesturlandi voru seld um fjörutíu torgtré þetta árið. Þau hæstu eru 9-10 metra há en annars eru þetta tré frá fjórum metrum og upp í tíu. Valdimar Reynisson skógarvörður segir að trén úr Skorradalnum fari býsna víða, vestur á firði á Bíldudal, Patreksfjörð og Tálknafjörð, norður á Hvammstanga, vestur í Búðardal og Snæfellsbæ, á Reykjanesi standi tré úr Skorradal í Grindavík, Vogum og Garði en það síðastnefnda er það hæsta sem skógarvörðurinn á Vesturlandi afhendir fyrir þessi jól. Valdimar segir að Kópavogsbær kaupi líka tré úr Skorradal, sömuleiðis Þjóðleikhúsið, nokkur húsfélög í Reykjavík og einnig forsetaembættið eins og venjan er. Forsetinn tekur alltaf rauðgreni til að hafa inni á Bessastöðum og úti við hefur hann sitkagreni. Loks má nefna Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund í Reykjavík sem tekur alltaf þriggja til fjögurra metra háan þin til að hafa í samkomusalnum. Tréð sem þangað fór í ár er mjög flott, segir Valdimar.
Undanfarna daga hafa Valdimar og starfsmenn hans verið að fella innitrén sem meðal annars verða seld hjá björgunarsveitunum á Akranesi og í Borgarnesi. Valdimar segir að allt of lítið hafi verið gróðursett til jólatrjáa í umdæmi hans síðustu fimmtán árin eða svo en í sumar var blásið í seglin og áfram verður aukið við næstu árin.
Ýmsar hefðir tengjast vinnunni við jólatrén og til dæmis er fastur liður hjá skógarverðinum á Vesturlandi að taka á móti grunnskólabörnum frá Hvanneyri, um 30 krökkum, sem koma í skóginn með kennurum sínum til að velja tré fyrir skólann. Tréð saga þau sjálf og taka líka tré fyrir leikskólann í leiðinni.
Austurland
Skógarvörðurinn á Austurlandi selur tré til allflestra þéttbýlisstaða á Austurlandi. Tré úr Hallormsstaðaskógi verða á Þórshöfn, Bakkafirði, Vopnafirði, Borgarfirði eystra, Seyðisfirði, Norðfirði og Höfn, allt að níu metra há tré þetta árið. Jólatré Egilsstaðabúa kemur að þessu sinni úr garði á Egilsstöðum. Stærsta tréð frá Hallormsstað í ár keypti Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði, milli 12 og 13 metra hátt rauðgreni.
Bergrún Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað, segir að þessa dagana sé verið að fella heimilistrén og til dæmis fari sending af fjallaþin til Akureyrar nú í vikunni, 50-60 stykki, sem seld verða hjá Sólskógum í Kjarnaskógi. Um tuttugu slík verða líka seld fyrir austan en annars er aðallega selt rauðgreni úr skógum Skógræktar ríkisins eystra og dálítið af blágreni en lítið er eftir af stafafuru í réttum stærðum. Bergrún segir að smám saman sé ræktunin að aukast hjá skógarbændum en það mætti gerast hraðar.
Rauðgrenið er langvinsælast fyrir austan og það er mjög fallegt þetta árið, segir Bergrún, enda sumarið sem leið afar gott og áfallalaust. Jólatrén séu hágæðavara í ár. Auðvelt hefur verið að ná í trén núna í nær snjólausum skóginum og ekki hefur heldur verið of kalt. Hún segir að ekki sé hægt að saga jólatré í meira en 8 stiiga frosti því þá brotna þau eins og gler.
Blágreni við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri.">
Norðurland
Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, segir að úr norðlensku skógunum verði felld um 180 stofutré þetta árið, aðallega rauðgreni en einnig um 50 blágrenitré og 15 stafafurur. Sáralítið er hins vegar afgreitt af stærri trjám þótt nóg sé af hentugum trjám í skógunum. Markaðurinn fyrir torgtré er ekki stór og honum er vel sinnt af öðrum á Norðurlandi. Rúnar vill hins vegar efla jólatrjáaræktina fyrir norðan með auknum gróðursetningum og hann langar líka að standa fyrir skógardegi fyrir jólin á næstu árum til að fólk geti komið í skóginn á aðventunni, upplifað jólastemmninguna og náð sér í jólatré og greinar.
Suðurland
Af Suðurlandi voru afhent 45 torgtré nú fyrir jólin sem dreifast allvíða um sunnan- og suðvestanvert landið, segir Hreinn Óskarsson skógarvörður. Um fjögur hundruð stofutré koma auk þess úr umdæminu og er rúmur helmingur þeirra blágreni, um 150 rauðgrenitré og 50 stafafurur. Opið verður fyrir almenning í Haukadalsskógi helgina 20. og 21. desember og þá getur fólk sem vill höggvið sér tré en Hreinn segir að um 140-150 séu að jafnaði tekin þessa daga sem fólk kemur í skóginn en það fari þó minnkandi því erfiðara sé orðið að finna hentug tré.
Að sögn Hreins var lítið gróðursett í jólatrjáareiti á Suðurlandi í nokkur frá árinu 2003 en síðustu árin hefur verið aukið við ræktunina á ný sem ætti að fara að skila sér eftir þrjú til fjögur ár. Skógarverðirnir segja semsé allir svipaða sögu. Búist var við því að skógarbændur myndu smám saman taka við keflinu og auka jólatrjáarækt sína og því lagði Skógrækt ríkisins minni áherslu á þetta um tíma. Jólatrjáarækt skógarbænda hefur hins vegar ekki staðið undir væntingum og Hreinn segir þörf á átaki í þessum efnum um allt land. Else Møller, skógarbóndi og skógfræðingur á Vopnafirði, hafi verið dugleg að fara um landið og hvetja fólk áfram með fræðslu og námskeiðum og Hreinn vonast til að nú fari hlutirnir að gerast og ræktun íslenskra jólatrjáa að aukast.
Hér er áhugavert viðtal við Hrein Óskarsson skógarvörð úr Mannlega þættinum á Rás 1 frá því í síðustu viku þar sem rætt var við hann um jólatré.
Rétt er að vekja athygli á jólatrjáavef skógræktarfélaganna. Líklega væri framboð á íslenskum jólatrjám snöggtum minna ef ekki væri fyrir starf skógræktarfélaganna sem selja á hverju ári drjúgan hlut af þeim jólatrjám sem felld eru í landinu.
Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir frá heimsókn skólabarna frá Hvanneyri í Stálpastaðaskóg. Myndirnar tók Helga Jensína Svavarsdóttir, deildarstjóri skólans.