Héraðsskógar gáfu þetta árið öllum leikskólum á Héraði jólatré. Var okkur vel tekið og í Tjarnarbæ komu börnin út og sungu fyrir okkur nokkur jólalög eins og sést á myndinni.

Að auki færðum við hverju barni kort sem í var sagan um jólatréð.


Sagan um jólatréð

Úr blaðinu Jólakveðja frá dönskum sunnudagaskólabörnum 1930

Hvers vegna er grenitréð notað sem jólatré?

Þegar halda átti jól í fyrsta sinn sagði Guð þremur englum sínum að fljúga út í heiminn til þess að finna jólatré. Það voru englarnir þrír sem honum þótti vænst um af öllum.

Engill trúarinnar
Engill vonarinnar,
Engill kærleikans.

Englarnir flugu út yfir akra og engi í áttina til skógarins mikla. Það var nístingskalt í veðri. Englarnir þrír voru að tala saman.

Engill trúarinnar er yndislegur hvítur engill með blá augu sem ávallt horfa upp í himininn til Guðs. Hann tók fyrst til máls og sagði: ?Eigi ég að vera jólatré, þá verður það að hafa krossmarkið á greinunum, en samt að vera beinvaxið og teygja sig upp til himins.?
Engill vonarinnar sagði: ?Það tré sem ég kýs má ekki visna heldur verður það að vera grænt og kraftmikið allan veturinn eins og lífið sem sigrar dauðann.?

Engill kærleikans er yndislegastur þeirra allra. Það er hann sem elskar öll lítil börn og ber alltaf lítinn dreng á hægri handlegg sér og litla stúlku á þeim vinstri. Hann mælti: ?Það tré sem mér á að geðjast að verður að vera skjólsælt tré sem breiðir greinar sínar vinalega út til að skýla öllu litlu fuglunum.?
Hvaða tré ætli þeir hafi svo fundið?

Blessað grenitréð.

Það hefur kross á öllum greinunum og er grænt í vetrarsnjónum og veitir öllum litlum fuglum skjól. Þegar þeir höfðu fundið það vildu þeir líka hver fyrir sig gefa því gjöf.
Engill trúarinnar gaf því yndislegu jólakertin til þess að staðið gæti af því himneskur ljómi eins og fyrstu jólanóttina.
Engill vonarinnar setti stóra tindrandi stjörnu á toppinn.
Engill kærleikans hengdi gjafir á allt fallega græna grenitréð.

Og Guð gladdist yfir góðu englunum sínum.

 

Um uppruna jólatrésins ritar Árni Björnsson þjóðháttafræðingur í bókinni Saga daganna (1977):

Um uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar. Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um "miðjuna". Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.

Með því að færa leikskólum og leikskólabörnum grenitré að gjöf vilja skógarbændur, starfsmenn og stjórn Héraðsskóga óska íbúum Fljótsdals- og Fljótdalshéraðs gleðilegra jóla, árs og friðar.