Fyrstu jólatrén sem tekin voru í þjóðskóginum í Þjórsárdal þetta árið. Ljósmynd: Jóhannes H Sigurðsson
Hratt flýgur stund og senn nálgast jólin. Starfsfólk Skógræktarinnar á Suðurlandi hóf fyrir helgi að fella torgtré sem sett verða upp víða hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum á næstunni og skreytt ljósum. Um miðjan nóvember verður farið að fella stofutrén.
Vel hefur viðrað í haust til að fara um skógana og velja tré fyrir kaupendur jólatrjáa. Eins og fyrri ár útvegar Skógræktin hluta þeirra jólatrjáa sem seld eru sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum sem torgtré. Þessi tré þarf að taka fyrst því þau eru sett upp snemma og standa úti við fram á nýárið. Í kjölfarið eru tekin jólatré sem seld eru í heildsölu og er Byko stærsti kaupandi jólatrjáa úr þjóðskógum Suðurlands.
Starfsfólk skógarvarðarins á Suðurlandi hefur nýtt sér blíðuna undanfarið til að undirbúa og hefja jólatrjáavinnuna. Jóhannes H Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, sendi meðfylgjandi ljósmynd og myndband sem gefur örlitla innsýn í starfið. Jóhannes segir að fimm starfsmenn hafi unnið við starfstöðina í Þjórsárdal fram á haust en þeim sé nú að fækka niður í tvo. Þó sé mögulegt að liðsauki bætist við í jólatrjáavertíðinni. Hann segir að mest sé tekið af sitkagreni og blágreni til að selja sem torgtré. Blágrenið sé eftirsótt vegna þess að þegar það er upp á sitt besta sé það lokaðra og þéttara en sitkagrenið, fallegt á litinn og heldur flottara tré.
Nokkuð hefur verið gert af því að grisja reiti í Þjórsárdal með það í huga að taka þar torgtré. Trén þurfa gott pláss og birtu allan hringinn til að verða jöfn og falleg. Fyrstu trén þetta árið voru tekin í reit í Selhöfðum í Þjórsárdal, í hlíðum Skriðufells. Gróðursett var þar fyrir um aldarfjórðungi og grisjað fyrir nokkrum árum. Þar eru nú hægt að taka allt að átta metra hjá torgtré. Torgtré úr Þjórsárdal verða sett upp víða um Suðurland og á höfuðborgarsvæðinu en Jóhannes segir líka að talsverður fjöldi fari til sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Um miðjan nóvember segir Jóhannes að farið verði á fullt við að saga smærri trén sem prýða munu stofur fólks um jólin. Mest er tekið af stafafuru sem segja má að sé orðið hið eina sanna jólatré í hugum margra. Jóhannes lofar þurrviðrið sem verið hefur á Suðurlandi frá því um mitt sumar en telur þó að mögulega geti farið að lækka í vatnsbólum víða ef gerir frostakafla og áframhaldandi þurrk. Þurrkatíðin og snjóleysið kemur sér hins vegar mjög vel í allri skógarvinnu.
Þjóðskógarnir sem Skógræktin hefur umsjón með hafa stækkað mikið og víða er orðið lítið þar um tré í þeim stærðum sem sóst er eftir sem jólatré. Skógar skógræktarfélaga eru líka drjúg uppspretta jólatrjáa og í auknum mæli selja skógarbændur nú jólatré úr skógum sínum. Væntanlega verður áframhald á þeirri þróun. Að velja íslenskt jólatré er besta valið fyrir umhverfið og loftslagið auk þess sem það styður við skógrækt og umhirðu í skógum landsins.