Krossnefur hefur líklega orpið í desember í barrskógum Fljótsdalshéraði og komið upp ungum því þrír stálpaðir ungar sáust um helgina ásamt foreldrum sínum í skóginum á Höfða þar sem Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri gefur fuglum á veturna.

Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag. Krossnefur er nýlegur landnemi í fuglafánu Íslands og má þakka komu hans hingað barrviðarskógum sem vaxið hafa upp á landinu. Goggur krossnefs er sérstaklega lagaður til þess að ná fræjum úr könglum trjáa og fer varp hans aðallega eftir fræframboði en síður eftir árstímum. Með öðrum orðum má gjarnan búast við varpi tegundarinnar utan hefðbundins varptíma fugla því könglar barrtrjáa opnast gjarnan og losa fræ sín þegar kemur fram á vetur og fram eftir vetri.

Morgunblaðið ræðir við Þröst sem segir að krossnefsfjölskyldan hafi sést í Höfða um helgina. Hann telur að trúlega hafi ungarnir klakist út í janúar. Kvenfuglinn liggi á eggjum í 13-16 daga, ungar dvelji 16-25 daga í hreiðrinu frá því að þeir skríða úr eggjum og séu háðir foreldrum um fæðu í 3-4 vikur til viðbótar. Af þessu ræður hann að varpið hafi farið fram í desember og því má segja að þetta séu jólaungar.

Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður ræddi við Þröst og skrifar greinina en myndir sem fylgja eru eftir Örn Óskarsson, fuglaljósmyndara á Selfossi. Greinin er á þessa leið.

Krossnefshjón með þrjá nokkurra vikna unga glöddu heimilisfólk á Höfða fyrir innan Egilsstaði um helgina. Kvikur fuglinn hafði slegist í för með auðnutittlingum sem sóttu í sólblómafræ í bökkum og staukum í trjám, en snjór var yfir öllu. Krossnefur lifir að mestu á fræi barrtrjáa og þess vegna er ekki útilokað að hann hafi leitað fanga á þessum stað þar sem býr Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri!

„Ég hef séð krossnef nokkrum sinnum í fóðurgjöfinni hjá mér í vetur þar sem auðnutittlingar eru mest áberandi, en einnig snjótittlingar,“ segir Þröstur. „Þetta hafa verið stöku fuglar, en svo birtist þessi fjölskylda um helgina. Fuglarnir tylltu sér í trén þannig að auðvelt var að fylgjast með þeim og ættareinkennið víxlaðir goggar, sem er nauðsynlegt verkfæri við fæðuöflunina, fór ekkert á milli mála. Karlinn rauður og kvenfuglinn grænleitur. Ungarnir þrír aftur á móti gráleitir og ekki komnir með fullorðinslit, en vel fleygir.“

Ruglar tímatalið

Trúlega hafa ungarnir klakist út í janúar og fuglinn hafi þá orpið í desember. Það er alþekkt að krossnefur verpi að vetri til og rugli þannig tímatalið, en aðrir fuglar hér á landi verpa á vorin. Kvenfuglinn liggur á eggjum í 13-16 daga, en ungar eru síðan 16-25 daga í hreiðrinu frá því að þeir skríða úr eggjum. Þeir eru háðir foreldrum um fæðu í 3-4 vikur til viðbótar eftir að þeir fara úr hreiðri og eru fóðraðir á fræjum.

Krossnefur virðast tengja varptímann fræþroska og frælosun, annars vegar vegar til að fita sig fyrir varpið og hins vegar til að geta fætt ungana. Þess vegna eru haust og vetur góður tími fyrir varp krossnefs, en válynd veður setja þó oft strik í reikninginn. Þegar aðrir fuglar eru að undirbúa varp þá er það búið hjá krossnefnum.

Þröstur segir að heimsóknin um helgina sé til marks um að krossnefurinn hafi orpið í nágrenninu. Það sé út af fyrir sig merkilegt, ekki bara árstíminn heldur einnig vegna þess að krossnefur sé ekki algengur varpfugl á Íslandi. Hann hafi þó sennilega orpið árvisst í nokkurn tíma, en ekki margir fuglar og ekki alltaf sem varp hafi tekist.

„Þetta er sérstakur fugl að því leytinu að hann lifir nær eingöngu á fræi barrtrjáa. Hér var talsvert af fræi á stafafuru síðasta haust og er alltaf eitthvað á eldra greni,“ segir Þröstur. Hann segir að aukin skógrækt hafi meðal annars gert fuglum eins og krossnef og glókolli auðveldara að nema hér land.

Sérhæfðar fræætur

Krossnefir eru líklega hingað komnir úr barrskógum Skandinavíu eða austar. Á vefnum fuglavernd.is segir að krossnefur sé af finkuætt og varptíminn sé mjög breytilegur, allt frá desember og fram í júní og fari tímasetning hans eftir fæðuframboði. Helstu einkenni séu krókboginn goggur þar sem efri og neðri hluti goggsins gangi á misvíxl. Fuglarnir séu sérhæfðar fræætur og beri goggurinn vitni um það en hann sé notaður til þess að ná fræjunum úr könglum.

Á vefnum segir að krossnefir séu staðfuglar en leggist í flakk ef fæðuframboð sé lítið. „Margir krossnefirkoma oft til landsins við þær aðstæður. Í kjölfar einnar slíkrar göngu reyndi krossnefspar varp árið1994 en það misfórst. Sumarið 2008 kom mikill fjöldi krossnefja til landsins. Mikið og gott fræár var hjá grenitegundum og því næg fæða.

Í kjölfarið hófu krossnefir varp í skógarlundum víða um land. Víða sáust ungar árin 2009 og 2010 og hreiður fannst. Með aukinni skógrækt og hærri barrtrjám aukast líkurnar á því að krossnefur nái hér fótfestu,“ segir á fuglavernd.is.

Texti: Pétur Halldórsson