Verðlaunagripurinn Kjarkur og þor sveitanna var afhentur á Bændahátíð er fór fram í Valaskjálf á Egilsstöðum laugardaginn 1. nóvember.  Það var Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi sem hlaut gripinn að þessu sinni en við tilnefninguna er m.a. horft til nýsköpunar og áræðis. 

Búskaparsaga Eymundar smellpassar við þessi skilyrði en hann hóf sinn búskap á hefðbundinni mjólkurframleiðslu en hefur breytt búinu alfarið í lífræna ræktun.  Helstu framleiðsluvörur í Vallanesi eru lífrænt ræktað grænmeti og korn og eru tilbúnir réttir unnir úr hráefninu heima fyrir en þar má m.a. nefna byggbuff, rauðrófubuff og byggsalat.  Einnig eru framleiddar olíur á búinu sem Eymundur sér m.a. annars sjálfur um að nudda viðskiptavinina með.

Umgjörðin um ræktunina í Vallanesi eru ræktarleg skjólbelti en plöntun þeirra hófst árið 1983.  Vallanes hefur verið með skógræktarsamning við Héraðsskóga síðan árið 1998 og búið er að planta yfir milljón plöntum.  Þegar skógurinn verður farinn að vaxa upp í kringum akrana sem þegar hafa mikið skjól af skjólbeltunum segir Eymundur að akrarnir verði á við suðræna paradís og hægt verði að snúa sér að ræktun ólífa og vínviðar.

Það eru fleira sem hægt er að nýta úr skóginum og má vænta byggsalats með lerkisveppum innan tíðar úr smiðju Eymundar.  Þegar kemur að grisjun skógarins fer að falla til mikið efni sem verður hægt að kurla og nýta m.a. í safnhauga og göngustíga.  Framtíðardraumurinn hjá Eymundi er sá að koma upp kurl hitaveitu fyrir búið.

Að framansögðu má ljóst vera að verðlaun sem byggjast á nýsköpun og áræði eiga vel heima hjá Eymundi í Vallanesi.

Meðfylgjandi er tengill þar sem lesa má ræðu Sigurbjörns Snæþórssonar formanns Búnaðarsambands Austurlands við afhendingu viðurkenningarinnar.

Við látum fljóta með uppskrift af morgungraut Gabríels sem er einföld og góð.

Morgungrautur  Gabríels
 
3 dl Bankabygg, 9 dl vatn,  2  tsk. salt,  2 epli skorin í litla  teninga, 1-2 dl rúsínur, 1  msk kanill.

Hráefnið er allt sett í pott t.d. að kvöldi og suðan látin koma upp. Síðan er slökkt undir, lokið sett á pottinn og farið að sofa. Að morgni þarf bara að hita grautinn upp og borða t.d. með mjólk, en það má líka borða hann kaldan eða nota sem músli á súrmjólkina.   Grauturinn þolir vel geymslu í kæli svo tilvalið er að sjóða hann til nokkurra daga í einu.