Ýmis tækifæri skapast með skógrækt, þar með talin fjölgun starfa. Framleiða þarf plönturnar, gróðursetja þær, sinna umhirðu á skóginum og fella og endurplanta þegar þar að kemur, svo nokkur dæmi séu tekin. Fyrir utan aukið verðmæti landsins sjálfs, þá eru tækifæri í úrvinnslu timburs, nýtingu skóga sem matarkistu (sveppir, ber o.fl.) sem hægt er að búa til verðmæti úr og einnig er hægt að nýta afurðir skóganna sem eldsneytisgjafa. Þarna skapast því kjörið tækifæri fyrir fólk að setja á laggirnar smáframleiðslufyrirtæki sem búa til verðmæti úr hreinum náttúruauðlindum.
Við þekkjum öll hversu vinsælir skógar eru sem útivistarsvæði og hafa þeir skapað sér skemmtilegan sess á Íslandi sem leik- heilsu- og afþreyingarsvæði fyrir fólk á öllum aldri. Með sjálfbærni að leiðarljósi getum við haldið áfram að byggja upp skógana okkar og búa til mikil verðmæti úr þeim. Ekkert í náttúrunni stendur í stað og bæta skógar nýstárlegum viskerfum í annars skóglítið og fremur einsleitt landslag. Líffræðileg áhrif skógræktar eru misjöfn en ef rétt er að málum staðið, þá geta þau verið mjög jákvæð og veitt skjól fyrir dýr og menn.
Jákvæð hliðaráhrif skógræktar eru mörg. Þar ber helst að nefna kolefnisbindingu. Ekki veitir okkur af því að vinna kröftuglega að þessum málum. Kolefnisbindingin gerir umhverfinu okkar gott og er mikilvægur þáttur þess að við getum náð kolefnishlutleysi. Við megum líka endilega hugsa lengra en kolefnishlutleysið og stefna á að fara yfir núllið. Markaðir með kolefniseiningar eru að þróast og það verður gaman að fylgjast með þegar virkir markaðir með vottaðar kolefniseiningar verða komnir á fullt. Það mun skapa tækifæri fyrir landeigendur að auka tekjur sínar, ásamt því að stuðla að auknu verðmæti jarða.
Við vitum að það þarf þolinmæði til þess að rækta skóga en með hliðsjón af því hversu miklu þeir geta skilað okkur í bættum lífsgæðum, jákvæðum fjárhagslegum og samfélagslegum þáttum, þá er um að gera að gefa í, og rækta meiri skóg.
Texti: Hafliði Hörður Hafliðason,
verkefnisstjóri Kolefnisbrúarinnar