Meðalbinding koltvíoxíðs (CO2) í íslenskum skógum er talin vera um 4,4 tonn á hektara á ári, yfir 90 ára vaxtartíma skógarins. Við skulum gefa okkur að "meðal" fólksbíll keyri um 30.000 km á ári og losi á þeim tíma um 4,6 tonn af koltvíoxíði. Til að vega upp á móti þeirri losun þarf að gróðursetja um einn hektara af skógi, eða sem samsvarar um það bil 2500 trjám. Þessi fjöldi trjáa bindur þá að meðaltali 4,4 tonn af koltvíoxíði á ári í um 90 ár.

Mikilvægt er að hafa í huga að árlegur útblástur bíla er mjög mismikill eftir tegundum. Upplýsingar um útblástur einstakra bílategunda má finna á heimasíðu Orkuseturs undir "eldsneyti" og "kolefnisbókhald".

Með einni flugferð frá Keflavíkurflugvelli til London er talið að losun á koltvíoxíði sé um það bil 210 kg á farþega. Með sömu forsendum og eru hér að ofan má því segja að til að vega upp á móti flugferð til London þyrfti hver farþegi að planta um það bil 120 trjám. Sama fjölda þarf að sjálfsögðu að planta vilji farþeginn vega upp á móti losun koltívoxíðs á heimferðinni. Upplýsingar um útblástur vegna flugferða til ólíkra áfangastaða má finna á heimasíðunni www.co2.is undir "flugvélar".

Tré, eins og aðrar plöntur, ljóstillífa. Afleiðing ljóstillífunar er sú að súrefni (O2) losnar út í andrúmslofið. Ljóstillífunarhraði er háður mörgum þáttum svo sem trjátegundum, veðurfarsskilyrðum, frjósemi jarðvegs og svo framvegis. Almennt er álitið að frá 1 hektara af skógi fáist um það bil 7 tonn af súrefni á ári. Hvert tré á þessum hektara er þá að gefa frá sér um 28 kg af súrefni á ári eða 0,077 kg á dag. Fullorðinn maður notar um 0,80 kg af súrefni á dag. Út frá þessu má sjá að 10 tré framleiða daglega það súrefni sem einn einstaklingur notar á hverjum degi.

 

Byggt á svari Brynhildar Bjarnadóttur, sérfræðingi hjá Skógrækt ríkisins, á Vísindavef Háskóla Íslands.