Uppvaxandi frægarður haustið 2016. Sum trjánna í frægarðinum hafa undarlegt vaxtarlag vegna þess að græðlingarnir voru af hliðargreinum. Því vilja trén halda hliðarvexti áfram. Það kemur hins vegar ekki að sök þegar tilgangurinn er að fá fræ.
Enn er þess þó langt að bíða að fræframleiðslan komist í fullan gang
Ágrædd sitkagrenitré í frægarði Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð þroskast vel og þau fyrstu eru nú farin að mynda fræ. Enn er þess þó langt að bíða að fræframleiðslan komist í fullan gang en á meðan er fræjum safnað í skógarreitum af þeim kvæmum sem best hafa reynst. Gæði fræjanna aukast þegar grisjað er og bestu trén látin standa eftir.
Skógrækt á Íslandi er hvorki gömul atvinnugrein né fyrirferðarmikil. Mannafli og fjármunir hafa því ekki getað staðið undir kostnaðarsömum kynbótaverkefnum, sem þó er full þörf á vegna veðurfarslegrar sérstöðu landsins. Allar trjátegundir sem hér eru notaðar í skógrækt, að birki undanskildu, eru hingað komnar frá svæðum sem ekki eru með sama veðurfar og Ísland. Það eina sem hægt var að gera í upphafi var að reyna að finna svæði í öðrum löndum sem líktust okkar landi sem mest um vaxtarskilyrði, planta svo kvæmum og klónum sem víðast og sjá svo til. Bæði var um að ræða einfalda skógarreiti, sem síðan var reynt að meta reynsluna af, og svo vandaðar kvæma- og klónatilraunir. Nú er safnað innlendu fræi af mikilvægum tegundum eins og sitkagreni og stafafuru, en eiginlegir frælundir hafa ekki verið settir á stofn fyrr en á síðustu árum.
Hæsta tréð á myndinni er með æskilegt
vaxtarform, grannar greinar og gleitt
greinahorn.
Kynbótastarf mikilvægt
Úrval og trjákynbætur eru ekki eingöngu stundaðar til þess að finna efnivið sem er vel aðlagaður veðurfari. Ef nytja á trjátegundina þarf hún að vaxa vel, hafa gott vaxtarform og þola vel ásókn meindýra og sjúkdómsvalda.
Áhugamenn tóku sig til á níunda áratugnum og ákváðu að bæta vaxtarform íslenska birkisins. Út úr því verkefni kom yrkið Embla sem margir þekkja. Einnig hefur lerki verið kynbætt á vegum Skógræktarinnar og úr þeim kynbótum hefur meðal annars orðið til blendingurinn Hrymur.
Árið 2002 var sett af stað á vegum Skógræktar ríkisins verkefnið Betri tré. Það gekk í stórum dráttum út á að kynbæta alaskaösp og stofna frægarð með úrvalstrjám af sitkagreni.
Um öspina hefur verið skrifað í Ársrit S.r. og gangur kynbótanna verið kynntur á fundum og ráðstefnum. Minna hefur farið fyrir kynningu á greniverkefninu enda gerist þar allt hægt og rólega.
Grenifrægarðurinn
Í upphafi var ákveðið hvaða atriði skyldi leggja áherslu á þegar úrvalstré af sitkagreni væru valin til þess að taka græðlinga af. Fyrirmyndin var einkum sótt til Bretlands, en þar hafa kynbætur á sitkagreni lengi verið stundaðar. Valin voru tré sem vaxið höfðu vel og áfallalaust. Þau áttu einnig helst að vera beinvaxin og með grannar greinar sem yxu sem næst hornrétt út frá stofni. Með því móti fæst kvistaminni viður. Þetta vaxtarlag reyndist að vísu fágætt hjá íslensku sitkagreni. Það finnst frekar hjá sitkabastarði, en ætlunin var að leggja áherslu á eins hreint sitkagreni og mögulegt væri. Síðast en ekki síst átti úrvalstréð að vera laust við öll ummerki um að hafa orðið fyrir barrfelli af völdum grenilúsar. Árin 2003, 2006 og 2007 voru lúsaár á höfuðborgarsvæðinu og þá var því heppilegt að velja tré með mótstöðu gegn lús.
Á útmánuðum árið 2007 voru græðlingar valdir af trjám á höfuðborgarsvæðinu, í Skorradal, Haukadal og á Hallormsstað og græddir á fósturtré í gróðurhúsi á Mógilsá. Um ágræðsluna sáu Hrafn Óskarsson og Þórður Jón Þórðarson, starfsmenn Skógræktar ríkisins, og tókst hún vel. Trén voru svo send í fóstur á Tumastöðum. Í júní 2012 var trjánum plantað í frægarð á staðnum. Alls eru trén rúmlega 100 en sum af þeim eru reyndar tvítekin, þ.e. af tveimur græðlingum af sama úrvalstré. Sum trjánna í frægarðinum hafa undarlegt vaxtarlag vegna þess að græðlingarnir voru af hliðargreinum. Því vilja trén halda hliðarvexti áfram. Það kemur hins vegar ekki að sök þegar tilgangurinn er að fá fræ.
Stöku tré eru nú þegar farin að bera fræ. Langur tími mun þó líða þangað til fræframleiðsla verður komin í fullan gang í frægarðinum á Tumastöðum. Þangað til þarf að safna fræi úr skógarreitum með þeim kvæmum sem best hafa reynst. Þá reiti er líka hægt að grisja og skilja þá aðeins eftir bestu trén. Af þeim ættu að koma jafnari og betri afkomendur en af fræi af óvöldum trjám.