Brynjar Skúlason við fallega vaxinn fjallaþin.
Þjóðhagslega hagkvæmt að leysa nordmannsþininn af hólmi
Ýmislegur ávinningur gæti fylgt kynbótum á fjallaþin til ræktunar jólatrjáa innanlands, segir Brynjar Skúlason, sérfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá og doktorsnemi í skógerfðafræði við Kaupmannahafnarháskóla. Með minni innflutningi myndi ekki aðeins sparast talsverður gjaldeyrir og ný störf skapast í skógrækt heldur er þetta líka heilbrigðismál fyrir skógrækt, segir Brynjar. Nokkur áhætta fylgi því að flytja inn hátt í 40 þúsund jólatré á ári með möguleikum á margvíslegum sjúkdómum og hugsanlega öðrum skaðvöldum sem skaða gróður.
Rætt er við Brynjar í Morgunblaðinu í dag og kemur fram að nú í maímánuði verði stigið nýtt skref í kynbótaverkefni hans með fjallaþin. Um miðjan mánuðinn hefst ágræðsla fjallaþins í fræhöllinni á Vöglum í Fnjóskadal þar sem meiningin er að rækta fræ af úrvalstrjám á komandi árum. Þar standa í pottum lítil þintré sem bíða þess að á þau verði græddir sprotar af völdum einstaklingum fjallaþins. Til verksins kemur danskur garðyrkjumaður sem hefur mikla reynslu af ágræðslu nordmannsþins. Sú þintegund hefur lengi verið vinsælasta jólatréð á íslenskum heimilum. Trén eru flutt inn frá Danmörku en hérlendis er tæplega nógu hlýtt til að nordmannsþinur þrífist vel. Fjallaþinur gæti hins vegar komið í stað hans.
Bestu kvæmin eru frá Colorado og Nýju-Mexíkó
„Í raun hófst þetta verkefni austur á Hallormsstað fyrir 15 árum,“ segir Brynjar í samtali við Morgunblaðið „Í samstarfi við Dani og Norðmenn var safnað fræjum af kvæmum eða staðarafbrigðum fjallaþins á nánast öllu útbreiðslusvæði hans í Norður-Ameríku. Bestu kvæmin komu úr 2-3 þúsund metra hæð í Colorado og Nýju-Mexíkó. Ekki er víst að þessi kvæmi henti á láglendi sunnan- og vestanlands enda mögulega of vetrarmilt þar fyrir fjallaþin almennt. Fimm ára gömul tré voru gróðursett tilraunaskyni í Danmörku, Noregi og hér á Íslandi. Vel hefur verið fylgst með framvindunni, hvað lifir og hvað deyr, hvernig kvæmin vaxa og þrífast og hvaða kvæmi sýna bestu eiginleika jólatrjáa, eins og lit, form, barrheldni og almenna hreysti.
Ágræðsla eins og í eplarækt
Núna er ég að vinna bæði úr dönsku tilrauninni og þeirri íslensku. Þegar er búið að finna bestu kvæmin eða staðarafbrigðin og velja bestu einstaklingana sem kynbótatré. Trén eru orðin stór og því er ekki hægt að taka þau og safna saman á einn stað. Þess í stað voru greinarnar klipptar og sprotum safnað meðan trén voru í dvala og þeir geymdir í kæli. Nú er komið að ágræðslu eins og gert er til dæmis í eplarækt. Hægt er að nota grunnstofna af hvaða þintegund sem er, en við notum eingöngu grunnstofna fjallaþins sem við eigum. Við bíðum bara eftir vorinu.“
Fimm ár í fyrsta fræið
Enn fremur hefur Morgunblaðið eftir Brynjari að fjallaþinur byrji að bera fræ við 20 ára aldur. Greinarnar sem nú verða notaðar til ágræðslu voru klipptar af trjám 20 ára gamalla einstaklinga. Með því að nota sprota af svo gömlum trjám er vonast til að ágræddu trén byrji fyrr að mynda fræ. Strax í sumar kemur í ljós hvort ágræðslan hefur tekist, en vonast er til að ágræddu trén fari að blómgast og bera fræ inni í gróðurhúsi innan fimm ára. Fimm ár gætu verið í fyrsta fræið og miðað við vaxtarhraða trjánna gætu verið um 15 ár í fyrstu kynbættu jólatrén á markað. Þangað til verða ræktuð jólatré af bestu kvæmum fjallaþins. Áætlað hefur verið að 50 þúsund lifandi tré prýði stofur landsmanna á jólum og af þeim séu um 20% ræktuð innanlands. Brynjar segir því blasa við hversu mikið hagsmunamál það sé í efnahags- og atvinnulegu tilliti að auka innlenda framleiðslu.
Erum of kærulaus
„Ef við ætlum að taka skrefið áfram þarf að leggja í þessa vinnu við kynbætur,“ segir Brynjar og ítrekar að um mikið heilbrigðismál fyrir skógrækt sé að ræða. „Við erum of kærulaus í þessum efnum, til dæmis er hætt að hirða jólatré í Reykjavík og það er undir hælinn lagt hvað verður um trén. Kannski liggja þau í garðinum hjá fólki til vorsins, án þess að við vitum hvað þau bera með sér og hvort þau geta smitað gróður í görðum,“ sagði Brynjar Skúlason að lokum í samtali við Ágúst Inga Jónsson, blaðamann Morgunblaðsins.
.