Hugmynd að skipulagi svæðisins í skóginum á Mógilsá þar sem ætlunin er að koma upp „arboreti“.
Kynningarfundur um trjásafn á Mógilsá með sjálfstæða starfsemi á svæði ræktunar, rannsókna, fræðslu og útivistar verður haldinn fimmtudaginn 28. júní í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Aðalfyrirlesarar á fundinum verða fulltrúar tveggja af merkustu trjásöfnum í heiminum.
Í undirbúningi er að stofna „arboret“, trjásafn með sjálfstæða starfsemi á sviði ræktunar, rannsókna, fræðslu og útivistar á um 20 ha svæði í hlíðum Esju. Að þessu verkefni standa Trjáræktarklúbburinn í samstarfi við Skógræktina og Skógræktarfélag Reykjavíkur.
Kynningarfundurinn hefst kl. 13.30 með setningarávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Aðalfyrirlesarar koma frá tveimur af merkustu arboretum í heimi, William (Ned) Friedman, forstöðumaður Arnold Arboretum í Boston, og Wilfried Emmerechts, skógarvörður konungseigna í Belgíu og einn af umsjónarmönnum landfræðilega arboretsins í Tervuren, skammt frá Brussel. Einnig kynnirAxel Kristinsson, formaður nefndar um arboret, hugmyndina um arboret í Esjuhlíðum, Einar Sveinbjörnsson fjallar um veðurfar á svæðinu, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri fjallar um trjásöfn Skógræktarinnar og Pamela Diggle, prófessor í vistfræði og þróunarlíffræði við Connecticut háskóla, fjallar um blómstrandi runna frá Alaska. Fundarstjóri verður Pétur Halldórsson.
Trjáræktarklúbburinn var stofnaður árið 2004 sem vettvangur áhugafólks um trjárækt og fjölgun trjátegunda á Íslandi en hann hefur haft uppbyggingu arborets á stefnu sinni frá upphafi. Mörg trjásöfn er að finna á Íslandi, eins og í Fossvogsdal, Hallormsstað eða Mógilsá, þar sem sjá má fjölda tegunda merktra trjáa en hingað til hefur vantað eiginlegt arboret eins og finna má í flestum löndum heims. Arboret eru meira eða minna sjálfstæðar stofnanir með eigin starfsemi, grasagarðar sem sérhæfa sig í trjákenndum plöntum. Arboretið í Esjuhlíðum á að verða meginsafn Íslands á þessu sviði.
Nánar um aðalfyrirlesara
Ned Friedman er forstöðumaður Arnold Arboretum í Boston en jafnframt prófessor í þróunarlíffræði við Harvard-háskóla og þekktur fyrir að hafa breytt hugmyndum manna um elstu þróun blómplantna. Hann hefur unnið ötullega að því að auka tengsl almennings við Arnold Arboretum og hefur nýlega hrint af stað verkefni til að fjölga mjög tegundum frá Asíu í safninu. Þar á meðal eru margar í útrýmingarhættu. Fyrirlestur hans nefnist „Plöntur í hönnuðum heimi“ (Plants in a Designed World: The Civic and Scholarly Importance of an Arboretum in the Twenty-First Century).
Hvað er arboret nákvæmlega? Grasagarður? Almenningsgarður? Verndarsvæði tegunda sem er ógnað? Safn lifandi hluta? Staður sem hjálpar til við að skilgreina sambandið milli fólks og annarra lífvera? Kjarni félagslegs og efnahagslegs réttlætis? Friedman mun ræða margvísleg staðbundin og alþjóðleg hlutverk arboreta með því að beina sjónum að Arnold-arboretinu við Harvard-háskóla sem er einstakt sambland af rannsóknarstofnun og vinsælum almenningsagarði og hluti af „smaragðshálsfestinni“ sem umlykur Boston. Fjölbreytni plantna stafar nú mikil ógn af umhverfisbreytingum af mannavöldum sem hefur knúið Arnold Arboretum til að hefja átak í vernd þeirra. Um leið er Arnold menningarstofnun sem er opin öllum endurgjaldslaust en er nú að endurhugsa félagslegt og efnahagslegt mikilvægi sitt í Boston. William Friedman ræðir alþjóðleg og staðbundin verkefni þessa safns sem hann telur frábærasta safns trjáplatna í heimi og veltir fyrir sér þeim endalausu möguleikum sem felast í því að búa til íslenskt arboret sem komandi kynslóðir geti notið og lært af.
Wilfried Emmerechts er skógarvörður konungseigna í Belgíu og einn af umsjónarmönnum landfræðilega arboretsins í Tervuren, skammt frá Brussel, sem frægt er af því að þar er líkt eftir umhverfi margra ólíkra svæða víðsvegar um heim. Emmerechts talar um endurnýjun skógartrjásafna í Vestur-Evrópu (Revival of Forest Arboreta in Western Europe).
Þegar skógartré frá Ameríku og Asíu urðu Evrópumönnum kunnvel kunn í Evrópu við lok 19. aldar vöktu þau áhuga skógræktarfólks sem vildu bæta við hið takmarkaða framboð innfæddra tegunda. Skógræktarstofnanir settu upp tilraunastöðvar um alla Evrópu og gróðursettu fjölda framandi tegunda til að finna þær sem gætu aðlagast og orðið nýtilegar á hverjum stað. Í þeim löndum Norður-Evrópu sem höfðu litla skógarþekju (eins og Írlandi, Skotlandi og Danmörku) urðu aðfluttar tegundir áberandi í skógrækt en lítt notaðar á meginlandinu. Margar tilraunir héldust þó við sem skógartrjásöfn sem nutu afar mismunandi athygli og áhuga almennings eða yfirvalda. Á síðari árum hefur áhugi á þessum trjásöfnum vaxið á ný ekki síst vegna þess að hinar aðfluttu tegundir sem í þeim finnast gætu leikið mikilvægt hlutverk í aðlögun að yfirvofandi loftslagsbreytingum. Í fyrirlestri sínum ræðir Emmerechts endurnýjun þessara skógartrjásafna og jafnframt fara í leiðangur um forvitnilega staði í Benelux-löndunum, Frakklandi og Þýskalandi.
Gagnlegir tenglar