Nemendur í 5.bekk Ártúnsskóla buðu þátttakendum á Lesið í skóginn námskeiði í félasstarfinu í Hraunbæ 105 í heimsókn í grenndarskóginn þar sem þau voru að vinna að margvíslegum verkefnum. Settar voru upp fjórar stöðvar. Á einni var verið að útbúa fuglafóðurkúlur úr feiti og fræjum, á annarri var skógarálfagerð með ullarþæfingu, á þriðju stöðinni var hitað súkkulaði og bakað greinabrauð yfir eldi og á þeirri fjórðu var stafaverkefni en það fór fram í fléttuðu greinaskýli. Eftir að gestirnir höfðu þegið veitingar var sett upp ljóðakeðja þar sem börnin fluttu gestunum frumsamið ljóð þannig að hver flutti sínar línur í ljóðinu.

Heimsóknin eru liður í frekara samstarfi eldri borgara í félagsstarfinu og skólans við vinnu í grenndarskóginum og á ýmsan annan hátt, t.d. er stefnt að sameiginlegri sýningu í vor á fjölbreyttu handverki sem unnið hefur verið að í vetur.

Þetta var ánægjuleg stund kynslóða á ólíkum aldri og greinilegt að báðir aldurshópar nutu samvistanna.

frett_19032010_1

frett_19032010_2


Texti og myndir: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins