Í drögum að náttúruverndaráætlun 2004-2008 er lagt til að Vatnshornsskógur í Skorradalshreppi verði friðlýstur vegna gróðurfars. Í rökstuðningi Umhverfisstofnunar segir meðal annars:

"Vatnshornsskógur er lítt snortinn gamall birkiskógur, þar sem birki er óvenju hávaxið samanborið við annað birki á Vesturlandi. Friðlýsing skógarins er til marks um mikilvægi þess að vernda og endurheimta náttúrulega birkiskóga og vilja yfirvalda náttúruverndarmála til að vinna að því verkefni. Það mun verða gert í samvinnu við Skógrækt ríkisins, sem hefur verndað og girt af marga skóga og kjarrlendi samkvæmt reglum um skógvernd."
 
Þröstur Eysteinsson fagmálastjóri Skógræktar ríksins segir ýmsar ástæður fyrir því að Skógræktin hafi lagt til að Vatnshornsskógur yrði friðlýstur. Þetta sé skógur í mjög náttúrulegu ástandi, nánast ósnortinn og því sem næst upprunalegur íslenskur birkisógur. Hann segir að Skógrækt ríkisins hafi engin önnur markmið með eign skógarins, en að vernda hann.

"Opinber verndun Vatnshornsskógar fer mjög vel saman við áform Skógræktar ríkisins.  Skógræktin fær einnig reynslu af því hvernig er að vinna með Umhverfisstofnun að friðlýsingu skógar og verði reynslan af þessu góð, fylgja e.t.v. fleiri skógar í kjörfarið," segir Þröstur.