Gróðursetning er þegar hafin á tveimur af þremur samningssvæðanna, í Þjórsárdal og á Stálpastöðum Sk…
Gróðursetning er þegar hafin á tveimur af þremur samningssvæðanna, í Þjórsárdal og á Stálpastöðum Skorradal þar sem þessi mynd er tekin. Ljósmynd frá verktaka

Skógræktin hefur gert samstarfssamning við Land Life Company um að rækta skóg á 500 hekturum lands á næstu tveimur árum. Gróðursetning er þegar hafin á tveimur samningssvæðum af þremur, á Stálpastöðum Skorradal og í Þjórsárdal.

Félagið Land Life Company er byggt á þeirri hugmyndafræði að tækni og markaðsleg nálgun geti drifið nýsköpun við endurhæfingu illa farins lands, einkum með endurreisn skóga. Á vefnum landlifecompany.com er bent á að í heiminum séu tveir milljarðar hektara af rofnu landi og þar vilji Land Life hjálpa til við endurhæfingu og eflingu lands. Fyrirtækið styður við skógræktarverkefni í 25 löndum í þremur heimsálfum. Höfuðstöðvar þess eru í Hollandi.

Þrjú svæði á Íslandi

Samningurinn við Skógræktina nær til þriggja svæða, Sandártungu í Þjórsárdal og svæða ofan núverandi skóga í Haukadal í Biskupstungum og á Stálpastöðum í Skorradal. Svæðin eru öll framhald skógræktar á viðkomandi stöðum, sem mun nú ganga hraðar en verið hefur vegna fjármögnunar Land Life. Öll svæðin voru örfoka þegar Skógræktin tók við þeim og hafa að mestu verið grædd upp með lúpínu á síðustu áratugum. Þau falla því vel að markmiðum Land Life og Skógræktarinnar um endurhæfingu lands. Gróðursetning til skógar er eðlilegt næsta skref þegar lúpínan hefur unnið sitt verk við að binda jarðveg og byggja upp frjósemi.

Auk jarðvegsverndar og endurreisnar skógarvistkerfis er binding CO2 úr andrúmsloftinu eitt meginmarkmiða skógræktar á þessum svæðum. Heildarbinding á svæðunum þremur er áætluð 475.000 tonn CO2 á næstu 50 árum. Svæðin eru öll innan þjóðskóganna og verða skógarnir opnir almenningi til útivistar.

Gróðursetning er þegar hafin og eru verktakar að verki við gróðursetningu bæði í Þjórsárdal og Skorradal. Vegna samkeppni frá lúpínunni og grasi er landið jarðunnið fyrir gróðursetningu. Sú aðgerð losar um jarðveginn og auðveldar gróðursetningu auk þess að losa trjáplöntur við samkeppni fyrstu árin. Í vaxandi skógi eru sárin fljót að gróa. Vaxtarauki skógarins sem vinnst með jarðvinnslunni meira en bætir fyrir þá litlu kolefnislosun sem af henni stafar.

Samstarfssamningar við einkaaðila um nýræktun skóga er mikilvæg viðbót í viðleitninni við að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum. Skógræktin er í viðræðum við fleiri aðila, innlenda sem erlenda, og vænta má þess að þær skili ekki síður árangri á næstu árum.

Texti: Þröstur Eysteinsson
Textavinnsla: Pétur Halldórsson