Nýskógrækt öflugasta bindingaraðferðin á sviði landnotkunar

„Landbótahagkerfi“ er nýtt hagkerfi sem nú er í mótun í beinu samhengi við þær að­gerð­ir sem grípa þarf til svo koma megi í veg fyrir að loftslagsbreytingar af manna völdum fari úr böndunum. Nýjar rannsóknir sýna að spennandi fjárfestingartækifæri fel­ast í verkefnum á sviði landbóta. Á sviði land­notkunar sé skógrækt öflugasta leiðin til kolefnisbindingar.

Í skýrslu sem út kom fyrr í mánuðinum á vegum alþjóðlegu landverndar­samtak­anna The Nature Conservancy og al­þjóð­legu rannsóknar­stofnunar­inn­ar World Resources Institute eru kynntar niðurstöður rannsókna sem sýna að landbætur eða endur­hæf­ing spilltra gróður­vist­kerfa gagn­ast ekki ein­göngu jarð­kúlunni sem við byggjum heldur felur hún í sér góð fjárfestingar­tækifæri. Athuguð voru 140 fyrir­tæki í átta löndum og fjórum heimsálfum sem öll vinna með einhverjum hætti að endur­hæfingu lands. Í ljós kom að ný­skóg­rækt gefur efnahags­legan ávinning sem metinn er á 84 milljarða Banda­ríkja­dollara á ári og þá eru ekki talin með ýmis önnur efnahagsleg gæði sem fylgja nýjum skógi.


Nýskógrækt öflugasta leiðin

Rætt er um að hið nýja svokallaða „land­bótahagkerfi“ gefi færi á mjög fjölbreyti­legum viðskiptahugmyndum og -áætlunum sem ekki geti einungis af sér efnahags­leg­an eða fjárhagslegan ábata heldur hafi líka ýmis viðbótaráhrif á borð við hreinna vatn, sjálf­bæran landbúnað og hraust vist­kerfi. Af öllum aðferðum til kolefnis­bind­ing­ar sem snerta landnotkun sé nýskógrækt líka sú öflugasta eins og fyrr er getið.

Samt sem áður, segir í greininni, er 300 milljarða dollara gat í fjármögnun þeirrar nýskógræktar sem ráðast þarf í ef ætlunin er að nýta til fulls þá möguleika sem fyrir hendi eru. Í skýrslunni eru sérstaklega dregnir fram fjórir flokkar fjárfestingar­tæki­færa sem þykja álitlegir, tækni, neyslu­vör­ur, verkefnastjórnun og nytjaskógrækt. Kafað er ofan í hvernig fyrirtæki og fjárfestar geta gert sitt til að fylla í þetta gat en komið út með gróða engu að síður. Land­bóta­verk­efni geti bæði skilað hagnaði og gert gagn fyrir samfélag og um­hverfi.

Leið til að ná þriðjungi nauðsynlegs samdráttar losunar

„Ef við ætlum að taka loftslagsbreytingarnar alvarlega verðum við að hugsa af alvöru um fjárfestingar í náttúrunni,“ segir Justin Adams, sem stýrir málefnum landgæða hjá The Nature Conservancy. „Með réttri landnýtingu í framtíðinni gætum við á hagkvæman hátt náð meira en þriðjungi af þeim samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sem þarf til að halda hlýnun jarðar innan hættumarka.“

Til þess að sýna breiddina og dýptina í landbótahagkerfinu tiltaka skýrsluhöfundar fjórtán fyrirtæki á markaði sem öll hafa gert landbætur eða endurhæfingu lands að mikilvægum þætti í þeirri vöru eða þjónustu sem þau selja. Þetta eru smáfyrirtæki með færri en tíu starfsmenn, frumkvöðlafyrirtæki, rótgróin landnýtingarsamtök en líka fyrirtæki með yfir fim milljarða veltu. Hvert þeirra þurfti að uppfylla fimm sérstök viðmið:

  1. Arðsemi: Skilar starfsemin arði (eða er líklegt til þess í framtíðinni)?
  2. Vaxtarmöguleikar: Gæti starfsemin eflst að mun frá því sem nú er?
  3. Fyrirmynd: Gæti þessi hugmynd orðið fyrirmynd öðrum fyrirtækjum annars staðar?
  4. Umhverfisáhrif: Leiðir starfsemin til þess að hnignandi land verði bætt?
  5. Samfélagsáhrif: Hefur starfsemin jákvæð áhrif á fólk?

Áhugi fjárfesta

Meðal niðurstaðna skýrslunnar er að fjárfestar hafi áhuga á því að fjárfesta í landbótum en séu uggandi um efna­hags­legt umhverfi slíkra fjárfestinga. Markaðslegar fjárfestingar í landbótum hafa verið takmarkaðar fram að þessu enda hefur skort á að hugmyndin hafi sannað gildi sitt með því móti að til hafi orðið fjöldi nýrra viðskiptaáætlana. Verk­efnin hafa verið smá til þessa og krefjast þess yfirleitt að áætlanir séu gerðar til langs tíma, fimm ára eða meira.

Rannsóknin sýnir þó að viðskiptaáætlanir af þessum toga hafa þróast umtalsvert og hraður vöxtur bendir til þess að upphæðir fjárfestinga í slíkum verkefnum gætu farið hækkandi. Frásagnir af raunverulegum fyrirtækjum sem sem afl­að geta tekna af landbótum ættu að vekja athygli fjárfesta og athafnafólks á þeim viðskiptalíkönum sem þegar hafa verið gerð, hvernig þau verkefni sem komin eru af stað ganga fyrir sig og hvernig megi forðast ýmsa byrjunar­erfið­leika. Skýrsluhöfundarnir mæla eindregið með því við fjárfesta að þeir kanni líka sjálfir áreiðanleika þessara tækifæra.


Veruleg tækifæri til fjárfestinga í landbótum

Skuldbindingar á stjórnmálasviðinu á borð við Parísarsamkomulagið, Bonn-áskorun­ina og New York yfirlýsinguna um skóga fela í sér veruleg tækifæri til fjárfestinga í landbótum því að einkafyrirtæki um allan heim munu þurfa að taka þátt í þeim verk­efnum sem nauðsynleg eru til þess að mark­miðin náist. Skýrsluhöfundar vonast til þess að þessi skýrsla opni augu fjárfesta fyrir þeim vaxtarmöguleikum sem felast í landbótahagkerfinu. Af skýrslunni að dæma má vel álykta sem svo að peningar vaxi sannarlega á trjánum.

Samtökin The Nature Conservancy starfa um allan heim og helga sig verndun þess lands og vatns sem allt líf þrífst á hér á jörðinni. Með vísindin að leiðarljósi er leitast við að finna framsæknar og raun­hæfar lausnir á erfiðustu viðfangsefnum heimsins svo menn og náttúra geti þrifist áfram í sameiningu. Viðfangsefnin eru loftslagsbreytingar, víðtækari verndun landsvæða, vatnasviða á landi og hafsvæða en áður hefur þekkst, sjálfbær öflun matar og vatns og sjálfbærari borgir. Starfsemin nær til 72 landa og byggist á samvinnu heimafólks á hverjum stað, yfirvalda, einkageirans og annarra.

Skýrsluna Business of Planting Trees Report ásamt samantekt og fleiri rafrænum gögnum og upplýsingum má finna á vefnum.

Snúið úr ensku: Pétur Halldórsson