Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráð…
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra við frætínslu á Bessastöðum í dag. Ljósmynd: Áskell Þórisson

Í haust er biðlað til þjóðarinnar að safna fræi af birki um allt land og dreifa því á völdum, beitarfriðuðum svæðum. Einnig má skila inn fræi sem Lionsklúbbar, skógræktarfélög, Kópavogsbær og fleiri sjá um að dreifa. Forseti Íslands og umhverfisráðherra tíndu fyrsta fræið í dag.

Skógræktin og Landgræðslan hafa forystu um þetta verkefni sem hófst formlega í dag á degi íslenskrar náttúru. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tíndu fyrsta fræið í sérstaka öskju átaksins. Viðstaddir voru fulltrúar stofnananna tveggja ásamt samstarfsaðilum sem eru Lionshreyfingin, Prentmet Oddi, Bónus, Terra, Skógræktarfélag Íslands og Landvernd. Þá koma fleiri að verkefninu með ýmsum hætti. Til dæmis tekur Kópavogsbær við fræi sem safnast á höfuðborgarsvæðinu og sér til þess að því verði dreift á gróðurlitlum svæðum innan sveitarfélagsins.

Söfnunin stendur svo lengi sem fræ er að finna á birki í haust. Hægt er að fá sérstök söfnunarbox verkefnisins til að tína fræ í ef fólk vill skila því og láta öðrum um að dreifa. Fólk er líka hvatt til að fylgja fræinu alla leið og dreifa því sjálft á beitarfriðuðum svæðum þar sem leyfilegt er að dreifa. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefnum birkiskogur.is og á síðunni @birkifrae á Facebook.

Alltaf þarf að skrá hvar og hvenær fræið var tínt. Hægt er að skrifa þetta á box átaksins eða á miða sem festur er á fræpoka, ef söfnunarbox er ekki notað. Athugið að aldrei má láta birki­fræ í plastpoka eða aðrar loftþéttar umbúðir.

Fræi sem er skilað á söfnunarstöðvar verður dreift í haust undir leiðsögn starfsmanna Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Þegar landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn.

Birkið er frumherjategund sem sáir sér mikið út á eigin spýtur ef hún fær til þess frið. Birkið heldur því starfinu áfram ef vel tekst til að koma því af stað á nýjum svæðum.

Landgræðslan og Skógræktin vilja með þessu átaki auka vitund og áhuga fólks á eflingu náttúrunnar og útbreiðslu birkis, víðis og annars gróðurs á landinu, enda er þátttaka almennings lykillinn að árangri í umhverfismálum.

@birkifrae #skógræktin #landgræðslan

Texti: Pétur Halldórsson