Norðmenn taka upp sænskan hugbúnað til skógræktaráætlana
Sænska hugbúnaðarkerfið Heureka sem ætlað er til vinnu við skipulag og áætlanagerðar í skógrækt og skógarnytjum er afrakstur þróunarstarfs sænskra vísindamanna og hefur vakið athygli víða um heim. Kerfið hefur reynst vel í Svíþjóð og nú hafa Norðmenn ákveðið að taka það upp í skógræktaráætlunum sínum. Frá þessu er sagt í nýju fréttabréfi SNS, Samnorrænna skógarrannsókna.
Nú er unnið að greiningarverkefni á vegum skógræktaryrfirvalda í Svíþjóð sem kallast SKA15. Þar eru metnar ýmsar breytur og hvernig þær geti haft áhrif á skógrækt í Svíþjóð allt að öld fram í tímann. Einnig eru vegin og metin möguleg áhrif mismunandi aðgerða í skógrækt og skógnýtingu. Heureka-kerfið er notað við þessa vinnu og nú hafa Norðmenn líka efnt til samstarfsverkefnis með sænska landbúnaðarháskólanum SLU um sjálfbæra nýtingu skógarauðlindarinnar í Noregi. Innleiðing Heureka-kerfisins er liður í því verkefni. Tomas Lämås, verkefnisstjóri hjá Heureka, vonast til að samstarfið við Norðmenn sé skref í átt að samstarfi við fleiri þjóðir um notkun kerfisins.
Heureka-kerfið er safn hugbúnaðartóla sem nýtist við alla þætti skógræktaráætlana, allt frá gagnasöfnun og greiningu á hvers kyns gögnum um skóga upp í líkana- og áætlanagerð ásamt gagnlegum tækjum til að setja upp mismunandi valmöguleika og meta kosti þeirra og galla. Kerfið er mjög sveigjanlegt og veitir ótal möguleika svo sem að kalla fram nákvæma greiningu á áhrifum ýmissa skógræktaraðgerða. Helstu tólin sem tilheyra Heureka-kerfinu kallast StandWise, PlanWise, PlanEval, RegWise ásamt ArcGis-hugbúnaðinum Heureka Habitat Model.
Forsvarsmenn Heureka halda því fram að kerfið sé einstakt í heiminum. Þetta sé eina kerfið þar sem keyra megi saman efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg gildi í einu og sama tólinu. Upplýsingakerfi í tölvum til nota við áætlanagerð eru þó alls ekki ný af nálinni. Sænskir vísindamenn notuðu um árabil kerfi sem kallaðist Hugin og þróað var laust fyrir 1990. Heureka-kerfið hefur nú tekið við og býður upp á miklu fleiri möguleika, dýpri og ítarlegri greiningarvinnu og fjölþættara mat á áhrifum nýrra aðferða í skógrækt og skógarnytjum.
Af nýjum aðferðum má nefna skógrækt þar sem viðhaldið er stöðugri skógarþekju þó að tré séu felld og viður tekinn úr skóginum. Talsverður vandi er að útbúa áætlanir og líkön sem geti sýnt með raunsönnum hætti trjávöxt í skógi þar sem eru tré af nokkrum mismunandi kynslóðum í sama reitnum. Talsmenn Heureka segja að nú sé kerfi þeirra það besta á markaðnum til slíkrar áætlanagerðar. Kerfið hefur einnig nýst vel við ýmsa rannsóknarvinnu sem er utan við hefðbundið svið skógræktar og skógarnytja svo sem verkefni sem snerta vernd líffjölbreytni og vernd vatnasviða svo dæmi séu nefnd.
Alþjóðlega stofnunin IIASA sem hefur höfuðstöðvar sínar í Austurríki hyggst nota líkön úr Heureka-kerfinu við verkefni sem snertir efnahag og landnotkun. Þau líkön keyrir stofnunin með eigin líkönum fyrir allan heiminn til að reikna út viðarmagn í heiminum á komandi tíð og aðra vistkerfisþjónustu sem ræðst af því hvernig land er nýtt, hvernig loftslagið á jörðinni þróast, hversu mikið mannkyni fjölgar og hvaða stefnu þjóðir taka. Þáttur Svía í þessu verkefni felst aðallega í rannsóknarverkefninu Future Forests.
Fjölmörg sænsk fyrirtæki og stofnanir hafa tekið Heureka-kerfið í notkun, til dæmis fyrirtækið SCA - Svenska Cellulosa Aktiebolaget sem notar Heureka við greiningarvinnu á öllum sínum skógum. Gögnum var safnað á hverjum stað í tvö ár og upplýsingarnar hafa verið nýttar til að reikna út mögulegt viðarmagn og til að flokka skógarreitina. Með hjálp Heureka verða unnar spár um ástand reitanna á komandi árum og upplýsingarnar keyrðar saman við LIDAR-fjarkönnunargögn.
Heureka-forritin geta líka hjálpað til við að ná sem bestum árangri við skógrækt og skógarnytjar þannig að greinin hafi sem best samfélagsleg áhrif eða sem minnst áhrif á líffjölbreytni. Sænsku samtökin Skogsällskapet hafa notað kerfið til að skipulegja skógarlandbúnað fyrir sveitarfélag sem leggur áherslu á samfélagsleg gildi skógarins ekki síður en efnahagsleg.
Allt viðmót Heureka-kerfisins er til á ensku sem og leiðbeiningar á vefnum. Því er ekkert til fyrirstöðu að skógarfólk um allan heim taki kerfið upp.
Frekari upplýsingar:
SNS er samstarfsstofnun sem fjármögnuð er af Norrænu ráðherranefndinni. Meginmarkmið stofnunarinnar er að efla rannsóknir á skógum og sjálfbærri skógrækt og nýtingu, auk þess að vera ráðgefandi fyrir Norrænu ráðherranefndina um skógrækt og skógarrannsóknir. Í fréttabréfinu er sagt frá nýrri skógræktaráætlun í Svíþjóð, skógarvélum sem nýta skriðdrekatækni til að draga úr skemmdum á landi, framlagi McDonald's skyndibitakeðjunnar til baráttunnar gegn skógareyðingu í heiminum, skógverndarverkefni Apple-fyrirtækisins og fleiru. Fréttabréfinu má hlaða niður hér: