Þjónusta sem meta má til fjár
Tré binda koltvísýring en hreinsa líka ýmis fleiri efni úr andrúmsloftinu og gera þannig loftið í bæjum og borgum heilnæmara. Þar sem tré eru við umferðargötur geta þau dregið úr svifryki í lofti um allt að sextíu prósent. Um þetta er fjallað á vefsíðu bandarísks vettvangs um þéttbýlisskógrækt, Urban Forestry Network.
Þéttbýlisskógar auka loftgæði í borgum og bæjum. Eins og við vitum hækkar meðalhiti nú á jörðinni. Koltvísýringur (CO2) í lofthjúpi jarðar eykst vegna athafna okkar mannanna. Ásamt öðrum svokölluðum gróðurhúsalofttegundum býr koltvísýringurinn til nokkurs konar spegil sem dregur úr hitageislun frá jörðinni og út í geiminn. Þetta köllum við gróðurhúsaáhrif. Tré vinna á móti þessu með því að kljúfa koltvísýring í kolefni og súrefni með ljóstillífun. Kolefnið binda trén í stofni sínum og greinum, rótum og laufi. Súrefnið er aukaafurð þessarar kolefnisbindingar trjánna og losnar út í andrúmsloftið. Þar með verður hlutfall súrefnis í lofthjúpnum hærra en koltvísýrings lægra. Um það bil helmingur gróðurhúsaáhrifanna skrifast á aukið magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðar. Þegar talað er um bindingu kolefnis má ekki gleyma trjánum. Skógrækt er ódýrasta, auðveldasta og áhrifaríkasta leiðin til að binda kolefni.
Mikil kolefnisbinding
Á vefsíðu Urban Forestry Network segir að nýr skógur geti bundið um eitt tonn af kolefni á hverju ári á hverjum hektara. Ungt tré taki í sig um sex kíló af kolefni á ári. Kolefnisbinding trjáa nái hámarki þegar þau verði um tíu ára gömul og þá sé áætlað að þau taki úr andrúmsloftinu um tuttugu kíló yfir árið. Á þessu stigi gefur hvert tré frá sér nægilega mikið súrefni fyrir tvær manneskjur að anda að sér. Ef 100 milljónir trjáplantna eru gróðursettar sé hægt að taka magn kolefnis í andrúmsloftinu sem nemur um 18 milljónum tonna árlega. Þetta telja þau hjá Urban Forestry Network að myndi lækka útgjöld bandarískra heimila um fjóra milljarða dollara á ári.
En tré draga úr gróðurhúsaáhrifum á fleiri vegu. Þótt það gildi ekki svo mjög hér á Íslandi veita tré dýrmætan skugga á heitum sumardögum. Þau varpa skugga á íbúðarhús og skrifstofubyggingar þannig að minna þarf að notast við loftkælingu. Þar með þarf minna að framleiða af rafmagni með kolum eða jarðgasi. Í kaldari löndum er það hins vegar skjólið af trjánum sem minnkar þörf fyrir kyndingu. Þegar lögð er saman kolefnisbinding úr andrúmsloftinu, kolefnisgeymsla í trjáviði og kælingar- eða skjóláhrif trjánna sjáum við að tré eru gríðarlega öflug tæki í baráttunni við loftslagsbreytingar. Skógrækt er sem fyrr segir einhver ódýrasta aðferðin til að binda umframmagn koltvísýrings úr andrúmsloftinu. Ef hver einasta bandarísk fjölskylda gróðursetti eitt tré myndi magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðar minnka um hátt í hálfa milljón tonna á hverju ári. Þetta jafngildir næstum fimm prósentum af öllu því kolefni sem losnar út í andrúmsloftið vegna athafna mannanna á jörðinni, segir á vef Urban Forestry Network.
Fjárhagslegur ávinningur af þéttbýlisskógum
Bandarísk skógræktaryfirvöld hafa áætlað að allir skógar í Bandaríkjunum samanlagðir hafi bundið um 309 milljónir tonna árlega á árabilinu 1952-1992. Það þýðir að þessir skógar hafa tekið í sig um fjórðung af allri kolefnislosun af mannavöldum á þessu sama tímabili. Á fimmtíu ára ævi gefur eitt tré frá sér súrefni sem metið er til verðmæta á næstum 32.000 Bandaríkjadollara, rúmlega 2,5 milljónir íslenskra króna. En þar með er ekki öll sagan sögð. Sama tré hreinsar loftmengun úr andrúmsloftinu og það er á fimmtíu árum metið á 62.000 dollara sem eru næstum sjö milljónir króna. Trén endurvinna líka vatn sem metið er á 37.500 dollara á hálfri öld, 4,2 milljónir króna, og koma í veg fyrir jarðvegseyðingu sem metið er á 31.000 dollara, rúmar tvær milljónir króna. Fjárhagslegur ábati samfélags af einu tré á fimmtíu árum er því vel á annan tug milljóna króna.
Stofnunin Worldwatch Institute í Washington D.C., er stofnun um sjálfbæra þróun og vinnur að því að tengja stjórnvöld í löndum heims við umhverfisleg málefni og viðhorf. Þar á bæ hefur komið út skýrsla sem heitir Reforesting the Earth þar sem slegið er á hversu mikið þyrfti að rækta af trjám til þess eins að viðhalda framleiðni jarðvegsauðlindarinnar og tryggja nauðsynlega endurnýjun vatnsauðlindarinnar. Áætlað er í skýrslunni að gróðursetja þurfi tré í að minnsta kosti 130 milljónir hektara á jörðinni einungis til að endurheimta og viðhalda jarðvegs- og vatnsauðlindinni. Þessi skógur myndi auk þess binda 780 milljónir tonna af kolefni úr andrúmsloftinu og fullnægja þörf þróunarríkjanna fyrir trjávið til iðnaðar og brennslu. Á móti hverju tonni af nýjum viði sem myndast í skógi er um eitt og hálft tonn af kolefni fjarlægt úr lofthjúpnum og 1,07 tonn af súrefni losna út í andrúmsloftið.
Önnur mengunarefni
En þar með er ekki upptalið allt það góða sem trén gera fyrir okkur. Þau fjarlægja líka fleiri loftkennd mengunarefni úr andrúmsloftinu þegar þau draga loftið inn um loftaugun neðan á laufblöðunum. Hér skulu upptalin nokkur helstu mengunarefnin og uppsprettur þeirra til viðbótar við koltvísýringinn sem áður er nefndur:
• Brennisteinstvíoxíð (SO2) – Í Bandaríkjunum stafa sextíu prósent af brennisteinstvíoxíði frá raforkuverum sem brenna kolum. Rúm tuttugu prósent koma frá olíuhreinsunarstöðvum og frá því þegar olíuafurðum eins og bensíni eða díselolíu er brennt.
• Óson (O3) – Óson er öflugt oxunarefni sem myndast í náttúrunni og situr í efri lögum lofthjúpsins. Það getur borist niður að yfirborði jarðar með stórviðrum en eldingar mynda líka dálítið af efninu niður við jörð. Útblástur frá bílum og iðjuverum blandast líka andrúmsloftinu og í sólskini verða ljósfræðileg efnahvörf sem mynda óson og líka annað oxunarefni sem kallast peroxýasetýlnítrat (PAN). Mikið getur myndast tímabundið af þessum tveimur öflugu oxunarefnum þar sem margir bílar eru í gangi.
• Nituroxíð (NOx) – Bílar eru líklega stærsta uppspretta nituroxíða hjá okkur. Þau myndast við bruna á háum hita þegar nóg er af tveimur ákveðnum frumefnum, nitri og súrefni.
• Svifryk – Agnir sem eru svo smáar að þær svífa um í andrúmsloftinu kallast svifryk. Þetta eru agnir undir 10 míkrómetrum í þvermál og geta verið af ýmsum uppruna. Í þéttbýlislofti eru þetta gjarnan útblástursagnir frá bílum, sérstaklega díselbílum. Agnirnar komast ofan í lungun á okkur og geta valdið öndunarfærakvillum. Þar sem tré eru við umferðargötur hefur komið í ljós að magn svifryks getur verið allt að 60 prósentum minna í andrúmsloftinu niður við jörð en við umferðargötur þar sem engin tré eru. Rykið sest á trén og skolast niður í jarðveginn í rigningu.
Að lokum segir á vef Urban Forestry Network frá niðurstöðum rannsókna sem sýndu að í ónefndum almenningsgarði sem skoðaður var hefðu trén fjarlægt daglega úr andrúmsloftinu um 22 kíló af svifryki, tæp 5 kíló af niturtvíoxíði, hátt í þrjú kíló af brennisteinstvíoxíði, um 300 grömm af koleinoxíði og 45 kíló af kolefni. Ekkert kemur fram um stærð garðsins en þetta gefur okkur hugmynd um virkni trjánna í dæmigerðum almenningsgarði í þéttbýli. Sömuleiðis er tiltekið að samkvæmt athugunum á sykurhlyntrjám með fram þjóðvegum geti eitt slíkt tré síað úr loftinu 60 millígrömm af kadmíni, 140 millígrömm af krómi, 820 millígrömm af nikkeli og 5.200 millígrömm af blýi á einu sumri.
Mikilvægt hlutverk trjáa í þéttbýli
Hlutverk stórra trjáa við umferðargötur, eins og sitkagrenitrjánna við Miklubraut í Reykjavík sem verið hafa til umræðu síðustu daga, er því mjög stórt og mikilvægt. Leggja ætti áherslu á að rækta tré við umferðargötur og gera ráð fyrir trjám við hönnun nýrra umferðarmannvirkja og skipulag nýrra hverfa í þéttbýli. Barrtré gera sérstaklega mikið gagn við umferðargötur af því að þau halda laufum sínum allt árið, barrinu, og samanlagt yfirborð á stóru barrtré er gríðarmikið. Magnið af svifryki sem sest getur á barrið er því mjög mikið og öndunaropin mörg sem tréð getur dregið inn um mengunarefni úr andrúmsloftinu.