Theodór Guðmundsson við 3,3 m háan Hrym á Tumastöðum þann 27. janúar 2010. 
Mynd: Þröstur Eysteinsso…
Theodór Guðmundsson við 3,3 m háan Hrym á Tumastöðum þann 27. janúar 2010.
Mynd: Þröstur Eysteinsson

Árið 2000 var gerð kvæmatilraun með risalerki ættuðu frá Bresku Kólumbíu á Tumastöðum í Fljótshlíð. Ekki þarf að orðlengja um það að rúmur helmingur plantnanna drapst strax fyrsta veturinn og nú, tíu árum seinna, lifa aðeins 7% þeirra. Vöxtur var að sama skapi afar lélegur og mikið bar á kali. Tvö kvæmi rússalerkis og tvennskonar lerkiblendingar voru hafðir með í tilrauninni til samanburðar við risalerkið. Nú er það eitt þessara samanburðarkvæma sem veitir hvað athyglisverðustu niðurstöður.

Lifun og vöxtur beggja rússalerkikvæma var ekki teljandi skárri en hjá risalerkinu, enda margsannað að rússalerki á erfitt uppdráttar syðst á landinu. Blendingur japanslerkis og rússalerkis ættaður frá Svíþjóð stóð sig betur í lifun og vexti en er kræklóttur og oft margtoppa. Það eina sem stendur sig vel í þessari tilraun er blendingur evrópulerkis og rússalerkis úr fræræktinni á Vöglum, sem kallaður hefur verið Hrymur. Lifun hans í þessari tilraun var að vísu aðeins 70% en meðalhæð var 2,2 m og hæstu trén voru 3,3 m á hæð. Merkilegast var þó hvað Hrymur var yfirleitt beinvaxinn og lítið skemmdur.

Búið er að leggja drög að meiri fræframleiðslu á Hrym í fræhöllinni á Vöglum og er von á einhverri framleiðslu á þessu ári. Hann verður því vonandi fáanlegur frá gróðrarstöðvum innan fárra ára. 


Á myndinni sést Theodór Guðmundsson standa við 3,3 m háan Hrym á Tumastöðum þann 27. janúar 2010.


Mynd og texti: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna.