Rætt við Katrínu í Sólskógum í Bændablaðinu
Snjólétt hefur verið á öllu landinu í vetur og milt veður. Þetta hefur bæði kosti og ókosti fyrir framleiðendur skógarplantna. Í Bændablaðinu sem kom út í gær ræðir Margrét Þóra Þórsdóttir blaðamaður við Katrínu Ásgrímsdóttur í Sólskógum Kjarnaskógi sem segir að lerkið hafi verið byrjað að lifna í hlýindunum undanfarið. Því fagni hún heldur kaldara veðri síðustu daga með svolítilli snjóhulu þótt snjóleysið í vetur hafi létt ýmis störf mikið.
Viðtalið við Katrínu í blaðinu er á þessa leið:
„Ég neita því ekki að við vorum farin að óska þess að það færi að kólna, það kæmi örlítill snjór,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir, sem ásamt eiginmanni sínum, Gísla Guðmundssyni, rekur fyrirtækið Sólskóga í Kjarnaskógi.
Veturinn hefur verið einkar snjóléttur sem hefur í för með sér að öll vinna hefur verið auðveldari en þegar snjóþyngsli eru mikil. Skuggahliðarnar aftur á móti eru að líf var farið að færast í gróðurinn alltof snemma og það er ávísun á vandræði á þessum árstíma.
Hjá Sólskógum eru framleiddar um 1,5 milljónir skógarplantna á ári, einkum fyrir landshlutaverkefni í skógrækt og Landgræðsluskóga. Magnið hefur verið svipað undanfarin ár. Þá er einnig mikil sumarblómaframleiðsla hjá Sólskógum og er hún að hefjast um þessar mundir. „Við erum aðeins seinna á ferðinni með sumarblómin en þeir á sunnanverðu landinu, sumarið er um það bil hálfum mánuði seinna á ferðinni hér norðan heiða að jafnaði,“ segir Katrín. Angar eru farnir að teygja sig upp úr moldinni og blómin verða klár þegar nær dregur vori. „Þetta er allt að koma, við bjóðum að venju upp á fjölbreytt úrval sumarblóma og opnum söluna svolítið eftir veðri, þegar vorið er hlýtt og gott opnum við snemma.“
Snjókoman kærkomin
Katrín nefnir að mikið sé undir og minnist þess að umtalsvert tjón hafi orðið vorið 2012, en þá háttaði svo til að apríl var einstaklega hlýr og góður og sama gilti um fyrri hluta maímánaðar. Þá skall á heilmikið vorhret, allt fór á kaf í snjó. „Hjá okkur var allur gróður kominn á fulla ferð og töluvert tjón varð því af völdum þessa vorhrets,“ segir hún. Nú er staðan sú að veðurfar hefur einkennst af hlýindum svo að segja í allan vetur, lítið hefur verið um snjó og kuldakafla. Lerkið er farið að lifna segir Katrín og safasteymi farið af stað. Snjókoma um liðna helgi hafi því verið kærkomin og muni án efa draga úr áframhaldandi vexti trjánna. „Ég á frekar von á að þetta sleppi til, en við erum samt eins og endranær við öllu búin, það getur alltaf allt gerst,“ segir hún.
Veðursældin léttir lífið
„Auðvitað er því ekki að neita að þessi veðursæld í vetur hefur heldur betur létt manni lífið. Við höfum getað sinnt ýmsum verkum sem ella er ekki hægt að vinna þegar mikill snjór er. Það verður allt einhvern veginn auðveldara, það þurfti nánast ekkert að sinna snjómokstri, sem sparar bæði pening og fyrirhöfn, flutningur á plöntum milli húsa verður líka leikur einn. Í vetur höfum við getað pottað og sett plöntur út, en það hefur aldrei verið hægt hér áður og eins höfum við safnað vetrargræðlingum sem er nýlunda hér um slóðir,“ segir Katrín.
Viðtalið við Katrínu er í á blaðsíðu 26 í Bændablaðinu, 4. tölublaði 2017.