Líf í lundi er samstarfsverkefni skógargeirans um að haldnir verði skógardagar sem víðast í skógum l…
Líf í lundi er samstarfsverkefni skógargeirans um að haldnir verði skógardagar sem víðast í skógum landsins síðasta laugardag júnímánaðar og þeir verði kynntir sameiginlega.

Skógardagar verða haldnir á átján stöðum um allt land laugardaginn 23. júní. Viðburðirnir eru kynntir sameiginlega á Skógargáttinni undir yfirskriftinni Líf í lundi.

Líf í lundi er samvinnuverkefni undir forystu Skógræktarfélags Íslands, Skógræktarinnar og Landssamtaka skógarbænda. Meginmarkmið þess er að hvetja til þess að skógardagar verði sem víðast um landið síðasta laugardaginn í júnímánuði og standa sameiginlega að kynningu þessara viðburða. Arionbanki veitti myndarlegan styrk til kynningarstarfsins.

Vesturland

Á Vesturlandi efnir Skógræktarfélag Skilmannahrepps til göngu kl. 20 undir leiðsögn staðkunnugra um hinn fallega útivistarskóg, Álfholtsskóg sem er norðaustan við Akrafjall í Hvalfjarðarsveit. Skógræktarfélag Borgarfjarðar, Skógræktin og Félag skógarbænda á Vesturlandi bjóða til skógardags í Selskógi Skorradal kl. 13 þar sem kennd verður tálgun, farið í skógargöngu og leiki.  Á sama tíma er Skógræktarfélag Akraness með skógardag í Slögu ofan byggðarinnar á Akranesi þar sem verður tálgað, keppt í axarkasti og fleira.

Skógardagurinn mikli á Hallormsstað hefur löngu fest sig í sessi síðasta laugardaginn í júnímánuði. Nú verða skógardagar á sautján stöðum á landinu þennan dag og auðvitað er Skógardagurinn mikli á Hallormsstað einn þessara viðburða. Hér er mynd frá Skógardeginum mikla 2014. Ljósmynd: Esther Ösp GunnarsdóttirSuðvesturland

Sjö viðburðir verða á Suðvesturlandi þennan dag. Skógarblót Skógræktarfélags Reykjavíkur og Ásatrúarfélagsins hefst klukkan 21 í Öskjuhlíð og verður hægt að líta inn í nýja hofið sem þar er í smíðum. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar verður með fjölskyldudag í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn kl. 14 ásamt Íshestum. Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Garðabæjar efna til gróðursetningar fullveldislundar kl. 14 í Sandahlíð sem allir geta tekið þátt í. í Vogum verður Skógræktarfélagið Skógfell með göngu kl. 13 að útivistarperlu Vogamanna að Háabjalla og Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður með fjölbreytta dagskrá milli kl. 11 og 13 í Melatúnsreitnum í Mosfellsbæ. Í Kálfamóa að Keldum við Grafarvog verður skoðaður gróður og gróðurframvinda klukkan 13 undir leiðsögn Jóhanns Pálssonar grasafræðings. Klukkan 16 verður lagður grunnur að aldingarði í Guðmundarlundi í Kópavogi á vegum Skógræktarfélags Kópavogs.

Vestfirðir

Á Vestfjörðum er í boði fjölskyldustund kl. 13  með skógargöngu í Seljaskógi í botni Bílduldals á vegum Skógræktarfélags Bíldudals. Börnin geta búið til myndir og listaverk til að hengja upp í skóginum.

Norðurland

Þrír viðburðir verða á Norðurlandi. Skógardagur Norðurlands verður haldinn í Vaglaskógi á vegum Skógæktarinnar, Skógræktarfélags Eyfirðinga, Félags Skógarbænda á Norðurlandi og Sólskóga ehf. með veitingum, fróðleik og fjöri. Gengið verður á Hálshnjúk kl. 10 en dagskráin í skóginum hefst kl. 14.30. Í Fossselsskógi Aðaldal verður líka líf og fjör á vegum Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga og hefst dagskráin klukkan 13. Einnig verður gaman á Gunnfríðarstöðum á Bakásum í Austur-Húnavatnssýslu og hægt að reyna sig við að höggva tré með exi hjá Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga.

Austurland

Á Austurlandi er hinn margrómaði og hefðbundi viðburður, Skógardagurinn mikli, haldinn í Hallormsstaðaskógi að venju með viðamikilli dagskrá og miklu fjöri í samstarfi Skógræktarinnar, Félags skógarbænda á Austurlandi, Félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum og Félags nautgribabænda á Héraði og Fjörðum. Skógarhlaup hefst kl. 12 og hefðbundin dagskrá í Mörkinni kl. 13. Á Vopnafirði verður Skógræktarfélagið Landbót með ratleik fyrir börnin og fleira á fjölskyldustund kl. 14 á svæðinu utan og ofan við Lónin og loks skal nefna hamingju í Hálsaskógi við Djúpavog á vegum Skógræktarfélags Djúpavogs.

Nánar má kynna sér alla þessa sautján viðburði í skógum landsins á Skógargáttinni þar sem er sérstakur vefur um Líf í lundi.