Grein um Hekluskóga í riti SÞ um varnir gegn eyðimerkurmyndun
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga, og Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, skrifa grein um endurhæfingu gróðurvistkerfa á Íslandi í veglegt rit, Living Land, sem nýkomið er út á vegum UNCCD, eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Í ritinu eru tugir frásagna af árangursríkum landbótaverkefnum víðs vegar um heiminn.
Grein Hreins og Þórunnar heitir á ensku Building on partnerships and strong stakeholder involvement to tackle land degradation. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er í greininni lýst hvernig öflug samvinna og virk þátttaka margra sem málið varðar getur komið miklu til leiðar við endurhæfingu rofins lands.
Í upphafi greinarinnar kemur fram að Ísland sé vistfræðilega verst farna landið í Evrópu. Saga landeyðingar nái allt aftur til landnáms norrænna manna eða um 1100 ár þegar víkingarnir fundu þessa ósnortnu eldfjallaeyju nyrst í Atlantshafinu.
Þá er farið yfir að við landnám hafi um tveir þriðju Íslands verið gróið land og að minnsta kosti fjórðungur með skóg- og kjarrlendi. Óblíð veður og rofgjarn jarðvegur hafi gert að verkum að landið var viðkvæmt fyrir heilsársbeit búpenings og sókn landnámsmanna í skóglendið. Nú hafi um helmingur gróðurlendisins tapast og nær allt skóglendið þannig að um 42% landsins séu auðn. Auk þess geisi enn talsverð eða veruleg landeyðing á um helmingi þess gróðurlendis sem eftir er. Auðnamyndun á Íslandi megi að mestu leyti skrifa beinlínis á ofnýtingu náttúruauðlinda. Aðeins fáein dæmi sé hægt að nefna um auðnir sem myndast hafi eingöngu vegna eldsumbrota eða auðnir sem séu ofan gróðurmarka.
Í greininni rekja þau Hreinn og Þórunn líka stuttlega það verndar- og uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið allt frá árinu 1907. Þá voru fyrstu lögin um skógrækt og varnir gegn eyðingu lands sett á Alþingi og starfsemi skógræktar og landgræðslu varð til sem nú eru Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins. Margvísleg verkefni hafi verið unnin á vegum þessara stofnana alla tíð en á síðari árum hafi vaxandi áhersla verið lögð á þátttöku þeirra sem málið snertir beint til að stuðla að samstöðu og stuðningi við verndaraðgerðir og viðhalds endurhæfðra vistkerfa til framtíðar. Skógræktarhreyfingin sem spratt upp um 1930 hafi líka lagt drjúgan skerf að þessum málum alla tíð og undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar hafi áköf umræða í landinu um alvarlegt gróður- og jarðvegsástand landsins leitt til þess að samtökin Landvernd voru stofnuð í þeim tilgangi að styðja við jarðvegsverndarverkefni með svipuðum hætti og skógræktarhreyfingin hafði með góðum árangri stutt við skógræktarverkefni. Í kjölfarið hafi sprottið upp landgræðsluhópar víða. Þessi vakning hafi líka endurspeglast í aðgerðum stjórnvalda með endurskoðun landgræðslulaga og með sáttmála ríkisstjórnar sem varð til þess að opinber framlög jukust stórlega á níunda áratugnum til endurhæfingar vistkerfa og til að ýta undir aðferðir sjálfbærrar landnýtingar.
Í greininni fara þau síðan yfir þá þróun sem varð eftir 1990 þegar stofnanir skógræktar og landgræðslu tóku að virkja fólk til láréttrar þátttöku í verkefnum í stað þess að leggja áherslu á lóðrétt verkefni sem stýrt var ofan frá og stofnanirnar framkvæmdu sjálfar. Vinnubrögðin sem höfðu að talsverðu leyti byggst á hugmyndum landbúnaðar og jarðræktar hafi breyst og menn farið að vinna verkefnin í meiri mæli á forsendum vistkerfisins. Nú séu opinber landbótaverkefni byggð á öflugri þátttöku hagsmunafólks frá upphafi til enda og jafnvel eftir að formlegum verkefnum lýkur.
Á síðustu árum hefur fjölbreytilegri verkefnanna aukist mjög og menn farið að huga meira að fjölþættum og samverkandi áhrifum þeirra, segir í greininni. Markmiðin séu ekki síst að auka vitund fólks um jarðvegsvernd og samhenginu við loftslagsbreytingar, hvernig endurhæfing lands stuðlar að auknum lífsgæðum fólks og eflir framtíðarmöguleika þess. Í máli sínu nefna þau Hreinn og Þórunn að nú séu mörg samvinnuverkefni í gangi um skógrækt og landgræðslu sem ýmist sé stýrt af opinberum stofnunum, félagasamtökum eða sem sjálfstæðum verkefnum og styrkir komi bæði frá hinu opinbera og úr einkageiranum. Bent er á skýrsluna Vistheimt á Íslandi sem kom út 2011 þar sem sé að finna góða samantekt um þessi verkefni.
Því næst er í greininni sagt frá nokkrum stórum verkefnum í jarðvegsverndarmálum á Íslandi. Fyrst er rætt um verkefnið Bændur græða landið sem meðal annars hafi verið hrundið af stað til að auka traust bænda á landgræðsluyfirvöldum og efla samvinnu þar á milli. Verkefnið hafi stuðlað að endurhæfingu um 300 ferkílómetra (3%) rofins lands undir 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Meirihluti bænda stundi uppgræðsluverkefni til að stækka beitarhæft land sitt og þátttakendur lýsi því sem skyldu sinni að greiða skuldina við landið og skila því betra til afkomendanna en það var þegar þeir tóku við því.
Svo er sagt frá Landshlutaverkefnum í skógrækt sem einnig byggist á öflugu samstarfi hins opinbera og landeigenda, svæðisbundnu samtökunum Gróðri fyrir fólk í landnámi Ingólfs sem starfi í nágrenni Reykjavíkur og leggi m.a. áherslu á þátttöku skólafólks auk þess sem minnst er á það mikilvæga framlag Íslendinga til alþjóðlegrar jarðvegsverndar sem Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna er.
Loks er farið nokkuð ítarlega yfir Hekluskógaverkefnið sem byggist á mjög víðtæku samstarfi bæði opinberra stofnana, félagasamtaka, sveitarfélaga, landeigenda og einstaklinga. Frá því að verkefnið hófst 2007 hafi allur árangur verið nákvæmlega skráður í GIS-landupplýsingakerfi og mörg rannsóknarverkefni verið unnin á svæðinu. Á þessu ári hafi 215 landeigendur verið komnir til liðs við verkefnið og meira en hálf þriðja milljón trjáplantna verið gróðursett. Skógræktarsvæðið nái nú yfir meira en 1.300 hektara sem skiptist í reiti um allt svæðið og úr þessum reitum sé birkið víða farið að sá sér vel út af sjálfsdáðum. Verkefnið hafi tekist mjög vel og sé vel til þess fallið að verða fyrirmynd að sambærilegum verkefnum víðar á Íslandi á komandi árum.