Stjórn og starfsfólk Birtu lífeyrissjóðs ásamt fulltrúum Skógræktarinnar í Haukadal. Hanna Þórunn Sk…
Stjórn og starfsfólk Birtu lífeyrissjóðs ásamt fulltrúum Skógræktarinnar í Haukadal. Hanna Þórunn Skúladóttir, forstöðumaður skrifstofu- og rekstrarsviðs, Gylfi Ingvarsson stjórnarmaður, Pálmar Óli Magnússon stjórnarmaður, Ingibjörg Ólafsdóttir, varaformaður stjórnar, Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir stjórnarmaður, Bára Halldórsdóttir, varamaður stjórnar, Jakob Tryggvason, formaður stjórnar, Eyrún Einarsdóttir áhættustjóri, Kristján Geir Pétursson lögfræðingur, Sigþrúður Jónasdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs, Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri, Hrönn Jónsdóttir stjórnarmaður, Einar Hafsteinsson, varamaður stjórnar, Níels Magnússon, skógarhöggsmaður í Haukadal, og Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi. Ljósmynd af vef Birtu.

Birta lífeyrissjóður hefur gert þriggja ára samning við Skógræktina um gróðursetningu og skógrækt á alls þremur hekturum lands í Haukadal. Þar með er sjóðurinn fyrstur lífeyrissjóða til að gera samning við Skógræktina.

Ingibjörg Ólafsdóttir, varaformaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs, og Sigþrúður Jónasdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs við gróðursetningu. Ljósmynd af vef BirtuSamningurinn var undirritaður í bálskýli Skóg­rækt­arinnar í Haukadalsskógi að viðstaddri stjórn og varastjórn Birtu, nokkrum stjórnendum sjóðs­ins og fulltrúum Skógræktarinnar sem elduðu ketilkaffi og með því var boðið upp á kleinur. Sama dag gróðursetti starfsfólk Birtu 500 stafafuruplöntur á samningssvæðinu undir stjórn Trausta Jóhannssonar, skógarvarðar á Suðurlandi.
 
Áætlað er að gróðursettar verði 7.500 trjá­plönt­ur upp í samninginn á næstu þremur árum, stafafura, sitkagreni og alaskaösp. Skógræktin sér um gróðursetninguna en starfsfólk Birtu hyggst fylgjast vel með gangi mála og hefur þegar sett á dagskrá fjölskylduferð í Hauka­dal snemma næsta sumar.
 
Í frétt á vef Birtu lífeyrissjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi einsett sér að taka mörg smá og stór græn skref í starfsemi sinni og halda grænt bókhald yfir starfsemi sína í anda grænna skrefa í ríkisrekstri og grænna skrefa Reykjavíkurborgar.  Jafnframt segir að skógræktarverkefnið í Hauka­dal sé stórt skref og ein af megin­forsendum þessa starfs. Markmiðið sé að kolefnisjafna starfsemi lífeyrissjóðsins sjálfs, stjórnarmanna, stjórnenda og annars starfsfólks. Þannig taki Birta ábyrgð á afleiðingum eigin reksturs fyrir náttúruna, stuðli að því að draga úr koldíoxíði í andrúmslofti og binda jarðveg á gróðursnauðu svæði. Samkvæmt samningnum við Skógræktina verður kolefnisbinding og kolefnisforði í trjám, botngróðri og jarðvegi í Haukadal eign Birtu til ársins 2068.