Verðlaun voru veitt í ljóða- og ritgerðasamkeppni Yrkjusjóðs í Norræna húsinu föstudaginn 17. febrúar sl.
 
Í tilefni af Alþjóðlegu ári skóga 2011 og 20 ára formlegu afmæli Yrkjusjóðs árið 2012 ákvað sjóðurinn að efna til ljóða- og ritgerðasamkeppni meðal grunnskólabarna síðasta haust. Þema samkeppninnar var „Þetta gerir skógurinn fyrir mig“ en það er tilbrigði við meginstef Alþjóðlegs árs skóga.

Rúmlega 300 ljóð og rúmlega 80 ritgerðir bárust í keppnina, frá grunnskólabörnum um land allt. Verðlaun voru veitt fyrir ritgerð og ljóð í tveimur flokkum, fyrir miðstig (5.-7. bekk) og efsta stig (8.-10. bekk). Auk viðurkenningarskjals fengu verðlaunahafar 25.000 króna verðlaun til glaðnings sínum bekk.

Sigurður Pálsson, skáld og formaður Yrkjusjóðs, afhenti verðlaunin en hann sat í dómnefndinni ásamt Laufeyju Sigvaldadóttur kennara og Sölva Birni Sigurðssyni rithöfundi.

Verðlaunahafar eru:
Miðstig (5.-7. bekkur)
Ljóð : Áslaug Erla Haraldsdóttir, Grandaskóla
Ritgerð: Andrea Dís Steinarsdóttir, Klébergsskóla

Efsta stig (8.-10. bekkur)
Ljóð: Hafþór Gísli Hafþórsson, Norðlingaskóla
Ritgerð: Halldór Smári Arnarsson, Landakotsskóla

Frétt: Skógræktarfélag Íslands