Gróðursetning og grisjun meginverkefnin í sumar í umdæmi skógarvarðarins á Vesturlandi
Ljósmyndasýningin „Eyðibýli í Skorradal allt árið“verður opnuð á morgun, laugardaginn 11. júní kl. 17, við Stálpastaði í Skorradal. Myndirnar eru allar teknar í Skorradal og er áhersla lögð á þau eyðibýli sem eru í dalnum og árstíðirnar sem geta verið mjög breytilegar hér á Íslandi.
Stálpastaðir eru einmitt eyðibýli og fóru í eyði 1946. Afar veðruð steinsteypt fjóshlaðan er minnisvarði um búskapinn þar og hún er líka eitt viðfangsefna ljósmyndarans. Sýningin, sem stendur fram í ágúst, er samvinnuverkefni Kristínar Jónsdóttur, ljósmyndara á Hálsum, og Huldu Guðmundsdóttur á Fitjum með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Vesturlands, Skorradalshreppi, Tryggva Vals Sæmundssonar (halstak.is) og Skógræktar ríkisins.
Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, segir vel við hæfi að setja upp sýningu á gamla bæjarstæðinu á Stálpastöðum. Þetta sé fallegur og skjólsæll staður í skóginum en vert að benda fólki á að vera vel búið til fótanna því mikið gras sé á svæðinu og geti verið blautt.
Verkefnin á Vesturlandi í sumar
Að sögn Valdimars verða aðalverkefni sumarsins á starfsvæði hans gróðursetningar og grisjun. Nú er verið að auka á ný gróðursetningarverkefni í löndum Skógræktar ríkisins á Vesturlandi. Einkum verður gróðursett í landi Stóru-Drageyrar í Skorradal, bæði í auð svæði ofan skógarins sem þar er fyrir og inn í eyður eldri reita. Þetta verður bæði greni og fura, segir Valdimar, ríflega 4.000 plöntur af hvorri tegund. Einnig verði sett niður töluvert af alaskaösp í Litla-Skarði í Norðurárdal, bæði í nýja reiti og til að þétta eldri gróðursetningar, a.m.k. 2.000 aspir í 2 l pottum sem ræktaðar hafa verið á Tumastöðum. Einnig segir Valdimar að örlítið af rauðgreni og þini verði sett niður í Selskógi í sumar eða næsta sumar.
Að sögn Valdimars verður líklega vélgrisjað í haust í Stálpastaðaskógi. Þar voru dregnir út um 500 rúmmetrar seinni part vetrar eftir vélgrisjun. Grisjunar sé líka þörf í Norðtunguskógi í Borgarfirði og á Stóru-Drageyri í Skorradal þannig að verkefnin eru næg fram undan. Aðeins verði líka byrjað að huga að vegagerð svo hægt verði að grisja.
Aðspurður um frekari tíðindi segir Valdimar að mikil kurlsala hafi verið úr umdæminu í vor. Nú, þegar árið er varla hálfnað, sé æstum búið að selja jafnmikið kurl og allt árið í fyrra. Kaupandi á Akranesi taki t.d. kurl í heildsölu og selji áfram. Sá hefur tekið 38 sekki í vor. Þá voru sendir 12 sekkir vestur í Búðardal um daginn og einstaklingur kom og keypti 8 sekki einn daginn nefnd séu dæmi. Kurlið er notað í stígagerð, beð og fleira. Fólk er að átta sig á því, segir Valdimar, að þetta efni sé til, umhverfissvænt efni sem lítur vel út í garðinum og auk þess ódýrara en möl eða sandur.
Loks er vert að nefnaa að nýverið bættist ungur skógfræðingur í starfsmannahópinn í umdæmi skógarvarðarins á Vesturlandi. Hann heitir Jón Auðunn Bogason, lauk skógfræðinámi á Hvanneyri um síðustu áramót og er búsettur þar. Jón Auðunn er boðinn velkominn til starfa.