Heiðlóan er ekki algeng sjón í miðjum skógi en fátt er þó án undantekninga. Vorið 2015 var kalt í veðri og litla fæðu að hafa fyrir mófugla í frosnum úthaga. Þessi lóa leitaði inn í skóginn á Mógilsá þar sem mildara var í veðri og meiri von um orma. Ljósmynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Einu sinni enn tala forstöðumenn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi gegn skógrækt og nú á þrennum forsendum í fréttum RÚV laugardaginn 16. febrúar sl. Gagnrýni er af hinu góða því hún fær mann til að hugsa sinn gang og skerpa sýn. Hins vegar verður að gera þá kröfu að gagnrýnin sé raunhæf og sé byggð á rökum ef mark á að vera á henni takandi. Sé hún ýkt eða byggð á hæpnum forsendum er lítið gagn af henni að hafa.
Í fyrsta lagi
er enn og aftur dregið upp að lóur og spóar verpi ekki í skóglendi. Ekki verður deilt um það, en látið er að því liggja að það aukin skógrækt muni hafa áhrif á stofnstærðir þessara fugla, sem á ekki við rök að styðjast. Undirliggjandi er sú hugsun að það sé framboð á varpsvæðum sem mestu ráði um stofnstærð og að öll varpsvæði séu fullsetin. Margt annað en framboð á varpsvæðum hefur áhrif á afkomu og stofnstærðir fugla. Nefna má afrán og fæðuframboð sem augljósa þætti, og ekkert síður að vetrarlagi en á sumrin. Þessar tegundir eru t.d. veiddar að vetrarlagi í Suður-Evrópu og Afríku. Er ekki allt eins líklegt að vetrarafkoma takmarki stofnstærð eins og framboð á varplöndum? Sé það raunin er ólíklegt að lítils háttar breytingar á heildarflatarmáli mögulegra varplanda hafi áhrif á stofnstærð.
Á liðinni hálfri öld hefur flatarmál skóglendis u.þ.b. tvöfaldast, frá ca. 1% og upp í ca. 2% af flatarmáli landsins, bæði vegna gróðursetningar og vegna náttúrulegrar útbreiðslu birkis og víðis. Engin merki eru um að stofnstærðir lóu og spóa hafi minnkað á þeim tíma. Þvert á móti virðast stofnarnir frekar fara stækkandi og nemur stofnstærð hvorrar tegundarinnar hundruðum þúsunda varppara. Þó að við myndum tvöfalda eða jafnvel fjórfalda flatarmál skóglendis á þessari öld er alls ekki þar með sagt að það muni hafa áhrif á stofnstærðir þessara tegunda.
Í viðbót við það að ekkert bendi til að varplönd séu fullsetin, þá eru nú að verða til ný varplönd. Er það bæði vegna landgræðslustarfs og náttúrulegrar framvindu sem ný svæði fara að henta lóu og spóa. Báðar tegndirnar verpa nú í lúpínubreiðunum á Hólasandi í talsverðum mæli, þar sem hvorug var til staðar fyrir 25 árum svo dæmi sé tekið. Rannsóknir á vegum NÍ á endurvarpi blaðgrænu benda til aukins þéttleika gróðurs víða á Íslandi. Það stafar sums staðar af því að skógur eða kjarr vaxi þar sem áður var mólendi og það hentar þá ekki lengur lóu og spóa sem varpland. En þau svæði eru mun stærri þar sem melar og annað rýrlendi verður betur gróið og hentar því lóu og spóa betur en áður. Möguleg varplönd lóu og spóa fara nú stækkandi, ekki minnkandi, og líklegt er að svo verði áfram á komandi árum.
Umfram aðrar fuglategundir græddu lóa og spói á skógareyðingunni á meðan músarrindlar og auðnutittlingar töpuðu, svo dæmi séu nefnd. Vert er að taka fram að íslenski músarrindillinn er sérstök undirtegund sem finnst ekki annars staðar í heiminum. Af honum eru aðeins 3.000-5.000 varppör og hann kýs helst að vera í skóglendi. En einhverra hluta vegna er því aldrei haldið fram að við berum „sérstaka ábyrgð“ á honum.
Margt getur áhrif á stofnstærðir lóu og spóa. Því er það furðulegt að taka skógrækt sérstaklega fram sem ógnvald í þeim efnum, reyndar fráleitt.
Í öðru lagi
er því enn haldið fram að skógrækt sé skipulagslaus. Það er rangt. Skógrækt er betur skipulögð en önnur landnýting yfirleitt. Öll skógrækt sem styrkt er af ríkinu, sem er um 95% allrar skógræktar á Íslandi, er háð samningum um land og ræktunaráætlunum sem m.a. taka tillit til verndarsvæða og hönnunar skógarins í landslagi. Öll ný skógrækt er háð framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags og eftir atvikum tilkynningu til Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum.
Gott nýlegt dæmi um það er fyrirhuguð skógrækt á Hafnarsandi, þar sem kallast Þorláksskógar. Það verkefni fór í gegnum skipulagsferli og tilkynningarferli vegna mats á umhverfisáhrifum sem tók meira en ár. Í því komu fram athugasemdir frá bæði NÍ og Umhverfisstofnun sem svarað var með viðeigandi upplýsingaöflun og upplýsingagjöf. Eftir það fékk verkefnið framkvæmdaleyfi.
Það er ekki heldur rétt að aldrei hafi verið gerð heildaráætlun. Slík áætlun var gerð fyrir allt Norðurland og samþykkt af Skipulagsstofnun eftir þriggja ára vinnu. Henni var síðan hafnað af umhverfisráðuneytinu á mjög veikum og undarlegum forsendum. Í stað þeirrar leiðar er nú verið að vinna með sveitarfélögum að skipulagi skógræktar á sveitarfélagvísu og þegar það er allt dregið saman verður komin landsáætlun.
Þeir sem enga ábyrgð bera á framkvæmdum eru gjarnir á að krefjast meira skipulags og markmið sumra er að „bæta“ skipulagið svo mikið að allt sitji fast í skrifræði og ekkert sé hægt að gera. Það er markmið Skógræktarinnar að hafa gott skipulag sem tekur á nauðsynlegum þáttum, þ.m.t. verndarþáttum, og við vinnum að því að svo sé. Þunglamalegt skipulag og tilgangslaust skrifræði er hins vegar ekki markmið.
Í þriðja lagi
voru nefndar þær kærur sem sendar voru til Bernarsamningsins og AEWA (samnings um vernd fugla sem fara á milli Evrópu og Afríku) um stefnu í skógrækt. Undirritaður var með í að svara spurningum sendinefnda beggja þessara samninga. Niðurstaðan í báðum tilvikum var ekki sú að fara fram á að breyta ætti áformum um aukna skógrækt. Staðreyndin er sú að þegar sendinefndirnar sáu hvað skógrækt á Íslandi var smá í sniðum miðað við stærð landsins varð þeim ljóst að ekki stafaði nein hætta af henni fyrir fuglastofna í fyrirsjáanlegri framtíð. Þó komu tilmæli frá þeim um eitt og annað sem hægt væri að gera betur, eins og ávallt er raunin. Sumt af því er fullkomlega í sátt við vinnulag sem þegar er viðhaft í skógrækt. Annað felur í sér þróun. Að þessu er unnið og skógrækt á Íslandi er ekki í neinu stríði við þessa samninga.
Að lokum
Ég vil að sjálfsögðu ekki að framkvæmdir í skógrækt leiði til fækkunar á lóum og spóum og ég þekki engan skógræktarmann sem hefur nokkuð á móti þeim fuglategundum. Hins vegar er ekki heldur neitt sem bendir til þess að skógrækt sé að hafa slík áhrif eða muni gera það í fyrirsjáanlegri framtíð.
Það er vá fram undan og reyndar er hún þegar farin að gera verulega vart við sig. Hún á hugsanlega sök á því að haftyrðillinn verpir ekki lengur á Íslandi og á líklega þátt í erfiðleikum stuttnefju og lunda. Á annan hátt mun sama vá hugsanlega hafa áhrif á stofnstærðir lóu og spóa og marga annarra fuglastofna, en ekki þó endilega til fækkunar. Hún mun hafa mikil áhrif á allt lífríkið, ekkert síður en á jöklana. Í þeim breytingum sem verða vegna hlýnunar andrúmsloftsins munu sumar lífverur græða en aðrar tapa. En friðlýsing mun ekki bjarga Vatnajökli. „Bætt“ skipulag með auknu skrifræði mun ekki bjarga neinum fuglastofni og það munu ekki heldur kærur til fjölþjóðasamninga. Hins vegar getur vel verið að aukin skógrækt geti verið liður í að bjarga því sem bjargað verður.
Þröstur Eysteinsson
skógræktarstjóri