Eftir undirritunina á Mógilsá í dag, frá vinstri: Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, Andri Már Sigurðsson, ritstjóri í náttúrugreinum, Óskar Níelsson þróunarstjóri, Gunnhildur Steinarsdóttir kynningarstjóri, Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Ljósmynd: Ólafur Oddsson
Ákveðið hefur verið að Menntamálastofnun taki að sér verkefnabanka Skógræktarinnar um útinám, „Lesið í skóginn“. Verkefnin í bankanum verða gefin út á rafrænu formi og miðlað til skóla landsins. Samningur þessa efnis var undirritaður á Mógilsá í dag.
Verkefnabankinn Lesið í skóginn var formlega opnaður á degi íslenskrar náttúru 16. september 2012. Hann er angi af fræðslustarfi sem hófst með námskeiðaröðinni Lesið í skóginn – tálgað í tré árið 1999. Tuttugu ár eru því liðin frá því að Skógræktin hóf markvisst að halda námskeið fyrir skólanemendur og almenning um fjölbreytilegar hliðar skóga, skógræktar og skógarnytja.
Í verkefnabankanum Lesið í skóginn er að finna útikennsluverkefni fyrir öll aldursstig grunnskólans í öllum námsgreinum og vinna má verkefnin allt árið um kring. Samkvæmt samningnum mun Menntamálastofnun endurútgefa verkefni bankans á rafrænu formi. Jafnframt verður bætt við nýjum verkefnum sem snerta loftslagsmál og kolefnisbindingu. Menntamálastofnun sér um ritstjórn efnisins og verður efnið tengt við aðalnámskrá grunnskóla. Í framhaldinu verður fræðslubankinn aðgengilegur á vef Menntamálastofnunar ásamt öðru kennsluefni grunnskóla landsins og kynnt kennurum og stjórnendum landsins.
Í nýju útgáfunni gera Skógræktin og Menntamálastofnun eftirtaldar breytingar á verkefnabankanum Lesið í skóginn:
- Endurskipuleggja verkefnabankann þannig að hann fjalli um tré og skóg frá fræi að fullþroska skógi, þ.e. ræktun, umhirðu og nytjar
- Bæta stuttum inngangi við verkefnabankann um skógartengt útinám, búnað, áhöld, efnisöflun, markmið þess og helstu einkenni
- Tengja hvert verkefni við hæfniviðmið í aðalnámskrá í viðeigandi fögum
- Hýsa verkefnabankann á rafrænu formi á vef Menntamálastofnunar og gera aðgengilegan fyrir skóla landsins
- Kynna verkefnabankann grunnskólum og skólastjórnendum
Markmiðin með endurútgáfu þessa verkefnabanka eru:
- Að bjóða kennurum upp á aðgengileg verkfæri til að vinna með hæfniviðmið aðalnámskrár á flestum greinasviðum og grunnþáttum menntunar í anda sjálfbærni
- Að efla tengingu nemenda, kennara og skóla við umhverfi sitt
- Að efla tengingu nemenda, kennara og skóla við íslenska náttúru
- Að efla þekkingu á og vitund um gildi skógarins
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, undirrituðu samninginn í starfstöð Skógræktarinnar að Mógilsá við Kollafjörð í dag, föstudaginn 22. nóvember. Fyrir hönd Skógræktarinnar hefur Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi farið fyrir samstarfinu við Menntamálastofnun. Ólafur hefur í áratugi unnið ötullega að fræðslumálum á sviði skógræktar og verið í nánu samstarfi við fólk á öllum stigum skólakerfisins. Hann var líka á sínum tíma upphafsmaður að því að koma upp Verkefnabankanum sem hingað til hefur verið fóstraður á vef Skógræktarinnar.
Við undirritunina í dag lýstu fulltrúar Menntamálastofnunar mikilli ánægju á því mikla og góða fræðslustarfi sem unnið hefur verið hjá Skógræktinni á undanförnum árum og efninu sem þegar liggur fyrir. Hjá Skógræktinni er sömuleiðis mikil ánægja að geta lagt fram þetta sama efni ásamt þekkingu og ráðgjöf. Vonast er til að þetta muni nýtast vel til skógartengds útináms á öllum skólastigum og jafnframt í sí- og endurmenntun almennings.