Frá skógræktarsvæðinu í Úlfarsfelli. Mynd: Skógræktarfélag Reykjavíkur/heidmork.is
Götur í öllum hverfum fá grænna yfirbragð og meiri gróður, græn svæði og almenningsgarðar verða fegraðir, ásýnd borgarinnar verður blómlegri og skógrækt aukin með gróðursetningu Loftslagsskóga Reykjavíkur. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun 2020-2025 sem hvort tveggja var samþykkt í borgarstjórn í vikunni. Ræktun Loftslagsskóga Reykjavíkur er þegar hafin og þar er áætlað að bindist 7 tonn af koltvísýringi á hverju ári að meðaltali næstu hálfa öldina.
Sagt er frá því í frétt á vef Reykjavíkurborgar að nú muni borgin sækja fram með Græna planinu svokallaða sem fléttað verður inn í ýmsar fjárfestingar á næstu árum, húsnæði, ný hverfi, göngu- og hjólastígamannvirki og fleira. Loftslagsskógar Reykjavíkur verða ræktaðir í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur sem hóf gróðursetningu í þessu verkefni í sumar.
Í byrjun september var sagt frá því á vef félagsins, heidmork.is, að gróðursetning væri hafin í Loftslagsskóga í Úlfarsfelli. Með þessu verkefni er ætlunin að binda kolefni á móti losun frá starfsemi ýmissa sviða og stofnana borgarinnar. Um leið verða til nýir útivistarskógar í borgarlandinu sem veita kærkomin tækifæri til útiveru og lægja vind. Gert er ráð fyrir því að þessi skógur þeki um 150 hektara svæði þegar yfir lýkur.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jóhann Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, undirrituðu formlega samning um verkefnið 25. júní í sumar. Skógræktaráætlunin sem gerð var fyrir verkefnið er til tíu ára. Unnið verður á um 15 hektara svæði á hverju ári. Notaðar verða fjölbreyttar trjátegundir og runnar við ræktunina. Samhliða er unnið að því að stækka og þétta svæði þar sem þegar hefur verið gróðursett og sömuleiðis verður gróðursett í lúpínubreiður. Í sumar voru gróðursettar yfir 10.000 trjáplöntur og að auki var talsverðu dreift af grasfræi, fræi niturbindandi hvítsmára og áburði.
Kolefnisbinding, skjól og útivist
Á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur er haft eftir Gústaf Jarli Viðarssyni, skógfræðingi og starfsmanni félagsins, að svæðið sem nú er unnið á sé sums staðar illa farið, gróðurþekjan rýr og hlíðin á köflum ógróin. Því þurfi að styrkja gróðurþekjuna samhliða gróðursetningu trjáplantna. Mest verður gróðursett af stafafuru, ilmbjörk, sitkagreni og alaskaösp en einnig talsvert af reyniviði og elri. Auk þess verða ýmsar fleiri tegundir settar niður, berjarunnar, víðitegundir og fleira, enda markmiðið bæði kolefnisbinding og uppbygging á aðlaðandi útivistarsvæði.
Þegar er fyrir talsverður fjöldi trjáplantna á skógræktarsvæðinu í Úlfarsfelli. Gróðursettir voru nokkrir tugir þúsunda trjáplantna árin 2008 og 2009 samkvæmt samningi borgarinnar við Skógræktarfélag Reykjavíkur sem hluti af svokölluðum Grænum skrefum borgarinnar. Hluti af því fór niður í Úlfarsfelli, tré sem senn fara að veita skjól að sögn Gústafs Jarls.
Miðað við 7 tonna meðalbindingu á hektara á ári
Verulegt magn kolefnis mun bindast í skógunum, segir Gústaf Jarl. Reikna megi með að á hverjum hektara skóglendis bindist 7 tonn á ári af CO2 að meðaltali næstu 50 árin. Trjáplöntur binda lítið fyrstu árin meðan þær eru að koma sér fyrir í jarðveginum en þegar vöxturinn er kominn vel af stað verður bindingin mikil og nær þessu meðaltali yfir 50 ár. Hve mikið kolefni trén binda veltur meðal annars á aðstæðum og trjátegundum. Á Íslandi getur gróðursett birki bundið í kringum þrjú tonn á hektara, sitkagreni 6,5-10,5 tonn og alaskaösp frá 8 og upp í rúm tuttugu kíló eftir frjósemi eða grósku lands.