Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd: Ríkisútvarpið
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Ljósmynd: Ríkisútvarpið

Í hádegisfréttum Útvarps í dag, 19. febrúar, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, að í frumvarpi að nýjum heildarlögum um skógrækt væri komið til móts við athugasemdir um áhrif skógræktar á fuglalíf. Kveðið er á um gerð landsáætlunar í skógrækt í frumvarpinu og þar beri að hafa ákveðnar forsendur fyrir vali á landi til skógræktar.

Fréttin er á þessa leið:

Gert er ráð fyrir landsáætlun í skógrækt í frumvarpi til laga um skógrækt sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra segir að með því sé brugðist við athugasemdum sem komið hafa frá alþjóðasamningum um náttúruvernd um íslenska skógrækt

Bernarsamningurinn og samningur um vernd votlendisfugla eru meðal alþjóðasamninga sem Íslendingar eru aðilar að. Umsjónarmenn þeirra hafa gert athugsemdir við skógrækt á Íslandi og sagt að gera þurfi betri áætlanir um hvar megi planta trjám. 
Forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi lýsti nýlega yfir áhyggjum af framtíð heiðlóu hér á landi, vegna aukinnar grósku og skógræktar á landinu. Búsvæði hennar er mólendi.

Guðmundur Ingi segir að í frumvarpi að nýjum heildarlögum um skógrækt sé komið til móts við þessar athugasemdir.  „Í þessari nýju löggjöf er m.a. gert ráð fyrir svokallaðri landsáætlun í skógrækt þar sem að forsendur fyrir vali á landi til skógræktar taka tillit til náttúruverndar, minjaverndar, landslags endurheimtar náttúruskóga, það eru birkiskógarnir okkar, samhengis við líffræðilega fjölbreytni og margt af þessum atriðum sem þarna eru nefnd í þessum kvörtunum frá þessum alþjóðasamningum.“ 

Skógræktin hafi unnið eftir lögum frá 1955 sem eru gömul og úrelt. „En núna kemur mjög skýrt fyrirmæli í landslögum verði þetta frumvarp mitt að lögum þannig að þá hefst vinna við þetta heilstætt á öllu landinu.“ 

Samkvæmt frumvarpinu ber að hafa, við gerð landsáætlunarinnar, ákveðnar forsendur fyrir vali á landi til skógræktar.  „Og þar með talið náttúrlega mólendi og önnur vistkerfi sem eru mikilvæg fyrir hinar ýmsu tegundir.“ 

Og á landsáætluninni þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum.

„Þannig að þar er aðkoma almennings og allra hagsmunaaðila í öllu því ferli. Þannig að ég tel að með þessari breytingu séum við færa löggjöfina um skógrækt mjög svo inn í nútímann.“

 

Texti: Pétur Halldórsson