Lóuþræll, fyrsta starfsmannahús Skógræktarinnar í Þjórsárdal, reist 1962 og klætt með timbri úr skóg…
Lóuþræll, fyrsta starfsmannahús Skógræktarinnar í Þjórsárdal, reist 1962 og klætt með timbri úr skóginum sumarið 2016

Afgangsefni notað í standandi viðarklæðningu

Fyrsti starfsmannabústaður Skógrækt­ar­inn­ar í Þjórsárdal var reistur um 1962. Þetta er timburhús með skúrþaki og þar má hýsa fimm manns í gistingu. Það þjónar einnig að hluta sem geymsla fyrir áhöld og tæki sem tengjast starfseminni í Þjórs­ár­dal. Húsið er kallað Lóþræll og dregur nafn sitt af samnefndum þjóðveldisbæ sem stóð í Þjórsárdal en fór í eyði í Heklugosi 1103.

Lóþræll var orðinn heldur óásjálegur og því var ráðist í það verk í sumar að lagfæra hann að utanverðu. Í sögunarmyllunni í Þjórsárdal hefur að undanförnu verið unnið að því að vinna timbur í nýtt þjónustuhús sem verið er að reisa í Laugarvatnsskógi. Við þá vinnslu féll til afgangsefni sem upplagt var að nýta í standandi viðarklæðningu á Lóþræl. Þetta eru misbreið óköntuð borð og kemur klæðningin sérlega vel út og hressir virkilega upp á húsið.

Klæðningin er unnin úr sitkagreni, trjám af kvæminu Homer sem gróðursett voru 1968. Borðin eru 19 mm þykk. Borin var á klæðninguna sveppavörn, C-tox, og síðan viðarolía yfir. Grisjunina, flettinguna og smíðina unnu þeir Jóhannes S. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, og  Magnús Fannar Guðmundsson skógarhöggsmaður.


Magnús Fannar Guðmundsson skógarhöggsmaður og Jóhannes H. Sigurðsson,
aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, stoltir að afloknu góðu verki.


Lóþræll kominn í nýju fötin og falleg íslensk greniborð í forgrunni.


Hús sem orðið var til óprýði er nú til mikillar prýði
á starfstöð Skógræktarinnar í Þjórsárdal.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Jóhannes H. Sigurðsson